Jarðskjálftar hækka verð á fiskimjöli

Jarðskjálftarnir í Chile fyrr á þessu ári, sem m.a. ollu miklum skemmdum á fiskimjölsverkmiðjum þar í landi, hafa leitt til samdráttar í framboði á fiskimjöli á heimsmarkaði sem aftur hefur þrýst mjölverði upp í áður óþekktar hæðir. Chile er næststærsti útflytjandi fiskimjöls í veröldinni, næst á eftir Perú.

Mjölverðið hækkaði upp í 1.937 dollara á tonnið í síðustu viku sem er 85% hækkun frá fyrra ári. Verðhækkunin stafar af mikilli eftirspurn eftir fiskimjöli samfara minnkandi framboði. Til samanburðar má nefna að verð á fiskimjöli á Rotterdammarkaði fór niður í 1.000 dollara tonnið í kjölfar fjármálakreppunnar árið 2008.
Enn gæti dregið úr framboði á fiskimjöli á  heimsmarkaði því framundan er tímabil El Nino hlýsjávarstrauma í Kyrrahafi sem kemur með reglubundnum hætti og veldur jafnan samdrætti í veiðum.
Fiskimjöl er að stórum hluta notað í fóðurframleiðslu í fiskeldi sem og annað fóður. Búast má við að hækkun mjölverðs muni hafa áhrif á verð á þessum vörum.


back to top