Haustfundur HS 2011

Fundargerð
Haustfundur Hrossaræktarsamtaka Suðurlands



Haustfundur Hrossaræktarsamtaka Suðurlands haldinn í félagsheimili hestamannafélagsins Sleipnis, miðvikudaginn 19. október 2011.


Dagskrá:
1. Fundarsetning
2. Skýrsla formanns
3. Ræktunarstarfið, Guðlaugur Antonsson
4. Undirbúningur ungra hrossa fyrir kynbótasýningu, Mette Mannseth
Kaffihlé
5. Umræður
6. Önnur mál

1. Fundarsetning
Sveinn Steinarsson setti fundinn og bauð fundarmenn og frummælendur velkomna á hinn árlega haustfund samtakanna. Kynnti frummælendur þau Guðlaug Antonsson og Mette Mannseth. Kom með tillögu um að Hrafnkell Karlsson yrði fundarstjóri og Halla Eygló Sveinsdóttir fundarritari. Engar mótbárur komu fram við því.


2. Skýrsla formanns
Sveinn byrjaði á því að lýsa ánægju sinni með góða fundarsókn. Segja mætti að haustfundurinn væri upphafið á því sem væri á döfinni hjá HS þennan veturinn. Í janúar yrði Benedikt Líndal með fræðslukvöld sem hann kallaði „Hvað er reiðmennska“. Byggingadómanámskeið yrði síðan á Skeiðvöllum í febrúar og hæfileikadómanámskeið næsta vor, vonandi í tengslum við kynbótasýningu. Sýningar yrðu tvær á vegum HS, ungfolasýning og Ræktun 2012. Það væri helst að frétta af sumarexemrannsókninni að hún væri að fara á skrið með haustinu. Búið væri að greiða 5 milljónir af styrknum sem samþykktur var á aðalfundi HS en lokagreiðslan, 1 milljón, yrði greidd á næsta ári. Mjög mikilvægt væri að sumarexemið yrði í umræðunni og hestamenn héldu áfram að styðja við verkefnið.
 
2. Ræktunarstarfið, Guðlaugur Antonsson
Guðlaugur þakkaði boðið á fundinn og sagði að það skemmtilegasta við starfið væri að dæma hross en næst kæmu þessir opnu fundir með hestamönnum. Hann fengi þar tækifæri til að heyra í hrossaræktendum. Venjan væri að fara yfir árið á haustfundunum og fjalla síðan um hvað væri framundan.


Sýningar ársins
Að þessu sinni voru 16 sýningar á landinu, þar af 5 á suðursvæðinu. Selfoss kom inn sem nýtt sýningarsvæði og lofar góðu. Stærsta sýningin var á Gaddstaðaflötum en þar voru dæmd 504 hross. Landsmótið var mjög sterkt í kynbótageiranum. Heimsmeistaramótið gekk vel, kynbótahrossin frá Íslandi stóðu sig hvað best. Fjöldi uppkveðinna dóma á árinu var 2.363 sem er nýtt met í dómum á einu ári. Dæmd hross voru 1.601. Á Suðurlandi voru sýnd 1.178 hross, 48 á Selfossi, 67 í Víðidal, 504 á vorsýningu á Gaddstaðaflötum, 336 á Sörlastöðum og 223 á síðsumarsýningunni á Gaddstaðaflötum. Hlutfall sýndra hrossa á Suðurlandi var 49,9% allra sýndra hrossa. Búnaðarsamböndin væru búin að taka saman kostnað við kynbótasýningar ársins og umtalsvert tap væri á þeim, m.a. um 3 milljóna króna tap hjá Búnaðarsambandi Suðurlands. Dreifing einkunna væri svipuð og undanfarin ár. Hlutfall hrossa með 8,00 eða hærra í aðaleinkunn var 35,5% og hlutfall undir 7,50 í aðaleinkunn er 7,6%. Fjögurra og fimm vetra hross voru 45,6% sýndra hrossa. Áverkar fundust á 18,9% sýndra hrossa en 18,2% í fyrra, þannig að þar en enn verk að vinna. Í áverkaskráningu er samt ekki skráð þegar hlíf eða skeifa fer af. Bréf verður sent út til 12 knapa vegna þessa, en hross sem þeir hafa sýnt hafa verið með áverkja í 25-55% tilfella. Þessir knapar sýndu frá 10 og upp í 98 hross. Sláandi tölur hafa komið fram um áverka á hrossum í gæðingakeppni landsmóts eða um 39% hrossa voru með áverka í munni. Um var að ræða alvarleg þrýstingssár undan einjárnungum  og öðrum bogastöngum. Hvað er til ráða? Gerðar voru athugasemdir við eistu hjá 31 stóðhesti, spurning hvort setja eigi reglur varðandi notkun á stóðhestum með eistnagalla. Gífurlegur fjöldi stóðhesta var sýndur á árinu. Lágmörkum á landsmót náðu 129 stóðhestar og 120 hryssur. Er fjöldi stóðhesta of mikill?
 Nú í vor var gengið í það að reyna að staðla betur sýningabrautir. Gerð var krafa um 300 metra beina braut, 200 metra sprettfæri og 50 metra svæði til viðsnúninga í báðum endum. Dómpallar voru staðsettir fyrir miðri braut, í 25-40 metra fjarlægð frá braut.
 
