Gosið virðist ekki hafa haft veruleg áhrif á heilsu búfjár

Samkvæmt upplýsingum frá Matvælastofnun er búið að taka og greina lungnasýni úr 60 lömbum frá bæjum á gossvæðinu. Þau hafa verið skoðuð á Tilraunastöðinni á Keldum. Engar stórsæjar breytingar sem rekja má til gossins hafa fundist, aðeins eitthvað af bólgubreytingum vegna lungnaorma. Vefjaskoðun hefur heldur ekki leitt neitt óeðlilegt í ljós hingað til. Skýrsla um þessar rannsóknir er í vinnslu á Keldum. Þá eru í gangi rannsóknir á efnainnihaldi í beinum og lifur en niðurstöður ekki komnar enn.
Samkvæmt heyefnagreiningum er járninnihald í heyi mjög breytilegt. Í sumum tilvikum er það mjög hátt en er á formi járnoxíðs sem sérfræðingar á þessu sviði álíta að sé skepnum ekki mjög hættulegt, þ.e. upptaka á því er lítil. Matvælastofnun hefur þó í hyggju að taka blóðsýni úr búfé á bæjum þar sem mikið járn hefur greinst í heyi og fylgjast þannig með stöðunni.

Rétt er að taka fram að þó lítið hafi komið fram enn er ekki þar með sagt að áhrif gossins geti ekki haft áhrif á heilsufar búfjár síðar.

Bændur og umráðamenn ættu samt sem áður að vera mjög vakandi fyrir öllum óeðlilegum breytingum á heilsufari búfjár. Verði vart við eitthvað sem ekki virðist eiga sér eðlilegar skýringar hafið þá strax samráð við dýralækni sem og sérfræðinga Matvælastofnunar. Brýnt er að láta Matvælastofnun vita svo hægt sé að vakta og kortleggja það sem um ræðir.


back to top