Íslandsbanki gerir athugasemdir við umfjöllun Morgunblaðsins

Íslandsbanki hefur sent frá sér athugasemd vegna umfjöllunar Morgunblaðsins á málefnum bóndans á Skáldabúðum. Þar kemur m.a. fram að Íslandsbanki hefur farið þess á leit við eftirlitsnefnd sem skipuð er af ráðherra efnahags- og viðskiptamála að hún fari yfir öll gögn og feril málsins. Þá segir Íslandsbanki það vera rangt að umrædd eign hafi verið seld án auglýsingar.
Athugasemd Íslandsbanka fer hér á eftir:
„Vegna umfjöllunar Morgunblaðsins um málefni bóndans á Skáldabúðum vill Íslandsbanki taka eftirfarandi fram:

Starfsmenn Íslandsbanka hafa unnið að úrlausn mála mjólkurbúsins að Skáldabúðum frá því árið 2008 í nánu samráði við eigendur. 

Í þeirri viðleitni var ákveðið að eiganda yrði áfram gefinn kostur á að selja eignina í frjálsri sölu og taldi bankinn að með því fengi eigandinn besta verð fyrir jörðina. Samhliða myndi bankinn vinna með eiganda að úrlausn skulda hans og leitast við að afstýra gjaldþroti.

Því er ranglega haldið fram í greininni að Íslandsbanki hafi selt umrædda eign án auglýsingar þar sem bankinn hafði ekki leyst til sín umrædda eign.    Þá skal þess getið að eignin hefur verið auglýst til sölu opinberlega, m.a. á hjá Lögmönnum Suðurlands, síðan 19. mars 2008 án þess að eignin seldist.

Sjá:
http://www.habil.is/lix/adjalta?HabilView=&sysl&habil&HouseId=847311&ShowErrors=1

Lánamál eru viðkvæm og flókin í meðförum og þess eðlis að bankinn er bundinn trúnaði varðandi einstaka þætti þeirra og á því erfitt með að taka þátt í opinberri umfjöllun einstök mál.
Í því ljósi hefur Íslandsbanki farið þess á leit við eftirlitsnefnd sem skipuð er af ráðherra efnahags- og viðskiptamála að hún fari yfir öll gögn og feril málsins.

Þá skal þess getið að blaðamaður Morgunblaðsins kallaði ekki eftir sjónarmiðum Íslandsbanka við vinnslu fréttarinnar. „


back to top