Skýrsluhald
Skýrsluhaldið er á leið út til þeirra sem skiluðu pappír í fyrra eða hafa óskað eftir því að fá það sent. Annars er það heimaréttin sem ræktendur nota til að skrá skýrsluhaldið sjálfir. Nýtt kynbótamat er komið í WorldFeng.


Útflutningur á árinu.
Nú hafa verið flutt út 845 hross það sem af er þessu ári og einhver eru á leið út. Af útfluttum hrossum eru 42 hross sem fengið hafa 8,00 eða hærra í kynbótadómi. Þetta er vissulega meiri fjöldi en í fyrra (voru þá 629) en langt í land með að ná þeim fjölda sem fór úr landi árið 2009 þá voru þau 1.588.


Árleg ráðstefna hrossaræktarinnar verður laugardaginn 19. nóvember næstkomandi á Hótel Sögu. Þar verður farið yfir hrossaræktarárið 2011, nýtt kynbótamat kynnt og tilnefningar til ræktunarverðlauna (14 bú). Ræktunarbú árins 2011 verður verðlaunað. Heiðursverðlauna hryssur verða kynntar og verðlaunaðar en að þessu sinni eru þær 8, Gígja frá Auðsholtshjáleigu, Trú frá Auðsholtshjáleigu, Vordís frá Auðsholtshjáleigu, Álfadís frá Selfossi, Þruma frá Hofi I, Askja frá Miðsitju, Ösp frá Háholti og Ísold frá Gunnarsholti. Hæsta aðaleinkunn ársins verður verðlaunuð (aldursleiðrétt). Knapi með hæstu hæfileikaeinkunn ársins (án áverka) verður verðlaunaður. Einnig verða fræðsluerindi eins og verið hefur.
 Landsmót 2012 mun byrja á mánudegi, stefnt að því að kynbótahross verði 200 á mótinu. Í ár náðu 249 hross lágmörkum en 232 mættu á mótið. Ljóst að það þarf að gera einhverjar breytingar til að sýningar taki styttri tíma því fækkun á hrossum þykir ekki góð leið. Það hefur komið upp hugmynd að yfirlitssýning fari fram á hringvelli og 5 hross séu inn á brautinni í einu og riðnir séu 3 hringir og ein ferð á beinni braut, enn er þetta þó allt á umræðustigi.


