Ræktunarkjarninn

 Stygg 102 var fyrsta kvígan sem fæddist í ræktunarkjarna á Stóra-Ármóti.

Stygg 102 var fyrsta kvígan sem fæddist
í ræktunarkjarna á Stóra-Ármóti.

 Fjöldaegglos er framkvæmt hjá úrvalskvígum og frjóvguðu eggin flutt í aðrar kýr á búinu. Kvígukálfar undan kvígunum sem reynast best eru settir á og nautkálfar teknir til afkvæmaprófunar. Þorsteinn Ólafsson, dýralæknir, hefur haft veg og vanda að fósturvísaflutningunum sem reyndar hafa gefist misvel en bændur halda fast í úrvalskvígurnar. Til að ráða bót á því er í bígerð að semja við bændur um fósturvísaflutninga heima á bæjum og fá hluta fósturvísanna í kýr á Stóra Ármóti.

 Saga ræktunarkjarnans á Stóra-Ármóti og yfirlit um gripi – úr ársskýrslum 1992-2001

Ræktunarkjarnaverkefnið á Stóra Ármóti hófst 1991. Þá var hafist handa við að safna úrvalsættuðum kvígum og nota þær bestu í fósturvísaflutninga.

Ársskýrsla 1992: Hugmyndin er að framkalla fjöldaegglos í bestu kvígunum, sæða þær með góðu nauti, skola fósturvísunum út, frysta þá og sæða síðan fósturmæður á búinu með þeim. Þannig er hugsanlegt að fæðist 5-10 alsystkini á búinu. Naut úr þeim hópi má nota á sæðingarstöð, einhverjar kvígur færu síðan í að viðhalda kjarnanum og jafnvel væri hægt að selja kvígur til bænda. Einnig er líka hugsanlegt að gera samning við einhverja bændur um að þeir láti fósturmæður í té. Stefnan var að fá 6-8 kvígur á ári að búinu undan ungum toppkúm. Því miður hefur það ekki alveg tekist. Sumir eru tregir að láta kvígukálfa undan sínum bestu kúm og svo höfum við e.t.v. ekki leitað í nægilega stóran hóp.

Ársskýrsla 1993: Ekki gekk nógu vel að uppfylla þau markmið að fá 6-9 kvígur á ári þannig að við leituðum til bænda í öðrum landshlutum og skrifuðum eigendum 108 kúa bréf þar sem kvígur undan þeim eru falaðar í rætkunarkjarnann ef þær hafa verið sæddar með nautsfeðrum. Við þessu urðu jákvæð viðbrögð og höfum við fengið 7 kvígur að í kjarnann frá því í haust (1993). Þar af 2 úr Eyjafirði og 1 af Vesturlandi og 1 af Suðurlandi.

Ársskýrsla 1994: Byrjað var að safna í kjarnann 1991. Síðan þá hafa 30 kvígur verið teknar inn í hann, en núna er 21 kvíga í honum. Þær sem hafa fallið út hafa ekki staðist kröfur eða orðið fyrir slysi. Ræktunarkjarnaverkefninu miðar áfram, frekar hægt í byrjun en þó allt í áttina, mikilvægt er að heppnast hefur að nota frysta fósturvísa en það er forsenda þess að þetta starf geti heppnast vel. Ég sé fyrir mér í framtíðinni fjölda af fósturvísum úrvalsættaðra gripa sem þeir bændur a.m.k. sem látið hafa gripi í kjarnann gætu átt kost á.

Ársskýrsla 1995: Nú hefur ÞÓ náð tökum á því að framkvæma fósturvísaflutninga úti á búunum og því eðlilegt að fara þess á leit við eigendur efnilegra úrvalsættaðra kúa að fá að framkvæma fósturvísaflutninga á þeim og fá þannig fósturvísa inn í ræktunarkjarnann. Búast má við því að bændur verði jákvæðir við þessari hugmynd því þeir myndu einnig fá fósturvísa náist þeir. Annars er kjarninn farinn að framleiða í sig sjálfur sem hugmyndin gengur raunar út á. Í nágrannalöndum okkar hefur reyndin orðið sú að fósturvísaflutningar hjá bændum eru á undanhaldi út af kostnaði, en menn einbeita sér að ræktunarkjörnum.

