Haustfundur HS 2009

Fundargerð
Haustfundur Hrossaræktarsamtaka Suðurlands



Haustfundur Hrossaræktarsamtaka Suðurlands haldinn í félagsheimili hestamannafélagsins Sleipnis, fimmtudaginn 22. október 2009.


Dagskrá:
1. Fundarsetning
2. Skýrsla formanns, Sveinn Steinarsson
3. Hestatengt nám við Landbúnaðarskóla Íslands, Þorvaldur Kristjánsson
4. Ræktunarstarfið, Guðlaugur Antonsson
       Kaffihlé
5. Umræður og önnur mál


1. Fundarsetning
Sveinn Steinarsson setti fundinn og bauð fundarmenn og frummælendur velkomna á hinn árlega haustfund samtakanna. Kynnti frummælendur þá Þorvald Kristjánsson og Guðlaug Antonsson. Kom með tillögu um að Hrafnkell Karlsson yrði fundarstjóri og Halla Eygló Sveinsdóttir fundarritari. Engar mótbárur bárust við því.
 
2. Skýrsla formanns, Sveinn Steinarsson
Starfsemi  HS þetta árið  hefur verið með þeim hætti að í upphafi ársins eða í febrúar vorum við með námskeið í bygginga- og hæfileikadómum sem voru allvel sótt og gengu prýðilega. Ungfolasýning var haldin að venju í mars en þá nýbreytni höfðum við á þeirri sýningu að bjóða upp á að folarnir færu í svokallað ungfolamat ráðanauta og fengu eigendur heim með sér umsögn og skýringar á kostum og göllum sinna gripa. Þetta hlýtur að vera gagnlegt fyrir ungfolaeigendur enda held ég að töluverð ánægja hafi verið með þessa viðbót.
Ræktun 2009 fór fram 25. apríl þó að um tíma liti út fyrir að við þyrftum að fresta sýningunni vegna hálfgerðs gjörningaveðurs undir Ingólfsfjalli. Það kom sér vel, að félagi Helgi í Kjarri þekkir sitt fjall og stappaði stálinu í mannskapinn. Sýningin var haldin og allt gekk slysalaust. Þátttaka sýnenda var góð og á sýningunni voru margir úrvalsgripir og áhorf með besta móti.
Síðast liðið haust vorum við að venju með folaldasýningu sem gekk ekki nógu vel. Sæmileg skráning var á folöldum en fjöldi áhorfenda alls ekki nægur. Hvað veldur því?  Hugsanlegt er að fólk hafi meiri áhuga á smærri sýningum í sinni nærsveit enda allvíða mjög góð aðstaða til þess að halda svona samkomur. Því ákváðum við í stjórninni að sleppa því að vera með folaldasýningu í haust og reyna í staðinn að leggja meira í hinar sýningarnar sem framundan eru.
Það sem búið er að móta af vetrarstarfinu og er í samstarfi við LbhÍ, er það að vera með fræðslukvöld um litaerfðir hrossa í janúar og verður það haldið hér í félagsheimili Sleipnis. Haldið verður áfram með bygginga- og hæfileikadómanámskeið  í febrúar enda teljum við vera eftirspurn eftir þeim. Þátttaka í þessum viðburðum er niðurgreidd til félagsmanna  en það er bundið við það að þeir séu skráðir í samtökin árinu áður og séu skuldlausir. Þessir viðburðir verða fljótlega auglýstir og allar upplýsingar um þá. Allar ábendingar frá félagsmönnum um frekara fræðslu og námskeiðahald eru mjög vel þegnar.
Vona að við eigum hér góðan og gagnlegan fund með fróðlegum erindum.


