Hvítlaukur í kúafóðri minnkar gasið

Hollenskir vísindamenn hafa fundið leið til að minnka gaslosun kúa um allt að tuttugu prósent. Talið er að í heiminum sé hálfur annar milljarður nautgripa og fimmtungur allrar metanlosunar í andrúmslofti í heiminum sé af þeirra völdum.

Hver kýr losar að jafnaði rúmlega 400 grömm af gasi sem veldur gróðurhúsaáhrifum út í andrúmsloftið á degi hverjum, álíka og meðalstór fólksbíll. Vísindamenn hafa árum saman velt fyrir sér hvort hægt sé með einhverjum ráðum að draga úr þessari miklu losun og nú segjast hollenskir sérfræðingar hafa dottið niður á lausnina, sem felist í óvenjulegu fæðubótarefni, hvítlauk.


Þótt kýr séu með eindæmum fastheldnar og lítt fyrir breytingar gefnar fúlsuðu þær ekki við þessari nýju viðbót á matseðlinum. Vísindamennirnir fullyrða að mjólkin sé jafngóð og ekki með neinu aukabragði.


Vísindamennirnir fullyrða að kúnum líki hvítlauksblandaða fóðrið vel og segja að geti þær valið á milli fóðurs með og án hvítlauksins velji þær undantekningalítið hvítlauksblönduna.


back to top