Hrútaskráin 2014-2015 komin úr prentun

Þá er hin langþráða hrútaskrá komin í hús. Hún er með hefðbundnu sniði og er 50 síður. Ritstjóri hennar er Guðmundur Jóhannesson. Auk upplýsinga um hrútakostinn á stöðvunum eru greinar um beiðsli sauðfjár og sauðfjársæðingar, fanghlutfall, kjötmat afkvæma sæðishrúta og afkvæmarannsóknir vegna sæðingastöðvanna.  Skráin er gefin út í 2800 eintökum og verður afhent á fræðslufundunum um sauðfjárrækt sem fram fara í lok vikunnar. Auk þess er skráin til afhendingar á skrifstofu Búnaðarsambandsins að Austurvegi 1

Hrútaskrá 2014-2015

Áhugaverð lesning úr nýju Hrútaskránni er um forystuhrútinn Ama frá Sigtúnum í Öxarfirði.  „Ami er há- og grannvaxinn, reistur og léttbyggður svo sem forystufé ber að vera.  Hann er stóreygður og hefur til að bera mikla árvekni, örar hreyfingar og ekki spillir höfðinglegt fasið og yfirbragðið.  Hann er þægur í rekstri og ljúfur við fólk en á það til að amast við öðru fé og dregur nafn sitt af því. Ami hefur frá því hann kom á sæðingstöð sýnt mikla yfirvegun og árvekni í hrútakrubbunni og hrútahirðirinn haft framgöngu hans í hávegum á alla lund.“ en meira er hægt að lesa um Ama og fleiri hrúta í nýju Hrútaskránni.


back to top