Kartöflugrös víða að falla

Í síðustu viku vöknuðu kartöflubændur í Þykkvabænum og þar í kring upp við vondan draum þar sem næturfrost hafði orðið. Mest af grösunum féll og vöxtur kartaflnanna því lítill eftir það. Þetta er bagalegt fyrir bændur á þessum slóðum.


Þótt sumarið hafi verið óvenjulega hlýtt þá hefur nánast ekkert rignt.  Kartöflubændur höfðu vonast eftir vexti lengra fram á haustið og hefði það skipt sköpum fyrir uppskeru þessa sumars ef frostið hefði komið nokkru á eftir rigningunum að undanförnu.  Væntanlega munu kartöflubændur á þessu svæði setja allt á fullt við upptöku um eða upp úr næstu helgi.

Á Eyjafjarðarsvæðinu kom næturfrost óvænt aðfararnótt sl. mánudags, en það hefur ekki gerst svo snemma árum saman.  Töluvert féll af grösum, sérstaklega innst í firðinum.


Að sögn Bergvins Jóhannssonar, formanns Landssambands kartöflubænda er útlit fyrir að íslenskar kartöflur muni vanta þegar fer að líða á veturinn.  

Meðfylgjandi frétt tók Magnús Hlynur Hreiðarsson á Þykkvabæjarsvæðinu.


back to top