Kölkun jarðvegs

Sýrustig jarðvegs er atriði í jarðræktinni sem allt of fáir bændur gefa gaum. Vissulega sprettur gróðurinn þó menn slái slöku við í kölkuninni en hvaða gróður er það sem er að spretta? Er það sáðgresið sem menn hafa keppst við að sá í túnin eða er gróðurinn sem hefur aðlagað sig að súrum jarðvegi, s.s. snarrót, língresi og túnvingull, að ná yfirhöndinni?
Ástæður þess að bændur eru hvattir til að huga að kölkun túnanna eru einkum tvær. Í fyrsta lagi að reyna að tryggja eins og kostur er að sáðgresið fái eins góðar aðstæður til að lifa og vaxa og kostur er. Í öðru lagi að tryggja að steinefnainnihald grasanna verði gott og þar með gott fóður, en kalk og kalkríkur áburður eykur alltaf kalsíummagn gróðurs og gerir hann hollari mönnum og dýrum.
Þegar dreifa á kalki á gróin tún er yfirleitt ráðlegast að dreifa því að hausti til, þó áður en jörð gegnfrýs. Til þess liggja einkum þrjár ástæður:


  • Í fyrsta lagi er sjálfsagt að hlífa túnunum sem mest við umferð á vorin og reyna af fremsta megni að komast hjá þjöppun jarðvegsins á þeim tíma. Plönturnar geta þá nýtt sér loftun jarðvegsins sem fæst með frostlyftingu að vetrinum.
  • Í öðru lagi er ekki gott að dreifa skeljasandi og áburði á sama tíma að vori þar sem efnasamband getur myndast milli kalks (skeljasands) og köfnunarefnishluta áburðarins sem myndar þá lofttegund sem rýkur burt. Hætta er því á að köfnunarefni áburðarins nýtist gróðrinum ekki ef bæði áburði og kalki er dreift yfir tún á sama tíma að vori. Sé skeljasandi dreift að hausti gengur hann niður í svörðinn yfir veturinn svo hættan af þessu verður hverfandi.
  • Í þriðja lagi er svo sannarlega nóg að gera á vorin í öðrum verkefnum jarðræktarinnar sem minnkar líkurnar á að kölkun verði framkvæmd.

Við kölkun í nýræktir og grænfóðurakra er hins vegar ráðlegt að kalka á vorin eða a.m.k. eftir að búið er að plægja til að kalkið tapist ekki of langt niður í jarðveginn. Gott er að kalka þegar aðeins á eftir að herfa/tæta síðustu umferðina. Þá blandast skeljasandurinn vel við efsta lag yfirborðsins en liggur samt ekki ofaná og kemst því síður í beint samband við köfnunarefni áburðarins.
Þegar tún og akrar hér á landi eru kölkuð er langoftast notaður skeljasandur sem tekinn er úr fjörum eða dælt upp af sjávarbotni. Algengt er að 40-60% af sandinum sé kalsíumkarbónat (CaCO3) hitt er basaltsandur. Auk kalksins mun vera 1-1,5% magnesíum í skeljasandi sem er mjög af hinu góða. Æskilegt er að skelin í sandinum sé ekki mjög gróf og því er harpaður skeljasandur talinn betri, auk þess sem hann er þá laus við grjót sem óhjákvæmilega kemur með af sjávarbotni.
Aðrir góðir kalkgjafar eru áburðarkalk, náttúrukalk, dólómítkalk og jordbrukskalk. Þessir kalkgjafar eru skjótvirkari og eru einkum hugsaðir að vori og sumri til að bjarga sprettu ef í ljós kemur að lágt sýrustig hefur hamlandi áhrif á sprettu. Kölkun með skeljasandi að hausti er ódýrasta leiðin til að laga sýrustig jarðvegsins til lengri tíma.


Hvað jarðvegsgerð snertir þarf mun minna af skeljasandi á sandjarðveg en á t.d. mýri til að jákvæð áhrif kölkunar komi fram. Algengt er að 1-2 t/ha af skeljasandi dugi á sandjarðveg meðan 4-6 t/ha þarf af skeljasandi á mýrartún til að sambærileg áhrif verði og sýrustigið jarðvegsins hækki. Móajarðvegur er síðan mitt á milli.
Við yfirbreiðslu er ekki hægt að kalka eins mikið og í opna akra þar sem sandurinn verður að ná að ganga niður í svörðinn yfir veturinn. Má telja að 1,5-3 t/ha sé hæfilegt magn til að svo megi verða. Hafið alltaf samband við ráðunaut vegna kölkunar.


Kjörsýrustig jurta er misjafnt, t.d. þola kartöflur súran jarðveg nokkuð vel en gefa þó hámarksuppskeru við tiltölulega hátt sýrustig. Minni hætta er á að kartöflur spillist af kláða ef jarðvegurinn er nokkuð súr og þarf að feta ákveðinn milliveg til að sameina þessa tvo kosti. Reynslan sýnir að millivegurinn liggur við pH 5,7 (m.v. pH mælt í vatni).
Almennt á það við að sýrustig í sáðgresistúnum (vallarfoxgras) skuli vera að lágmarki pH 5,3. Ef það er of lágt er niðurstaðan lélegri uppskera. Ástæðulaust er þó að reyna að spenna sýrustigið mikið yfir pH 6,0 í venjulegri túnrækt. Nytjajurtir af krossblómaætt, s.s. fóðurkál og fóðurnæpur, þurfa fremur hátt sýrustig, einnig smári. Bygg þolir líka mjög illa súra jörð. Ef rækta á þessar tegundir með góðum árangri þarf sýrustig að vera um og yfir pH 6,0 og helst allt að pH 6,5.


Þegar skeljasandi er dreift ætti skilyrðislaust að nota til þess sérbúna kalkdreifara sem eru öflugari en venjulegir kastdreifarar. Þeir bændur sem hafa freistast til að nota kastdreifarana við dreifingu á skeljasandi hafa lent í því að hörð kalkkorn komist inn í legur og eyðileggi þá.


Að lokum skal á það bent að kölkun mun aldrei skila sér ef aðrir þættir ræktunarinnar eru ekki í lagi s.s. framræsla!


Jóhannes Hr. Símonarson


back to top