Skv. ársskýrslu 1996: Árið 1997 er að hefjast undirbúningur að því að gera samning við þá bændur sem eiga sérlega efnilegar ungar kýr um að framkvæma fósturvísaflutninga á þeim. Bændurnir fengju 1. fósturv., tilraunabúið 2 næstu, bóndinn 4. og svo koll af kolli.

Ársrit 1997: Þegar upp er staðið er kostnaður oft meiri en ávinningur. Nokkrir bændur hafa fengið ÞÓ til að framkalla fvfl. úr uppáhaldskúm. Þetta er auðvitað spennandi og von til að vel takist. En oftar en ekki er árangur of lítill. Nú var samþykkt tillaga um tilraunainnflutning á NRF kúm fari fram á tilraunabúunum. Þegar þetta er ritað er væntanlega búið að sækja um innflutningsleyfi til yfirdýralæknis. Fari svo að leyfi fáist mun það hafa veruleg áhrif á ræktunarkjarnann. Sem stendur er því nokkur óvissa um framtíð hans.

Ársrit 1998: Þá eru margar ungar kvígur til á búinu sem tilheyra kjarnanum sem vegna ætternis er hægt að gera miklar kröfur til. Ekki er vafi á því að safnað hefur verið saman miklu af verðmætu erfðaefni og mikilvægt að nýta það sem best íslenska kúastofninum til framdráttar.

Ársrit 1999:Sú kýr sem mestu hefur skilað í ræktunarkjarnanum á Stóra Ármóti var Stygg 102 frá sama bæ sem var undan Hrók 83033 og Frigg 844 dóttur Lýtings 77012. Frigg var afar farsæl kýr og júgurhraust. Stygg 102 skilaði 5 dætrum þar af 4 alsystrum öllum undan Andvara 87014. Þær eru Fruma 504, tilkomin sem fósturvísir, Frigg 511 og Vísa 512 tilkomnar sem frystir fósturvísar og Blaka 509. Þráður 86013og Lomber 89010 voru synir Friggjar og hafa báðir reynst vel. Lomber var með betri Tvistssonum en illu heilli var alltof lítið sæði til úr honum. Þráður gaf mjólkurlagnar og júgurhraustar kýr og eru synir hans fæddir 1994 að byrja að sýna sig og lofa góðu.

Gæfa 314. F. Daði 87003. Farsæl og þægileg kýr með góða júgurgerð. Undan henni og Tudda 90023 er Kaleikur 98048 sem kemur í notkun fljótlega. Fyrir skömmu voru 10 fósturvísar skolaðir úr Gæfu og frystir. Hún hafði verið sædd með Klerki 93021. Kynbótamat Gæfu er 120.

Fruma 504. F. Andvari 87014. Háfætt og virkjamikil. Var tekin í fósturvísaflutninga eftir fyrsta burð. Úr þeim komu 2 alsystur undan Almari 90019 svo er kvíga til undan Frumu og Tudda 90023. Fruma ber í vor og er fyrirhugað að skola fósturvísum úr henni. Kynbótamat Frumu er 123.

Blaka 509. F. Andvari 87014. Mesta afurðakýrin af þessum systrum. Fór í 28 kg að fyrsta kálfi og mjólkaði 6559 kg fyrsta mjólkurskeið. Var ekki notuð í fósturvísaflutninga því spenar voru staðsettir of utarlega. Festi ekki fang og hefur verið felld.

Frigg 511. F. Andvari 87014. Laglegur gripur og líkist gömlu Frigg 844. Bar um 2ja ára aldur en er vaxandi og mjólkaði 5814 kg á síðasta ári. Til er kvíga undan henni og Tudda 90023. Fyrirhuguð í fósturvísaflutninga. Kynbótamat Friggjar er 121.

Vísa 512. F. Andvari 87014. Bar ung og er þægileg og farsæl kýr sem mjólkaði 5799 kg á síðasta ári. Því miður er örlítill aukaspeni samvaxinn spena sem háir kúnni ekki en útilokar hana frá því að vera notuð í fósturvísaflutninga. Kynbótamat Vísu er 122.

