Hvað gera bændur nú?

Það hefur sjaldan verið jafn brýnt tilefni til að velta fyrir sér innkaupum og notkun á hverju áburðarkorni eins og í ár. Sigurður Þór Guðmundsson jarðræktarráðunautur á Norðurlandi hefur tekið saman yfirlit um þá stöðu sem bændur eru í um þessar mundir vegna hækkandi áburðarverðs. Í meðfylgjandi Excel-skjali má sjá hvaða tegundir eru í boði og reiknuð út mismunandi áburðarþörf miðað við ólíkar forsendur. Í töflu 1 má sjá verð eins og það býðst í febrúar 2008 og jafnframt umreiknað yfir í krónur á kg köfnunarefnis (kr/kg N). Þá er sett upp tafla sem sýnir það magn af fosfór og kalí sem fylgir 120 kg af köfnunarefni.

Tilgangurinn er að benda bændum á þær blöndur sem uppfylla ákveðin skilyrði eða viðmiðunargildi sem notuð hafa verið í leiðbeininum um áburðarnotkun, t.d. í Handbók bænda. Miðað er við endurræktun á 1. ári eftir sáningu, tún í lélegri- og góðri rækt. Blöndur eru reiknaðar miðað við ákveðin köfnunarefnisskammt og þurfa þá að standa lágmörk fyrir P og K, hámark er sett við tvöfaldan skammt. Hver býður bestu kaupin (m.v. verð) kemur fram eftir því sem við á. Í töflu 2 er niðurstaðan sett fram eins og hún er 29. janúar þegar einungis Yara og Áburðarverksmiðjan hafa gefið út sínar verðskrár.


Fyrir ársgamla endurræktun er Fjölgræðir 5 eina tegundin sem stenst viðmið, NPK 17-5-13 vantar meiri fosfór og er nokkuð há í kalí en það munar rúmum 1000 kr/ha hvað Fjölgræðir 5 er ódýrari.


Fyrir tún í lélegri rækt stenst Fjölgræðir 6 viðmið en NPK 21-4-10 gefur 3 kg of lítið af fosfór en verðmunur er hverfandi. Þó er Fjölgræðir 6, 520 kr/ha ódýrari.


Fyrir tún í góðri rækt stenst Fjölgræðir 6 kröfur og NPK 21-4-10 er nálagt því þó vanti eitt kg/ha af fosfór. Fjölgræðir 6 er 625 kr/ha ódýrari.


Þar sem 18 tonn af kúamykju er borin á lélegt tún koma helst tvígildar tegundir til greina en verðmunur á þeim og nokkrum þrígildum er hverfandi sem gerir að nokkrar þrígildar tegundir koma vel til greina. Fjölmóði 3 fer næst kröfum en NP 26-6 inniheldur heldur meira magn af fosfór. En Fjölmóði 3 er 1.572 kr/ha ódýrari.


Á góða túnið með 23 tonnum af kúamykju, sem uppfyllir kalíþörf, eru talsvert margar tegundir sem uppfylla kröfur. Þó verður kalí hátt í þrígildum áburði. Helst vill maður bera tvígildan áburð með skít og þá er helst að velja á milli NP 26-6 eða Fjölmóða 3. Græðir 9 er heldur ódýrari en Fjölmóði 3 þó kalískammturinn fari 15 kg umfram þarfir eða í 65 kg/ha.


Þessar upplýsingar verða uppfærðar eftir því sem forsendur breytast.

Tafla 1 og 2 – Excelskjal


back to top