Íhuga að leita til Mjólku

Kúabændur á Austurlandi munu leita annarra leiða til að vinna mjólk á Austurlandi, ef samþykktar verða tillögur stjórnenda Mjólkursamsölunnar um að leggja niður mjólkurvinnslu á Egilsstöðum. Hefur meðal annars komið til tals í þeirra röðum að leita til keppinautar MS, Mjólku, um að koma að mjólkurvinnslu þar. Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs skorar á stjórn MS og fulltrúaráð að endurskoða ákvörðunina.

Tillögur um að leggja niður mjólkurvinnslu á Egilsstöðum mælast illa fyrir á Austurlandi, meðal annars meðal kúabænda. Gunnar Jónsson, formaður Austurlandsdeildar MS, telur að ákvörðun um það yrði upphafið að endalokum mjólkurframleiðslu á Austurlandi.


Alvarlegar afleiðingar
Áform MS eru hörmuð í bókun sem samþykkt var samhljóða á fundi bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs í gær. Fram kemur að mjólkurframleiðsla er mikilvæg atvinnugrein í sveitarfélaginu og ákvörðun stjórnar MS muni hafa alvarlegar afleiðingar fyrir mjólkurframleiðslu og atvinnulíf til lengri tíma. Hún geti skapað óöryggi fyrir bændur og hætta á að mjólkurframleiðsla leggist af á svæðinu í framtíðinni.


Gangi tillögurnar eftir verða níu til tíu af þeim fjórtán störfum sem nú eru við mjólkursamlagið lögð niður. Bæjarstjórn bendir á áhrif þess á fjölskyldur starfsmannanna og að fleiri verði fyrir óbeinum áhrifum. Vakin er athygli á því að framundan séu óvissutímar í atvinnumálum Fljótsdalshéraðs þar sem miklu framkvæmdatímabili vegna bygginga virkjunar og álvers sé að ljúka. Sveitarfélagið þurfi því nú sem aldrei fyrr á öllum störfum og íbúum að halda til að byggð í sveitarfélaginu geti áfram eflst og dafnað.


back to top