3. Hestatengt nám við LbhÍ, Þorvaldur Kristjánsson
Eins og félagsmenn þekkja var gerður samstarfssamningur milli HS og LbhÍ árið 2007 og hafa báðir aðilar notið góðs af því samstarfi.
Skólinn skiptist í háskóladeild og starfs- og endurmenntunardeild. Undir starfs- og endurmenntunardeild eru m.a. búfræðinám og námskeiðahald. Í búfræðináminu er almenn kennsla um fóðrun, meðferð og ræktun, einnig verklegt nám í frumtamningum  og reiðmennsku, tekin eru 3 stig í knapamerkjum. Reynir Aðalsteinsson hefur verið aðalreiðkennarinn. Skólinn hefur leigt aðstöðu að Mið-Fossum fyrir hestamennskuna sem var mikil lyftistöng fyrir þann þátt í skólastarfinu.
Í Háskóladeildinni er hægt að taka BS- nám í búvísindum sem veitir undirbúning fyrir margvísleg störf sem tengjast landbúnaði við ráðgjöf, kennslu og rannsóknir. Íslenskir kynbótadómarar hafa m.a. annars allir lokið BS-námi við háskólann. Skólinn leggur áherslu á rannsóknir og hafa mörg lokaverkefni nemenda tengst hrossum, nú eru 2 nemendur í masternámi og 3 í doktorsnámi. Átaksverkefnið Hross í hollri vist er á vegum skólans en tilgangur verkefnisins er að fræða hestamenn og hesthúseigendur um kosti og galla ólíkra lausna sem viðkoma hesthúsum og nærumhverfi þeirra.
Árið 2007 sett á laggirnar ný námsbraut Hestafræði þar sem nemendur stunda fyrstu 2 árin nám á Hvanneyri í grunnfögum raungreina, rekstrarfræði og reiðmennsku en 3ja árið fer námið fram í Hólaskóla og þá er aðaláherslan á reiðmennsku. Nemendur útskrifast með BS. gráðu.
Á vegum endurmenntunardeildarinnar hafa verið haldin margvísleg námskeið tengd hestamennsku s.s. reiðnámskeið, járningarnámskeið, fóðrunar- og aðbúnaðarnámskeið, námskeið í kynbótadómum o.fl. Það nýjasta er Reiðmaðurinn er það er 2ja ára námskeiðsröð fyrir áhugafólk um reiðmennsku. Námið er stigskipt nám í reiðmennsku og almennt bóknám. Þetta nám hófst haustið 2008 á Mið-Fossum og hófu 44 nemendur nám. Nú í haust var farið af stað með þetta námskeið í Dallandi og í Rangárhöllinni og hófu 24 nám.
 Hvað er framundan, stefnt er að því að bjóða upp á námskeið um kynbótadóma í FEIF löndunum eftir áramótin. Búið er að ákveða námskeið í byggingar- og hæfileikadómum hér á Suðurlandi í samvinnu við HS. Einnig verður stutt kynning á litaerfðum hrossa í félagsheimili Sleipnis eftir áramótin.


4. Ræktunarstarfið, Guðlaugur Antonsson
Guðlaugur þakkaði boðið á fundinn. Miklar umræður urðu í vetur um sýningarform og vallaraðstæður. Í vor var því ákveðið að afmarka betur sprettfæri, víkka brautir  og lækka grindverk. Áverkar voru að þessu sinni skráðir beint inn í Worldfeng. Varðandi hringvallar hugmyndina var hún prófuð á Mið-Fossum á samráðsfundi kynbótadómara og á Gaddstaðaflötum en þar var hún prófuð á 13 hrossum. Eftir sýninguna á Gaddstaðaflötum var fundað með dómurum og knöpum og voru knapar jákvæðir en dómarar meira efins um ágæti þessa fyrirkomulags. Fagráð ætlar að sækja um leyfi til FEIF að halda kynbótasýningu með blönduðu formi þar sem dómar yrðu teknir gildir.
Sýningar ársins
Fjöldi uppkveðinna dóma á árinu voru 1795. Dæmd hross voru 1460 það þýðir að endurdómar hafa verið um 19%. Byggingadómar voru látnir standa í 88 skipti. Áverkar fundust á 12% hrossa en 17% í fyrra. Alls voru 15 sýningar í landinu, fjöldi hrossa á hverri sýningu var breytilegur frá 17 og upp í 511. Á Suðurlandi voru sýnd 1.091 hross, 43 í Víðidal, 511 á vorsýningu á Gaddstaðaflötum, 263 hross á Sörlastöðum og 274 hross á síðsumarsýningunni á Gaddstaðaflötum. Helmingur þeirra hrossa sem koma til dóms á Suðurlandi eru 4 og 5 vetra. Hæst er hlutfall 4 og 5 vetra hrossa á vorsýningunni á Gaddstaðaflötum en lægst í Víðidalnum.
 Dreifing einkunna var meiri í hæfileikum en byggingareiginleikum, rétt eins og í fyrra. Hlutfall þeirra hrossa sem fá 8,00 eða meira í aðaleinkunn er 29,4% var í fyrra 36,8% enda landsmótsár. Árið 2007 var hlutfallið 28,6%. Til samanburðar má nefna að árið 1990 var þetta hlutfall 13%. Hlutfall hrossa undir 7,50 í aðaleinkunn var 9,9% í ár en var 6,8% í fyrra. Til samanburðar má nefna að árið 1990 var þetta hlutfall 35%. Þetta er gríðarlega breyting á aðeins tæpum 20 árum. Guðlaugur fjallaði lítillega um HM í Sviss en þar mættu kynbótahross í alla flokka nema stóðhesta 7 vetra og eldri. Erlendis voru 34 kynbótasýningar og féllu 1272 dómar á þeim.
Skýrsluhald
Heimaréttin er markverðasta nýjungin á árinu, nú geta ræktendur fært sitt skýrsluhald rafrænt. Skýrsluhaldið á pappír er í útsendingu en það kemur trúlega til með að heyra sögunni til fljótlega. Afkvæmadómar á eldri hryssum auk íþrótta- og gæðingadóma eru komnir inn. 
 