Umræður:
Magnús Lárusson spurði hvort það hefði verið rætt að kynbótahross væru dæmd á tveim völlum með tveim dómnefndum.
Guðlaugur sagðist halda að það fyrirkomulag yrði erfitt fyrir knapana. Ræktendur vilja líka geta séð öll hrossin.
Karl Wernersson minnti menn á að fagráð hefði í vor lagt á það áherslu að geðslag hrossa sem ekki tækist ítrekað að snúa við á brautarenda yrði dæmt niður. Hann hefði ítrekað orðið vitni að því á LM2011 að þessari reglu hefði ekki verið fylgt. Af hverju var  þessum tilmælum fagráðs ekki fylgt?
Guðlaugur sagðist ekki hafa séð þetta vandamál með viðsnúninga á Vindheimamelum. Erfitt væri að stoppa hross eftir mikinn stökk eða skeiðsprett. Sjálfsagt væri þó hægt að gera betur.
Hrafnkell Karlsson spurði hvort tap hefði verið á öllum kynbótasýningum eða hvort þetta væri sérstakt hjá Búnaðarsambandi Suðurlands.
Guðlaugur sagði svo ekki vera, það væri svipað tap hjá öðrum búnarðarsamböndum.
Gerð var athugsemd við að stærðarmælingar væru í sumum tilfellum að breytast mikið milli sýninga og hvort það gæti ekki haft áhrif á einkunn fyrir samræmi.
Guðlaugur sagði að augað hefði mest vægi en vissulega væri horft á mælinguna, einkum lengdarmælinguna, sem væri þó alls ekki nákvæm.
Anton Páll Nielsson spurði í tengslum við áverka hvort það væri skráð hvernig beislabúnað menn væru að nota.
Guðlaugur sagði það það væri ekki skráð.
Anton Páll Nielsson spurði hvað væri eiginlega til ráða, þessir áverkar væru óásættanlegir.
Guðlaugur sagði að Eyjólfur Íslólfsson hefði lagt það til að einkunn yrði lækkuð væru áverkar á hrossinu þegar það kæmi úr dómi, það væri hugsanlega leiðin.
Bjarni Þorkelsson sagði að beinhimnubólga í tannlausa  bilinu væri í raun alvarlegri áverki heldur en ágrip.
Bergur Jónsson sagði að sér litist vel á þessa hugmynd um að fara með yfirlit yfir á hringvöll á landsmótum en hvar eiga menn að ríða fet? Sammála því að allir þessir áverkar séu alvarlegir það þurfi að hafa í huga að það séu tveir endar á hverjum taum!
Guðlaugur sagði að það væri ekkert samhengi með áverkum og völlum. Það væri knapinn sem hefði mest áhrif. Guðlaugur sagðist leggja til að dómum á yfirlitssýningum á landsmótum yrði hætt en þær gerðar að fallegu og áhorfendavænu sýningaratriði.
Spurt var hvort áverkaskráning þyrfti ekki að vera ítarlegri. Guðlaugur svaraði því til að það væri dýrt og tæki meiri tíma. Einnig spurt hvers vegna ekki væri hægt að ákveða fjölda hrossa á landsmót fyrirfram. Guðlaugur sagði að það hefði oft verið rætt en niðurstaðan alltaf orðið sú að það væri vont fyrir eigandann að geta ekki vitað hvort hrossið væri komið inn á mót fyrr en eftir síðustu sýningu.
Kristinn Guðnason sagðist vilja vera með fyrirfram ákveðinn tíma sem hvert hross fengi í braut en ekki ferðafjölda. Varðandi viðsnúninga sagðist Kristinn sannfærður um að hægt væri að gera betur. Nauðsynlegt að taka á því þegar ekki er hægt að snúa og stoppa hross á afmörkuðu svæði. Engin ástæða til að fyrirgefa hrossum sem ekki eru undir stjórn, slík hross nýtast engum.
Anton Páll Nielsson var sammála Kristni með það að hugsanlega væri tímataka lausnin.
Bergur Jónsson lagði til að hætt yrði að sýna 7 vetra hryssur á landsmótum.
Fjölnir Þorgeirsson lagði til að sleppt yrði að sýna fet á yfirlitssýningum á landsmótum.
Svanhildur Hall spurði hvort ekki skapaðist skekkja í kynbótamatinu ef yfirlitssýningar á landsmótum yrðu með öðru sniði en annars væri.
Guðlaugur sagðist ekki telja það.
Sara Ástþórsdóttir sagði að ef farin yrði sú leið að fara með yfirlitssýningar á landsmótum inn á hringvöll teldi hún réttast að hætta að dæma fet á þeim.


