Kornverð mun lækka á komandi misserum

Danskir sérfræðingar telja að miklar verðhækkanir á matvælaverði séu yfirstaðnar og á komandi árum muni matvælaverð haldast stöðugt eða jafnvel lækka. Framleiðslan muni aukast gríðarlega og það valdi auknu framboði og lækkandi verði. Leif Nielsen, aðalhagfræðingur hjá Landbúnaðarráðinu í Danmörku, segist vera sammála þessu mati í aðalatriðum og kornverð hafi nú þegar náð hæstu verðum. Hann segir að kornverð muni lækka á komandi mánuðum og árum þó að það verði kannski ekki eins lágt og það var fyrir hækkanir.
„Hækkanirnar eru tilkomnar vegna aukinnar eftirpsurnar og því er rökrétt að korn muni lækka í verði með auknu framboði. Framleiðslan er vaxandi í S-Ameríku, Asíu og S-Evrópu og því mun verðið lækka. Annað er að olíuverð hefur mikil áhrif á framleiðslu lífeldsneytis og það hversu ódýr matvara er“, segir Leif Nielsen.

Fyrir íslenska bændur eru þetta góðar fréttir og þá kannski einkum og sér í lagi mjólkurframleiðendur og framleiðendur svína- og kjúklingakjöts en þær greinar reiða sig hvað mest á notkun kjarnfóðurs. Með lækkandi kornverði á að skapast grundvöllur fyrir lægra verði á kjarnfóðri en það hefur hækkað gríðarmikið á síðustu mánuðum.


back to top