Hver er fóðuröflunarþörfin?

Gróffóðuröflunin er stærsti reglulegi kostnaðarliðurinn sem hvert bú í hefðbundnum búrekstri þarf að greiða. Margar þær ákvarðandir sem bóndinn þarf að taka snúast á einn eða annan hátt um þennan þátt. Því er mikilvægt að fyrir liggi eitthvert mat á því hve sé raunveruleg þörf búsins á magni og gæðum gróffóðursins áður en teknar eru ákvarðanir um t.d. áburðarkaup, tímasetningu sláttar  o.s.frv. Í upphafi skal endinn skoða…

Á vef Búnaðarsambands Suðurlands er að finna tvö reiknilíkön sem geta verið bændum til glöggvunar að þessu leyti. Um er að ræða reiknilíkan fyrir kúabú annars vegar og sauðfjárbú hinsvegar og eru þau vistuð á síðunni undir Nautgriparækt > Fóðrun nautgripa annars vegar og Sauðfjárrækt > Fóðrun sauðfjár hins vegar.

Tilfellið er að magnþörfin fyrir hágæðafóður er oft á tíðum minni en margur heldur. Hágæðaframleiðslufóður er alla jafna það fóður sem bændur afla fyrst að sumri, það sem er orkuríkast og lystugast og slegið í sprettu nokkru fyrir skrið. Í annan tíma getur verið heppilegra að afla meðalgóðra heyja sem slegin eru um skrið og svo getur hreinlega verið heppilegast að afla heyja sem slegin eru eftir skrið með fremur lágu orkugildi, s.s. á geldstöðutímabili mjólkurkúa.

Sauðfjárbændur þurfa ekki síður en kúabændur að setja niður fyrir sér þörf sauðfjárins því lengstan hluta innistöðunnar, þ.e. í miðsvetrarfóðruninni, er engin þörf á mikilli orkufóðrun sem aftur er nauðsynleg á fengitíð og um og eftir sauðburð.

Aðalatriðið er að bændur setji niður á blað þær fóðurölfunarhugmyndir sem þeir hafa í kollinum frá ári til árs. Með dálítilli yfirlegu og gagnrýnni hugsun má e.t.v. spara þarna einhverja fjármuni eða nýta þá fjármuni betur sem lagðir eru í fóðuröflunina.

Fóðuröflunarlíkan fyrir kúabú með uppeldi 

Fóðurölfunarlíkan fyrir sauðfjárbú 


back to top