4. Undirbúningur ungra hrossa fyrir kynbótasýningu, Mette Mannseth
Mette byrjaði á að spyrja hver væri tilgangurinn með kynbótasýningum? Guðlaugur myndi segja að megintilgangurinn væri að velja foreldra fyrir næstu kynslóð. Það væri ekki markmiðið að verðmerkja hross og þetta væri ekki keppni. Mette sagði að tilgangurinn væri að meta eðli hestsins til kynbóta og því ættu hross sem kæmu á kynbótasýningar að vera í sínu besta standi. Það sem oft skapaði vandamál væru væntingarnar sem bæði eigendur og þjálfarar hefðu til hestins. Væntingar væru misjafnar eftir, eigendum, þjálfum, ætt hestsins, útliti og hreyfingum. Traust milli knapa og eiganda væri mjög mikilvægt. Eigandinn þyrfti að geta treyst því að þjálfarinn leggði rétt mat á hestinn og þjálfarinn þyrfti að geta treyst því að eigandinn væri ekki með ósanngjarnar kröfur. Þegar hestur kemur úr frumtamningu 4 vetra þarf að taka ákvörðun um hvort rétt er að halda áfram með hann og hvort raunhæft sé að stefna á kynbótadóm eða ekki. Markmið þjálfarans getur verið það að hafa hestinn sem lengst til að fá meiri peninga. Þess vegna verður þjálfarinn að vera traustsins verður. Þjálfarinn þarf að meta í samráði við eiganda hvaða markmið eigi að nást.
Hægt er að hafa áhrif á ástand og möguleika hestins í kynbótadómi með þjálfun, fóðrun og hófhirðu. Mikilvægt að hrossið sé í sem bestu standi þegar sýningin verður. Mjög mikilvægt að fylgjast með fótum og bregðast við ef eitthvað er ekki eins og það á að vera. Útivera og hreyfing dregur úr vandamálum í fótum. Aumur hestur hreyfir sig sparlega!
Útivera verður að fara eftir veðri. Í byrjun vetrar er mjög æskilegt að hægt sé að hafa mörg hross saman í stórum hólfum því það eykur hreyfingu. Undir vorið getur þurft að fækka í hópunum og hafa hrossin styttra úti vegna aukinnar hættu á meiðslum og þá þarf að huga að hárafari. Rétt að bíða með að sleppa hrossum á grös fyrr en sýning er afstaðin.
 Frumtamning er undirstaða áframhaldandi árangurs. Til að koma í veg fyrir leiða er rétt að hvíla hrossið (misjafnt eftir hverju hrossi) og nota fjölbreyttar þjálfunaraðferðir. Þjálfun snýst um að byggja hrossið upp og þá gildir að flýta sér hægt. Uppbyggingin þarf að vera kerfisbundin og alls ekki vera að taka út í tíma og ótíma.
 Þjálfun snýst um að byggja upp líkamlegan styrk þannig hrossið hafi kjark til að taka á þegar þar að kemur. Aldrei taka allt úr! Þjálfa tölt og/eða brokk á þeim hraða sem hentar hestinum best. Nota mikið stökk en það bætir öndun, eykur burð og úthald. Sumir ungir hestar halda niður í sér andanum þannig að knapinn heyrir ekkert fyrr en hrossið stoppar.
 Þolþjálfun mikilvæg því hesturinn þarf að hafa úthald. Teyming er tamning, þar má hafa stjórn á hraða. Teyma báðum megin  til að jafna misstyrk og auka sveigjanleika. Teymingarhestur og tryppi temjast. Rekstur eykur gleði og losar um spennu.
 Hestur lendir í vandamálum þegar maður sest á bak honum, enda ekki gerður til að bera mann. Þess vegna er mjög mikilvægt að passa upp á bakið svo hesturinn verði ekki fattur. Hvað er mýkt? Til að hestur verði mjúkur er reglubundin hreyfing mikilvæg, sveigjanleiki í skrokknum og að hesturinn sé samspora og spennulaus. Alls ekki má byrja of snemma að safna hesti og krefja hann um yfirferð.
 Fyrir sýningu er nauðsynlegt að meta líkamlegt og þjálfunarlegt ástand. Meta þarf holdafar, hófa, fætur, hárafar, vöðvafyllingu, hirðingu, uppstillingu og kanna að hesturinn sé ósár. Hesturinn þarf að vera ferskur og í jafnvægi, hafa úthald og styrk, jafnvægi á gangi og þjálfarinn þarf að meta hve mikla upphitun hesturinn þarf, hvernig best er að stilla upp gangtegundum og finna hvernig hesturinn er stemmdur.
 Árangur er misjafn, ásættanlegur, betri eða verri en við var búist. Mikilvægast er að hesturinn komist heill í gegnum sýninguna. Hætturnar við að fara með hest í sýningu sem ekki er tilbúinn eru; lélegur dómur, spenna, meiðsl, kvíði, lélegur hestur, ónýt eða léleg söluvara. Eigendur verða að muna að þó sleppt sé að sýna 4 vetra hest er veturinn svo sannarlega ekki ónýtur, það er búið að leggja heilmikið inn fyrir næsta vetur.