Þá er rétt að geta um þær kýr sem tilheyra ræktunarkjarnanum og eru mjólkandi í dag.

Hjálma 336. F. Bassi 86021. M. Bauga 186, Voðmúlastöðum. Mf. Bruni 82013. Hjálma er snotur og þéttvaxinn Bassadóttir með góða júgur og spenagerð og gott skap. Hjálma fór rólega af stað en hefur vaxið jafnt og þétt. Eigulegur gripur. Kvíga undan henni og Forseta 90016 er til. Kynbótamat Hjálmu er 115.

Gusa 409. F. Þráður 86013. M. Randý 124. Gusa er full lágfætt en mjólkurlagin. Í uppeldi er kvíga undan Gusu og Negra 91002. Kynbótamat Gusu er 114.

Bryðja 415. F. Andvari 87014. M. Þvinga 231 ættuð frá Bryðjuholti undan Þistli 84013 og Ingu 103 dóttur Tvists 81026. Bryðja er háfætt og heldur vaxandi kýr. Undan Bryðju og Krossa 91032 er kvíga í uppeldi. Kynbótamat Bryðju er 118.

Kvöldrós 431. F. Þráður 86013. M. Dagrós 262 frá Sigtúnum. Mf. Tvistur 81026. Kvöldrós er frábær í mjöltum og hefur staðið sig vel þrátt fyrir langa geldstöðu en oft er erfitt að fá tíma í kýrnar eftir fósturvísaflutninga. Kvöldrós 431 hefur skilað þremur kvígum í kjarnann. Frostrós 528 undan Svelg 88001, Rós 718 undan Hvanna 89022 og óborinni kvígu Elfu 814 dóttur Stúfs 90035. Nautkálfur (Rökkvi 99026) er á Nautauppeldisstöðinni undan Kvöldrós 431 og Negra 91002. Kynbótamat Kvöldrósar er 115.

Slaufa 433. F. Bassi 86021. M. Fimma 96, Vallakoti. Mf. Tvistur 81026. Í Slaufu sameinast helstu kostir Bassa 86021 og Tvists 81026. Hún er stór og þéttvaxin með öfluga byggingu, hátt próteininnihald og mikla mjólkurlagni. Þessi kýr skilar 40 kg dagsnyt með háu próteini fyrst eftir burð. Vegna dugnaðar við át og mikils forða á skrokk fer hún létt með það án súrdoða. Júgrið var fallegt á henni að fyrsta kálfi en hefur síkkað með árunum. Undan Slaufu 433 er til nýborin kvíga Lykkja 725 Óladóttir 88002 sem lofar góðu, nýfæddur kvígukálfur undan Tjakk 92022 og naut sem fór á Nautauppeldisstöðina undan Skó 90025. Kynbótamat Slaufu er 126. Þar af 10 stig sem eigið frávik sem er mælikvarði á hvernig gripurinn hefur staðið sig miðað við ætternisvæntingar.

Frostrós 528. F. Svelgur 88001. M. Kvöldrós 431. Þessi laglega kýr mjólkaði 5067 kg á fyrsta mjólkurskeiði en við annan kálf er hún lakari. Nautkálfur (Kofri 99030) undan henni og Þyrni 89001 er í uppeldi. Kynbótamat Frostrósar er 117.

Smáhvít 617. F. Sokki 94003, M. Olla 232 frá Bakkakoti. Mf. Belgur 84036. Ein besta kvígan sem bar fyrsta kálfi á Stóra Ármóti í fyrra. Hún er undan óreyndu nauti en hinsvegar eru komnar ákveðnar bendingar um að hann reynist vel til kynbóta. Í uppeldi er kvíga undan henni og Tý 96012 frá Böðmóðsstöðum. Kynbótamat Smáhvítar er 124.

Lykkja 725. F. Óli 88002. M. Slaufa 433. Nýborin að fyrsta kálfi. Sterkbyggð og falleg. Fyrsta próteinmæling há. Efnis kvíga.

