Jörðin seld án auglýsingar

Í Morgunblaðinu í dag, fimmtudaginn 29. apríl, er viðtal við Sigurgeir Runólfsson bónda á Skáldabúðum. Þar segir hann farir sínar ekki alveg sléttar í viðskiptum sínum við bankakerfið en hann hefur neyðst til að selja jörðina eftir að viðskiptabanki hans tók þá ákvörðun.
Sigurgeir segist hafa reynt að berjast á móti þessu, en eins manns stríð endi aldrei vel. Hann segir jafnframt að jörðin hafi verið seld án þess að auglýsa hana og að hann og kona hans, Þórey Guðmundsdóttir, séu óánægð með vinnubrögð bankans en hafi ekki treyst sér til annars en að samþykkja skilmála bankans, enda hafi þau staðið frammi fyrir því að vera lýst gjaldþrota ef þau skrifuðu ekki undir samning um sölu jarðarinnar. Sigurgeir segir fjölskylduna vera á götunni og sig atvinnulausan.

Var ráðlagt að taka erlent lán
Sigurgeir er fæddur og uppalinn á Skáldabúðum og tók við búi foreldra sinna árið 2000. Fimm árum síðar eða árið 2005 var fjósinu á Skáldabúðum breytt í legubásafjós, keyptur mjaltaþjónn og búið stækkað, m.a. keyptur mjólkurkvóti. Þá voru túnin stækkuð umtalsvert eða úr 38 ha. í 103 ha.
Í byrjun voru þessar fjárfestingar fjármagnaðar með innlendum verðtryggðum lánum hjá Íslandsbanka. Þau lán hækkuðu í takt við verðbólgu og þegar Sigurgeir lenti greiðsluerfiðleikum stakk bankinn upp á að breyta lánunum í erlend lán. Þannig var 60 milljóna króna láni breytt í erlent lán sem nú er komið yfir 130 milljónir. Þegar þessi breyting var gerð stóð gengisvísitalan í um 130. „Hann sagði við mig í bankanum að þegar gengisvísitalan væri komin niður í 110 yrði láninu aftur breytt yfir í íslenskt lán og við myndum hagnast á lækkuninni. Manni þótti þetta allt mjög sniðugt,“ sagði Sigurgeir sem segir að hann hefði sett allt sitt traust á ráðleggingar bankans.


Selja átti „eins hratt og hljóðlega“ og hægt væri
Heildarskuldir búsins á Skáldabúðum voru vel yfir 200 milljónir þegar jörðin var seld, en þær voru nær allar við Íslandsbanka.
„Það sem við erum ósátt við er hvað bankinn kom óheiðarlega fram við okkur. Hann laug að okkur. Í desember 2008 fengum við tölvupóst frá bankanum þar sem sagði: „Ykkar mál voru samþykkt, megum frysta lánin og bjarga ykkur aur fyrir heyi. Þurfum að útbúa pappírana, læt ykkur vita þegar þeir eru tilbúnir.“


Fulltrúar bankans komu til okkar í september í vetur og spurðu hvað við vildum gera. Við sögðum að við vildum halda áfram að búa, en sögðum að það væri kannski ekki í okkar höndum að ákveða það vegna þess að bankinn hefði þetta allt í hendi sér. Þeir sögðu engu að síður að þeir myndu ganga í málið og gera okkur kleift að búa áfram. Í kjölfarið var aftur gerð úttekt á fjárhagsstöðunni og búin til rekstraráætlun þar sem m.a. var reiknað með kostnaði við endurbætur á íbúðarhúsinu.


Um áramót urðu eigendaskipti á Íslandsbanka og í fyrstu vikunni í janúar fengum við hins vegar þau svör að það eigi að selja þetta „eins hratt og hljóðlega og hægt er“ eins og það var orðað,“ sagði Sigurgeir.


Sigurgeir sagði að eftir að þessi ákvörðun lá fyrir hefðu mál gengið hratt fyrir sig. Fyrir um tveimur árum, þegar höfuðstóll lánanna hafði hækkað mikið, benti bankinn Sigurgeiri á þann kost að setja jörðina á sölu sem var gert. Þá kom tilboð í jörðina upp á um 230 milljónir. Hann taldi það of lágt verð og hafnaði tilboðinu. Eftir áramótin benti bankinn þeim á að kanna aftur hvort sami aðili væri tilbúinn til að kaupa jörðina. Í framhaldi gerði hann tilboð í jörðina upp á 150 milljónir.


Þrýstu á með því að lækka yfirdráttarheimildina
„Þegar sá sem keypti lagði fram kauptilboð mætti útibústjóri Íslandsbanka á Selfossi til að taka afstöðu til tilboðsins. Hann gerði gagntilboð vegna þess að við höfðum enga heimild til þess. Tilboðið fór síðan fyrir nefnd í bankanum þar sem málið var afgreitt.“
Sigurgeir sagði að á fundinum þar sem tilboðið var lagt fram hefði útibústjóri Íslandsbanka sagt með skýrum hætti að ef þau féllust á að vinna að málinu í samræmi við vilja bankans yrðu þau ekki gerð gjaldþrota. Íslandsbanki var ekki með veð í nautgripunum og hann gerði þeim tilboð um að kaupa gripina.


