Handbók um hugarfar kúa

Handbók um hugarfar kúa, er ný skáldfræðisaga sem kom út hjá bókaforlaginu Bjarti á þjóðhátíðardaginn. Þessi athyglisverði titill bókar er yfirskrift annarrar skáldsögu Bergsveins Birgissonar, en árið 2003 kom skáldsagan Landslag er aldrei asnalegt og var bókin tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Handbókin er hugsuð fyrir þá sem skilja vilja tíðarandann og takt hans. Í Handbók um hugarfar kúa segir frá ungum menningarfræðingi, sem snýr heim eftir strangt nám í útlöndum. Á ráðningarstofum er horft á hann með hluttekningu og hann spurður hvort hann hafi „komið eitthvað fram“? Að lokum fær hann þó í gegnum klíku það verkefni að gera handrit að heimildarmynd um íslensku kúna fyrir Bændasamtök Íslands.

Smám saman rennur upp fyrir hinum metnaðarfulla menningarfræðingi að virðingarstaða kúa speglar hugarfar manna á hverjum stað og hverjum tíma. Jafn einkennilega og það kann að hljóma, falla slíkar tengingar ekki í kramið hjá forkólfum heimildarmyndarinnar. Eftir óhuggulegt atvik í Hvalfirði, þar sem maður með stóra hunda kemur við sögu, verða kenningar um kýr og menn allsráðandi í hugarfjósi kúfræðingsins.


back to top