Hugleiðingar vegna eldgoss í Eyjafjallajökli

Nú þegar náttúruöflin hafa minnt okkur óþyrmilega á mátt sinn og megin og hinar þekktu ljóðlínur um silfurbláan Eyjafjallatind fá alveg nýja merkingu er eðlilegt að staldra við og hugleiða með hvaða hætti bændur og búfjáreigendur geta sem best búið sig undir það sem framundan er. Óvissuþættir eru fjöldamargir varðandi hegðun og úthald gossins en fyrirséð að öskufall og vatnselgur geta haft mikil og afdrifarík áhrif á heilbrigði búfjár, fóðuröflun og framleiðslu búfjárafurða á komandi sumri – svo ekki sé horft lengra fram á veginn. Það á ekki bara við um þau öflugu landbúnaðarhéruð sem liggja næst Eyjafjallajökli heldur getur áhrifanna gætt miklu víðar um landið og gætir þegar í Vestur-Skaftafellssýslu. Það er snúið að búa sig undir jafn mikla óvissu og hér um ræðir en hér eru nokkrir þættir settir á blað til hugleiðingar:


  • Tryggja verður aðbúnað og velferð gripa sem best má verða á hverjum tíma. Sjá þeim fyrir nægu fóðri og drykkjarhæfu vatni. Áhrif af beit dýra á öskumengað (flúormengað) land eru þekkt og ber að hindra sem framast er unnt (sjá t.d. www.mast.is / www.bssl.is / www.bondi.is).

  • Í öskufallssveitum verður við því brugðist með því að taka allan þann búfénað á hús sem mögulegt er að hýsa en þá verður að líkindum að forgangsraða þeim gripum í hag sem viðkvæmastir eru, þ.e. ungviði, fylfullar hryssur og kelfdar kýr og kvígur. Það sem upp á vantar húsrými verður að leysa með því að koma gripum í aflokuð hólf þar sem beit er ekki fyrir hendi og tryggja fulla gjöf og drykkjarhæft vatn.

  • Nú verður varla sá húskofi óbrúklegur að ekki sé betri til hlífðar búfénaði í öskufalli en enginn. Þá vakna spurningar um not af aflögðum byggingum og hverju því sem hægt er að tjalda til. Vélageymslur og hlöðupláss má væntanlega víða rýma og útbúa fyrir búfénað en vélum má hugsanlega forða frá skemmdum af öskufalli með yfirbreiðslum af ýmsu tagi.

  • Með hliðsjón af mögulegu öskufalli geta sauðfjárbændur þurft að búa sig undir skert not afrétta á komandi sumri. Það er erfið staða ef upp kemur en best að hugleiða afleiðingar og viðbrögð í tíma.

  • Fóðuröflun í öskufallssveitum á komandi sumri er mögulega í uppnámi. Bændur hafa flestir gert sínar áburðaráætlanir og pantað áburð fyrir komandi vor. Sú spurning vaknar hvort ræktunaráætlanir, áburðardreifing og sláttur eigi nú í ríkara mæli að stefna að auknu fóðurmagni fremur en hámarks orkugildi fóðurs? Hér gera búfjártegundir ólíkar kröfur til viðhalds og viðunandi framleiðsluafkasta sem kunnugt er.
    Nú eru önnur sjónarmið en hámarks hagkvæmni og litlar birgðir milli ára komin í spilið. Fari svo að búfénaður verði í mun ríkari mæli á innistöðu og gjöf en verið hefur verður að bregðast við því með tiltækum ráðum.
    Þetta þýðir ekki bara breyttar forsendur fyrir þær sveitir sem hugsanlega verða fyrir öskufalli heldur líka þau héruð sem sleppa. Allur viðbúnaður ætti að líkindum að miða við meiri heyframleiðslu þar sem þess er kostur þannig að sem flest héruð verði aflögufær fyrir önnur í mögulegum skorti.

  • Rangárvallasýsla er öflugasta kornræktarhérað landsins. Ekki virðist ástæða til annars en kornbændur haldi sínu striki og sái í vor. Aska sem fellur á akra er ekki hættuleg, allra síst þar sem hún er plægð eða herfuð niður í jarðveg. Byggplantan getur vissulega tekið upp óæskileg efni úr ösku þegar blaðþroski er hafinn en slík áhrif eiga að þynnast út með þroska plöntunnar, þ.e. ef öskufall er ekki viðvarandi út þroskatímabilið. Þó hér bætist vissulega einn óvissuþáttur enn við ræktunarárangurinn þá á að vera óhætt að plægja akra sem hafa orðið fyrir öskufalli og sá til korns í vor.
Starfsmenn Búnaðarsambands Suðurlands verða hér eftir sem hingað til boðnir og búnir að veita þá þjónustu og ráðgjöf sem þeim framast er unnt. Enn skal þó undirstrikað og ítrekað að óvissuþættir um framhaldið eru ótal margir. Það er og verður óþarft að stökkva yfir læki áður en komið er að þeim – en aldrei er verra að vita hvar þeir renna.


Ráðunautar BSSL


back to top