Sigurgeir og Þórey fengu ekki langan tíma til að hugsa sig um. Um miðjan apríl fengu þau upplýsingar um að bankinn hefði tekið allt mjólkurinnlegg fyrir marsmánuð, sem var um 2 milljónir króna, til sín og lækkaði yfirdráttarheimild búsins úr 4 milljónum í 2 milljónir. Sigurgeir sagði að þessi aðgerð gerði það að verkum að hann hefði ekki getað borgað reikninga vegna reksturs búsins og raunar hefði fjölskyldan ekki haft neitt til að lifa af. Sigurgeir var kallaður á fund til útibústjórans á föstudegi og þar var honum tilkynnt að á mánudegi eftir viku yrðu öll lán sett í lögfræðiinnheimtu hjá bankanum ef hann gengi ekki frá sölu á jörðinni.


„Við stóðum frammi fyrir því að skrifa undir og fá smá pening eða verða lýst gjaldþrota.“


Afstaða bankans var síðan undirstrikuð með tölvupósti 20. apríl þar sem lækkun á yfirdráttarheimildinni var til umfjöllunar: „Þegar samningurinn er undirritaður munum við hækka heimildina hjá Geira [Sigurgeir] aftur í 4 mkr.“


Sigurgeir sagði að áður hefði bankinn upplýst bréflega að yfirdráttarheimildin myndi falla úr gildi 20. apríl. Heimildin var hins vegar lækkuð 13. apríl.


Sigurgeir sagði að vinnubrögð Íslandsbanka í þessu máli væru ekki í samræmi við vinnubrögð sem bankastjóri Íslandsbanka lýsti á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins fyrir nokkrum dögum. „Að vísu hefur bankinn alltaf sagt út á við að hann hafi ekki selt jörðina heldur að við höfum gert það. Vissulega vorum það við sem skrifuðum undir sem seljendur, en það fylgir ekki sögunni hvaða þvingunaraðgerðum bankinn beitti okkur.“


Sigurgeir sagði að hann hefði sagt við bankann að eðlilegt væri að auglýsa jörðina og sjá hvort fleiri tilboð kæmu, en bankinn hefði þá sagt að Sigurgeir yrði sjálfur að bera kostnað af því að auglýsa og selja jörðina. Bankinn hefði raunar farið fram á að hann greiddi sölulaunin til fasteignasalans, en hann sagðist ekki hafa tekið það í mál.


Kvótinn og kýrnar fluttar af jörðinni
Sigurgeir sagðist vita um bændur í sveitinni sem hefðu haft áhuga á að bjóða í jörðina. Einn bóndi hefði haft samband við bankann og lýst áhuga á að kaupa, en hann hefði fengið þau svör að það væri ekkert að gerast í þessu máli af hálfu bankans. Ábúendur á Skáldabúðum væru hins vegar að selja jörðina. Bóndinn hefði líka haft samband við fasteignasalann og fengið þar sömu svör.
Sigurgeir sagði að 150 milljónir væru lágt verð. Þetta dygði varla fyrir meiru en mjólkurkvótanum, bústofni og tækjum. Kaupandinn fengi í reynd þúsund hektara jörð frítt.


Sigurgeir sagðist hafa fengið þær upplýsingar að kvótinn og kýrnar yrðu fluttar af jörðinni sem fyrst. Þar með færi enn ein jörðin í sveitinni í eyði. Hann sagði að þessi niðurstaða væri ekki í samræmi við yfirlýsingar landbúnaðarráðherra.


„Fjölskylda mín er búin að búa á jörðinni í um hundrað ár. Ég hef reynt allt sem ég hef getað til að bjarga málum. Ég bauð bankanum m.a. að kaupa hálfa jörðina, en það virðist ekki vera inni í myndinni. Það virtist ekki vera hægt að gera neitt fyrir okkur þó að það sé hægt að gera ýmislegt fyrir aðra. Ég talaði við alla sem mér datt í hug að gætu aðstoðað mig, en enginn virtist telja sig geta stigið fram og stöðvað þetta. Ég hef reynt að berjast á móti þessu, en eins manns stríð endar aldrei vel,“ sagði Sigurgeir.


Flytja til Hveragerðis
Í vetur var haldinn á Hvolsvelli fundur skuldugra bænda. Á fundinn mættu um 30 bændur. Sigurgeir sagði að hann hefði verið sá eini á fundinum sem var með viðskipti hjá Íslandsbanka. „Ég er sá eini í þessum hópi sem hef fengið svona útreið. Mín sérstaða var kannski sú að ég var ekki með viðskiptaskuldir. Þess vegna var svo auðvelt að afgreiða mín mál með þessum hætti því að það þurfti ekki að semja við aðra lánardrottna.“
Sigurgeir og Þórey flytja í næsta mánuði til Hveragerðis. Þórey er búin að fá vinnu en Sigurgeir er atvinnulaus. „Ég er búinn að reyna mikið. Ef einhvern vantar mann í vinnu þá má hann hafa samband við mig.“


Strax og búið var að skrifa undir söluna á jörðinni afhentu Sigurgeir og Þórey fjósið til nýs eigenda, en þau mega búa í íbúðarhúsinu til 1. júní.


Þau sögðu það einkennilega tilfinningu að kveðja kýrnar og hætta búskap. Sigurgeir sagðist ekki geta lýst tilfinningum sínum til þessara breytinga. Hann sagðist kannski ekki vera búinn að átta sig fyllilega á því ennþá að hann væri yfirgefa lífsstarf sitt og flytja á mölina.


Morgunblaðið 29. apríl 2010, Egill Ólafsson egol@mbl.is


back to top