5. Umræður
Heilmiklar uppræður urðu um þetta góða erindi Mette. Meðal annars var spurt hvort við værum á réttri leið með kynbótadóma og taldi Mette svo vera. Góður tamningamaður temur á forsendum hestsins og hross sem koma vel undirbúin til dóms eiga að komast í gegnum hann jafngóð. Hins vegar er því ekki að neita að í hita leiksins gleyma knapar sér stundum og taka meira út en innistæða er fyrir og í þeim tilfellum getur farið illa.


6. Önnur mál
Páll Imsland benti á að væntingar væri nauðsynlegur undirbúningur vonbrigða. Páll spurði hvers vegna íslenskir vellir væru allir miðaðir við dómara. Á síðasta landsmóti hefðu áhorfendur meira og minna verið að horfa mót sólu á skuggahlið hestins. Hann sagði einnig  að bæta þyrfti lýsingu í reiðhöllum og huga að því að auglýsingaskilti trufluðu ekki.
 Kristinn Guðnason sagði frá því hvað væri á döfinni á aðalfundi FH í nóvember. Þorvaldur Kristjánsson mun fjalla um áhrif sæðinga og fósturvísaflutninga á skyldleika og frjósemi. Rætt verður um kynbótahross á landsmóti. Sigríður Björnsdóttir mun fjalla um særindi í munni á hrossum á LM 2011. Markaðsmál verða til umræðu. Rafrænu reiðtúrarnir verða kynntir o.fl.  Kristinn þakkaði HS fyrir myndarlegan styrk til til sumarexemsrannsóknarinnar. Ef ekki fyndist lausn á sumarexeminu myndu íslenskir ræktendur ekki ná upp reiðhrossamarkaðinum.
Sveinn Steinarsson þakki Kristni fyrir kynninguna á aðalfundi FH. Þakkaði síðan frummælendum Guðlaugi og Mette fyrir góð erindi og fundarmönnum fyrir góða mætingu. Að því búnu óskaði hann fundarmönnum góðrar heimferðar og sleit fundi um kl. 23:15.



/Halla Eygló Sveinsdóttir 


back to top