Rós 718. F. Hvanni 89022. M. Kvöldrós 431. Þessi kvíga bar í byrjun mars og átti 2 kvígukálfa undan Skugga 92025 og komst strax í 28 kg dagsnyt þó hún skarti ekki holdum. Við súrdoðapróf fannst ekki vottur af ketonefnum sem segir okkur að hún nær að éta fyrir því sem hún mjólkar. Kvígan er skapgóð og góð í mjöltum.

Brátt er liðinn áratugur frá því að hafist var handa við að mynda ræktunarkjarna með úrvalsættuðum kvígum á tilraunabúinu. Í byrjun var lögð áhersla á að kaupa kvígur að. Nú seinni árin hefur verið miðað við að kjarninn endurnýjaði sig sjálfur. Sú hugmynd að gera samning við bændur þar sem úrvals kýr þeirra væru teknar í fósturvísaflutninga og ræktunarkjarninn fengi hluta af fósturvísunum hefur ekki enn orðið að veruleika. Mikilvægt er að þjálfa starfslið sem hefur tök á tækninni þannig að ekki standi upp á verklega þáttinn. Ef vel tekst til með söfnun fósturvísa þá verður búið aflögufært fljótlega. Í dag eru 18 kvígur í uppeldi á búinu sem tilheyra kjarnanum og þó segja megi að full hægt gangi þá er mikill efniviður þarna á ferðinni. Sóknarfærin felast í markvissari vinnu hjá okkur sjálfum.

Ársrit 2000:Hér ætla ég að gera grein fyrir helstu breytingum sem urðu á kvígum og kúm sem tilheyra ræktunarkjarnanum á Stóra Ármóti.

Sól 722. F. Svali 95013 frá Hríshóli. M. Olla 232 frá Bakkakoti. Hún er sammæðra Smáhvít 617 sem hefur reynst afar vel. Þessi kvíga er bleikrauð að lit og mjög eiguleg. Hún bar í nóvember og fór í 22 kg hæstu dagsnyt en hefur haldið þeirri nyt að mestu. Hún hefur mikla boldýpt, er dugleg við át. Skap og mjaltir eru með ágætum. Sól 722 fékk 84,0 stig fyrir byggingu. Sól 722 er besta kvígan af þeim sem báru í haust á búinu að mati bústjóra.

Prinsessa 723. F. Sporður 88022. M. Gullbrá 334 frá Oddgeirshólum. Litur þessarar kvígu er kolhuppótt sokkótt. Hún er mjólkurlagin, með júgur vel borið en full langa spena. Hún fór í 23 kg og hefur haldið þeirri nyt vel. Prinsessa 723 hlaut 83,0 stig í útlitsdómi.

Burma 801. F. Búi 89017. M.Blaka 509 frá Stóra Ármóti. Þessi kvíga er kolótt að lit. Hún bar í júlí en þá var kvótinn búinn og engin kjarnfóðurgjöf. Hún sýndi þar af leiðandi litlar afurðir á síðasta ári. Burma er lagleg kvíga með útlitsdóm upp á 83,0 stig.

Elfa 814. F. Stúfur 90035. M. Kvöldrós 431. Elfa 814 er rauðskjöldótt að lit. Þetta er fjórða kvígan sem Kvöldrós 431 skilar í ræktunarkjarnann. Hinar eru Frostrós 528, Rós 718 og kvíga nr. 014 undan Tjakki 92022. Kvöldrós hefur líka skilað einu nauti á Nautauppeldisstöðina, Rökkva 99026 sem er sonur Negra 91002 og svo er Kofri 99030 sonur Frostrósar 528 og Þyrnis 89001. Kvöldrós 431 er að verða næst mesta ættmóðirin í kjarnanum á eftir Stygg 102. Elfa fór í 23 kg, líkist móður, sinni er afar laus í mjöltum og þæg við mjaltir en með aðeins viðkvæmni í lund. Elfa 814 er háfætt með vel borið júgur en staða framspena ekki nógu góð. Malir eru hallandi og halarótin lægri. Elfa hlaut því ekki nema 79 stig í útlitsdómi og verður ekki notuð sem nautsmóðir.

