Hagstofan safnar hagtölum í landbúnaði

Hagstofa Íslands er að gera sérstakt átak í því að efla hagtölugerð í landbúnaði, en fram að þessu hafa Bændasamtök Íslands séð að mestu um að safna saman tölum um landbúnaðinn. Nokkuð hefur verið fjallað um þessi mál á síðustu misserum, m.a. í tengslum við umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu. Í skýrslu sem framkvæmdastjórn ESB sendi frá sér í haust sagði að sambandið teldi að Ísland væri ekki tilbúið til viðræðna um landbúnaðarmál, m.a. vegna þess að hagtölur um landbúnaðarmál á Íslandi væru ófullkomnar. ESB gagnrýnir m.a. að hagsmunasamtök sæu um að safna tölum um landbúnaðarmál.

Í nýlegri fréttatilkynningu frá Bændasamtökunum segir að í fyrra hafi þau fengið alls 14,8 milljónum króna til verkefna sem fela í sér söfnun og úrvinnslu upplýsinga um búvöruframleiðsluna, ýmis verkefni tengd framkvæmd búvörusamninga, s.s. að halda skrár um greiðslumark, réttindi til beingreiðslna, gripagreiðslna og veita upplýsingar úr þessum skrám til hlutaðeigandi aðila ásamt því að viðhalda og þróa nauðsynlegan hugbúnað. Þar af komi um 11 milljónir króna beint úr ríkissjóði.


Rósmundur Guðnason, skrifstofustjóri hjá Hagstofu Íslands, segir að Hagstofan sé bæta verulega söfnun upplýsinga um landbúnaðarmál og þær verði birtar í fyrsta skipti í mars á næsta ári. Hann segir að þá verði m.a. birt ný landbúnaðarrannsókn sem feli í sér grundvallarupplýsingar um íslenska landbúnað. Hann segir að þar muni koma fram upplýsingar sem ekki hafi verið teknar saman fram að þessu. Hann segir að Hagstofan hafi stigið þetta skref í samráði við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið og Bændasamtökin. Rósmundur sagði að sér finnist mjög ósennilegt að Bændasamtökin muni halda áfram að safna saman upplýsingum um landbúnaðarmál þegar Hagstofan sé farin að gera það.


Erna Bjarnadóttir, hagfræðingur Bændasamtakanna, segir að Bændasamtökin muni ekki hætta að safna saman tölfræðilegum upplýsingum um landbúnaðarmál. Samtökin séu með samning við Matvælastofnun um söfnun á tilteknum upplýsingum. Einnig hafi Bændasamtökin skyldur samkvæmt lögum um að halda saman tilteknum upplýsingum og þeim lögum hafi ekki verið breytt. Bændasamtökin muni gera samstarfssamning við Hagstofuna um miðlun upplýsinga. Hún segir aðspurð að ekki verði um neinn tvíverknað að ræða. Samstarfssamningurinn sé einmitt gerður til að koma í veg fyrir það. Hún segist hafa trú á að Hagstofan muni bæta mikilvægum upplýsingum við þær upplýsingar sem þegar er safnað, sérstaklega í sambandi við verð á landbúnaðarvörum og fleira.


back to top