Fyrsta slætti víða lokið

Allmargir bændur á Suðurlandi hafa nú þegar lokið 1. slætti sem hlýtur að teljast óvenju snemmt, þ.e. að ljúka honum í júní. Víðast hvar hefur viðrað vel til heyskapar, verið góður þurrkur og ættu því að hafa náðst hey með hámarksgæðum.
Þurrkurinn hefur hins vegar verið það mikill að sums staðar er hann farinn að hamla sprettu og þær skúrir sem fallið hafa undanfarna daga gera ekki mikið þó þær hjálpi vissulega til.
Sunnlenskir bændur geta þó kannski ekki kvartað því kollegar þeirra á Vesturlandi sjá fram á mun verri stöðu vegna þurrka. Þar eru tún farin að eða eru við það að fara að brenna, einkum og sér í lagi sanda- og melatún. Í fyrra upplifðu vestlenskir bændur svipað ástand þegar vart kom dropi úr lofti allan maí- og júnímánuð.
Samkvæmt spá Veðurstofunnar gæti þó rignt vestanlands um og eftir helgi en á suðvesturhorninu verður að öllum líkindum þurrviðri áfram.


back to top