Stjarna 729. F. Laufi 95026 frá Stóru Hildisey 1. M. Vænting 308. Stjarna 729 er mikil kvíga rauð að lit. Afar rólynd og góð í mjöltum. Hæsta dagsnyt eftir burð að fyrsta kálfi er 20 kg og hlaut hún 85 stig í útlitsdóm.

Þá læt ég fylgja með mynd af glæsilegri svartskjöldóttri kvígu, Stínu 810 undan Krumma 95034 frá Geirshlíð og Eyju 502 sem er dóttir Daða 87003.

Fósturvísaflutningar hafa skilað 6 kvígum í ræktunarkjarnann. Alsystrunum Frumu 504, Frigg 511 og Vísu 512. Allar undan Andvara 87014 og Stygg 102. Tvær síðarnefndu tilkomnar úr frystum fósturvísum. Þá eru kvígur sem bera í haust. Kvíga nr 823, undan Tudda 90023 og Trú 501 og svo tvær alsystur nr. 826 og nr. 828 undan Almari 90019 og Frumu 504. 
Naut sem tekin hafa verið á nautastöðina á Hvanneyri úr ræktunarkjarnanum eru Garpur 98009 undan Almari 90019 og Hélu 533 frá Vorsabæjarhjáleigu, Glanni 98026 undan Almari 90019 og Randý 124 frá Efri Brúnavöllum, Rökkvi 99026 undan Negra 91002 og Kvöldrós 431 frá Sigtúnum, Kofri 99030 undan Þyrni 89001 og Frostrós 528 Stóra Ármóti. Allir þessir fóru í notkun en ekki náðist sæði úr Kaleiki sem var undan Tudda 90023 og Gæfu 314 og Loka sem var undan Sporði 88022 og Gusu 409. Þá er til á uppeldisstöð gullfallegur nautkálfur sem heitir Frestur undan Frumu 504 og Smelli 92028.
Í dag eru 37 gripir sem tilheyra kjarnanum, þar af 22 kvígur. Síðustu árin hefur lítið verið keypt inn á búið. Búbót frá Lækjarbotnum sem hlaut 89 stig fyrir byggingu og er undan Galmari 92005 og Björt 80 frá Lækjarbotnum, sem dæmdist 6. besta kýrin á Suðurlandi 1995, var keypt ásamt tveggja ára dóttur sinni þegar mjólkurframleiðslu á Lækjarbotnum var hætt. 
Í dag eru 16 frystir fósturvísar til. Af þeim eru 10 undan Klerki 93021 og Gæfu 314 og 6 undan Slaufu 433 og Vestra 94014. Ekki tókst að ná fósturvísum úr Frumu 504, sem var sædd með Völsungi 94006.
Næsta skrefið í ræktunarátaki hlýtur að vera að ná samningum við þá bændur sem eiga bestu og gallalausustu kýrnar um að ná fósturvísum úr þeim og fá hluta af þeim inn í ræktunarkjarnann.

Ársrit 2001: Síðastliðinn vetur stóð til að fá breskan sérfræðing í fósturvísaflutningum ásamt aðstoðarliði sínu til landsins til að miðla af þekkingu sinni og jafnframt gera átak í skolun fósturvísa úr úrvalskúm. Gin og klaufaveikin kom þá upp og þá þótti ekki ráðlegt að fá hann til landsins.
Þær Búbót frá Lækjarbotnum og Fruma 504 voru skolaðar tvisvar sinnum á árinu en Búbót hafði verið sædd með Kaðli 94017 en Fruma 504 með Fríski 94026. Vel gekk með Búbót og náðust 11 fósturvísar í hvort skipti og því 22 fósturvísar úr henni. Verr gekk með Frumu og náðust einungis 2 nothæfir fósturvísar úr henni í seinna skiptið og var þeim komið ferskum fyrir í fósturmæðrum. Þær héldu ekki sem og aðrar sem fósturvísum var komið fyrir í. Nú eru til 37 frystir fósturvísar. Af þeim eru 22 undan Búbót 29 og Kaðli 94017, 10 undan Gæfu 314 og Klerki 93021 og 5 undan Slaufu 433 og Vestra 94014.
Kýr og kvígur sem tilheyra ræktunarkjarnanum eru 36 og þar af 18 ungar og óbornar flestar þeirra afar vel ættaðar. Kvígur sem tilheyra ræktunarkjarnanum á Stóra Ármóti og báru í haust mjólkuðu óvenju vel. Þær bestu fóru í nærri 30 kg og héldu vel á sér. Ekki var það vegna þess að erfðaeðlið hefði snarbreyst heldur vegna þess að þær voru fóðraðar til meiri afurða en áður. Hér verður gerð örstutt grein fyrir þeim kvígum sem tilheyra kjarnanum báru sl. haust og hafa heppnast vel.

