Hægt að fjórfalda byggræktun

Rök hníga að því að fjórfalda megi byggræktun hér á landi, að sögn Jónatans Hermannssonar, tilraunastjóra á Korpu og lektors við Landbúnaðarháskóla Íslands.
Áætlað er kornræktin hafi skilað um 16 þúsundum tonna uppskeru í ár, að langmestu leyti byggi. Fjórföldun þess þýðir yfir 60 þúsund tonna framleiðslu.
Framleiðslan samsvarar öllum innflutningi á byggi að viðbættum hluta þess fóðurhveitis sem gefið er svínum. Auk þess er reiknað með að bæta megi fóðrun nautgripa með aukinni notkun fóðurkorns.

Alifuglar þurfa orkuríkt fóður og eru flutt inn um 25 þúsund tonn af hveiti og maís á ári fyrir þá. Á vegum Landbúnaðarháskóla Íslands er unnið að þróun byggafbrigðis sem missir hýðið við uppskeru. Jónatan segir að þetta nakta bygg sé orkuríkt og geti komið í stað innflutts hveitis sem alifuglafóður. Telur hann að um fimm ár séu í að hægt verði að hefja ræktun á því, með sama hætti og hefðbundnari afbrigða.


Vetrarhveiti er ræktað hér í smáum stíl. Þá er sáð að sumri og gert ráð fyrir að plantan liggi í dvala yfir veturinn en geti nýtt seinna sumrið til fullnustu.


Hluti af bygg- og hveitiframleiðslunni fer til manneldis. Tveir framleiðendur hafa selt þessar vörur í neytendaumbúðum og nokkrir bakarar hafa notað íslenskt bygg við framleiðslu sína.


Rækta hráefni í eldsneytið
Tilraunir sem gerðar hafa verið til framleiðslu á repju til olíuframleiðslu að frumkvæði Siglingastofnunar lofa góðu. Uppskera var góð á bestu stöðum síðastliðið sumar. Olían úr repjunni er notuð til manneldis og með frekari meðhöndlun má nota hana á vélar í stað dísilolíu.


Rannsóknir hafa verið gerðar um stórfellda vinnslu etanóls úr lífmassa, svo sem hálmi, heyi og skógarkurli. Til þess myndi þurfa stórfellda ræktun. Afurðin er ætluð til eldsneytis. Ekki hefur komið til framkvæmda og er málið í bið.


Morgunblaðið 27. janúar 2009, helgi@mbl.is


back to top