Árleg ráðstefna hrossaræktarinnar verður laugardaginn 7. nóvember næstkomandi á Hótel Sögu. Þar verður farið yfir hrossaræktarárið 2009, nýtt kynbótamat kynnt og tilnefningar til ræktunarverðlauna. Fagráð hefur tilnefnt eftirfarandi bú; Auðsholtshjáleigu, Austurkot, Árbæ, Blesastaði 1A, Efri-Rauðalæk, Fet, Flugumýri II, Hemlu 2, Ketilsstaði/Selfoss, Kjarr, Kommu, Kvisti, Steinnes, Stóra –Ás, Strandarhjáleigu, Torfunes og Þjóðólfshaga 1.

Erindi á ráðstefnunni verða væntanlega eftirfarandi:
Hross í frjálsri vist, Grétar Hrafn Harðarson og Petra Mazetti
Ófrjósemi í íslenskum hryssum, Charlotta Oddsdóttir
Rannsóknir á exemi, Sigurbjörg Þorsteinsdóttir


Rétt að minna ræktendur á að samkvæmt kynbótareglum FEIF, FIZO eiga allir stóðhestar 4 vetra og eldri að vera DNA greindir svo og foreldrar þeirra frá og með næsta vori. Dagskrá Landsmóts 2010 er í skoðun. Tillaga frá fagráði að kynbótahrossin verði 180-200 talsins, afkvæmasýningar verði á kvölddagskrá og skeiðkeppnin. Einnig lagt til að ræktunarbúum verði sleppt. Lágmörk inn á LM2010 verða hækkuð um 0,05 í öllum flokkum.
 Umræðum um vægisbreytingar verður haldið áfram. Vitað að Þjóðverjar vilja breytingar en þeir komu með tillögur í fyrra. Nauðsynlegt að Íslendingar komi með tillögur og munu þær verða í sama dúr og verið var að ræða í vetur. Ekkert hreyft við vægi á byggingareinkunum en skeið verði hækkað úr 9,0 í 10,0, geðslag verði lækkað úr 12,5 í 9,0 og fet verði hækkað úr 1,5 í 4,0.



5. Umræður og önnur mál
Sveinn Steinarsson þakki góð erindi. Kári Arnórsson spurði hvort það væri skynsamlegt að hækka sífellt lágmörkin inn á landsmót. Már Ólafsson taldi að það mætti fækka gæðinginum. Guðlaugur svaraði því til að LH setti reglurnar varðandi gæðingakeppnina. Bergur Jónsson taldi í góðu lagi að sleppa ræktunarbúunum, jafnvel 7 vetra hryssunum því þær hefðu fengið mörg tækifæri til að sýna sig. Stungið var upp á fjórðungsúrtökum inn í gæðingakeppninga á Landsmótum, þá mætti jafnvel fá sömu dómarana. Haraldur Þórarinsson sagði að á landsmótum fengju gæðingarnir 30% af tímanum en kynbótahrossin 60%. Hann var sammála því að bestu hestarnir ættu að koma á landsmótin. Haraldur sagði að hvert hestamannafélag gæti sett sér reglur varðandi lágmörk inn á landsmót t.d. 8,20. Kristinn Guðnason sagði að umræðan um landsmót væri góð. Það væri nauðsynlegt að greina vandann. Fyrstu 4 dagarnir væru ekkert vandamál en um leið og dagskráin yrði tvöföld ykist álagið og þá sköpuðust vandamál.  Væri hugsanlegt að ljúka einhverjum verðlaunaveitungum á föstudeginum? Sveinn Steinarsson lýsti ánægju með heimaréttina og hvatti til að hún yrði kynnt vel svo ræktendur lærðu að nota hana. Guðlaugur sagði að hana mætti þakka Félagi hrossabænda því þeir hefðu styrkt gerð hennar. Páll Imsland spurði hvort ræktendur væru hvattir til að leiðrétta litaskráningar.
 Sveinn Steinarsson þakkaði góðan fund, glæsilegar veitingar, mátulegt húsnæði og sleit fundi kl. 23:00.


/Halla Eygló Sveinsdóttir 


back to top