Búkolla 821. Þessi kvíga er undan Forseta 90016 frá Þríhyrningi sem er þekktur af því að gefa þægilegar kýr með góða júgur og spenagerð. Móðir hennar er Hjálma 336 frá Voðmúlastöðum dóttir Bassa 86013 sem er ein af þessum farsælu endingargóðu kúm. Kvíga þessi sameinar flesta þá kosti sem prýða góða mjólkurkú. Sterkbyggð og vel gerð á skrokk, með góða júgur og spenagerð, skap og mjaltir með ágætum. Hún fór í 24 kg dagsnyt og á 7. mánuði frá burði er hún enn í 20 kg dagsnyt.

Fjóla 822. Móðir hennar er Smáhvít 617, falleg dóttir Sokka 94003 en faðir hennar er ungnautið Týr 96012. Kvígan fór í rúm 27 kg og hefur haldið vel á sér. Hún er í meðallagi stór með góða júgur og spenagerð. Þægileg og góð kvíga.

Villimey 824. Er undan Þrá 332 og Almari 90019. Villimey er öflug kvíga með mjólkurlagni í meðallagi. Júgrið er vel borið en spenar full grannir.

Tala 828. Tilkomin gegnum fósturvísaflutninga, undan Almari 90019 og Frumu 504 sem og Erna 826 sem bar með júgurbólgu og var felld. Tala er fremur lágfætt með ágæta mjólkurlagni og vel borið rýmismikið júgur en spenar eru full grannir og aðeins kylfulaga þannig að mjaltatækin haldast illa á henni þegar hún er troðjúgra.

Skrudda 908. Móðir hennar er Kápa 520 dóttir Hólms 81018 en faðir hennar er Kalli 96024. Þessi kvíga hefur mjólkað best af kvígunum á Stóra Ármóti í haust. Fór í 30 kg dagsnyt og hefur haldið vel á sér. Júgrið er rýmismikið en júgur og spenagerð full gróft.

Hálsa 912. Þessi laglega kvíga er undan Slaufu 433 og Skó 90025. Júgrið er fallegt og vel borið en mjaltir full þungar þannig að hún er tæplega til frambúðar.

Leista 916. Faðir hennar er Tuddi 90023. Leista er um margt lík móður sinni Frumu 504, háfætt og sterkleg með aðeins ójafna yfirlínu og vel borið júgur. Þetta er þriðja kvígan undan Frumu 504 sem ber í vetur og sú eina sem virkilega ætlar að heppnast.

Það eru rúm 10 ár síðan söfnun á úrvalsættuðum kvígum hófst með það að markmiði að mynda ræktunarkjarnann á Stóra Ármóti. Nú seinni árin hefur verið horfið frá því að kaupa kvigur inn á búið og kjarninn viðhaldið sér sjálfur. Ég hefði viljað sjá meiri merkjanlegan árangur af þessu starfi en við ýmsa örðugleika er að etja sem sést best á því að fyrir 5 til 7 árum var verið að reyna fósturvísaflutninga úti hjá bændum sem lítið kom út úr og hafa menn horfið frá því allavega nú um sinn. Lyfjameðferðin er dýr, oft gengur illa að fá tíma í þær kvigur sem skolaðar eru og svo halda fósturmæðurnar ekki alltof vel.
Nú þyrfti að setjast niður, meta árangurinn af þessu starfi og í framhaldi af því að ákveða með hvaða hætti við stöndum best að því að nýta þessa tækni við að kynbæta íslenska kúastofninn.

back to top