Hugmynd að formlegu ræktunarfélagi nýrra nytjaplantna á Íslandi

Jötunn vélar hafa ákveðið að hafa forgöngu um stofnun á ræktunarfélagi um ræktun nýrra nytjaplantna á Ísland og þannig stuðla að aukinni og markvissari þróun ræktendatilrauna með nýjar nytjaplöntur á Íslandi. Helsta ástæðan fyrir þessu framtaki er mikill áhugi framsækinni bænda á ræktun framandi nytjaplantna bæði til fóðurs og olíuframleiðslu.
Árið í ár er hugsað sem undirbúningsár fyrir framtíðaruppbyggingu félagsins og verða ræktunartilraunir í ár því eingöngu tengdar vorsánum olíuplöntum (olíunepju og akurdoðru) en í framtíðinni er horft til allskonar plantna sem nýst gætu íslenskum bændum.
Samið hefur verið við starfsmenn LBHÍ um eftirlit með tilraununum og samantekt uppskerumælinga og mun árgjaldið í félagið kr. 50.000 renna óskipt til LBHÍ til að standa undir kostnaði þeirra við þessa vinnu.
Þar sem takmarkað magn af fræi er til í landinu hefur verið ákveðið að þeir 20 fyrstu sem skrá sig sem félaga muni fá úthlutað fræi af ofangreindum tegundum í ár. Jötunn Vélar mun leggja til fræ í 1 ha fyrir hvern félaga honum að kostnaðarlausu.
Áhugasamir eru hvattir til að hafa sambandi við Finnboga hjá Jötunn vélum varðandi frekari upplýsingar og skráningu í félagið.
 
 
Meðfylgjandi er gróf hugmynd að uppbyggingu félagsins
Tilgangur
er að afla þekkingar og reynslu á ræktun ýmissa nytjaplantna sem ekki eru ræktaðar á Íslandi í dag til nytja, til eflingar landbúnaðar og uppbyggingu nýrra starfa í landbúnaði.
 
Markmið: Að byggja upp almenna þekkingu á því hvaða nytjaplöntur sem ekki eru ræktaðar á Íslandi í dag geta þrifist og verið hagkvæmt að rækta.
 
Fyrir hverja: Áhugamenn um jarðrækt, rannsóknarstofnanir og styrktaraðila.
 
Hugmynd að aðferðafræði:
Stofnað verði félag áhugamanna um ræktun framandi nytjaplantna og verður árgjald félagsins kr: 50.000 á ári sem notað verður til að greiða starfsmönnum LBHÍ fyrir leiðbeiningar og eftirlit með ræktuninni. Áhugamenn geta valið að vera aðeins virkir félagar þau ár sem þeim finnst heillandi tegundir vera í prófunum.

Leitað verði eftir þjónustu og samstarfssamningum við Bændasamtök Íslands / búnaðarsambönd og eða LBHÍ um beina þátttöku í verkefninu, framkvæmd einstakra þátta á sviði rannsókna og gagnaöflun og muni starfsmaður á þeirra vegum annast vinnu fyrir félagið og bera ábyrgð á söfnun upplýsinga varðandi, áburðargjöf, jarðvegsgerðir, uppskeru ofl. sem nýtast mun við ákvarðanir um áframhald ræktunar.
 
Hugmynd að skipulagi.
* Haldnir verði aðalfundir fyrir lok janúar hvers árs þar sem félagar komi með hugmyndir um hvaða tegundir skuli ræktaðar á vegum félagsins það árið.
* Í framhaldi skrái ræktendur sig.
* Fagráð hópsins í samvinnu við starfsmann LBHÍ afli upplýsinga og velji yrki til prófana.
* Starfsmaður LBHÍ safni saman upplýsingum um ræktun og dreifi til ræktenda.
* Starfsmaður LBHÍ heimsæki ræktendur 2-3 á sumri til söfnunar upplýsinga um ræktunina, vandamál og uppskeru.
* Að aflokinni uppskeru safni starfsmaður LBHÍ upplýsingum saman og geri samantekt fyrir hvern ræktanda ásamt því að útbúa skýrslu fyrir ræktunina í heild sinni.
* Í lok nóvember hvers árs verði niðurstöður tilraunanna kynntar fyrir félögum og ályktanir dregnar af reynslu sumarsins.
 
Annað:
* Félagið leitist við að skipuleggja heimsóknir erlendra sérfræðinga yfir ræktunartímann til að auka þekkingu og færni félagsmanna.

Einnig verði kannaðir möguleikar á skipulagi fræðsluferða erlendis til öflunar þekkingar.


back to top