Mismunandi rekstrarform fyrirtækja

Þegar stofnað er til reksturs er mikilvægt að formið henti umfangi og áhættustigi hans. Skattareglur geta verið mismunandi, sem og reglur um bókhald og reikningsskil, ábyrgð eigenda, ákvörðunartöku og stofnkostnað, svo eitthvað sé nefnt. Þannig þarf að taka mið af stærð rekstursins, uppbyggingu hans og þeirri starfsemi sem hann fæst við.


 


Fyrirtæki sem greiðir laun þarf að skrá á launagreiðendaskrá hjá Ríkisskattstjóra eða skattstjóra viðkomandi umdæmis að lágmarki átta dögum áður en starfsemi hefst. Þá þarf fyrirtæki sem ætlar að stunda virðisaukaskattsskylda starfsemi að tilkynna um það til skattstjóra viðkomandi umdæmis og fá úthlutað hjá honum virðisaukaskattsnúmeri áður en starfsemi hefst.


 


Einfaldur samanburður á rekstrarformum xls-skjal


 


Einstaklingsfyrirtæki (firma)


Einstaklingsfyrirtæki er fyrirtæki sem einn aðili á og rekur á eigin kennitölu. Ábyrgð eigandans á skuldbindingum rekstursins er bein og ótakmörkuð og að öllu leyti sambærileg öðrum, persónulegum skuldbindingum. Einstaklingsrekstur þarf að skrá í fyrirtækjaskrá. Ef reksturinn er undir öðru nafni en eigin, þarf að skrá hann í firmaskrá.


 


Tekjuskattprósenta einstaklingsfyrirtækja er sú sama og hjá einstaklingum (35,72%) og í raun er ekki gerður greinarmunur á skatti sem lagður er á eigandann sem einstakling og skatti sem lagður er á einstaklingsfyrirtæki hans. Eigendur einstaklingsfyrirtækja skulu skila sérstökum rekstrarreikningi með einstaklingsframtali sínu til skattyfirvalda (eyðublað RSK 4.11). Á rekstrarreikning skal færa tekjur og gjöld, þar með talið reiknað endurgjald. Reiknað endurgjald og hagnað, ef um hann er að ræða, skal færa inn á persónuframtal. Tap er ekki fært inn á farmtal, því má safna upp og draga frá hagnaði næstu ára. Yfirfært tap fyrnist á 10 árum.


Skráningarkostnaður er 72.500 kr ef skráð er í firmaskrá og ekkert hlutafé þarf að leggja til.


 


Helstu kostir einstaklingsfyrirtækis eru einfalt lagaumhverfi, mikið sjálfstæði eigenda og oft á tíðum lítill stofnkostnaður. Ókostirnir eru þeir að mörgum finnst erfitt að skilja á milli rekstursins og einkafjármála, ótakmörkuð áhætta getur komið sér illa ef reksturinn verður viðamikill eða felur í sér áhættu og erfiðara getur verið að selja hann eða fá samstarfsaðila til liðs við hann. Þá eru skattar á einstaklingsfyrirtæki töluvert hærri hér á landi en á aðrar tegundir af fyrirtækjum. Þetta form hentar því kannski best litlum (viðalitlum eða tímabundnum) persónulegum rekstri sem felur í sér litla áhættu.


 


Sameignarfélög


Sameignarfélag er fyrirtæki þar sem eigendur eru tveir eða fleiri, hvort heldur einstaklingar eða aðrir lögaðilar (Lögaðili er hver sá aðili sem réttarskipunin viðurkennir að geti átt réttindi, borið skyldur og gert löggerninga, þar með talið fyrirtæki, stofnanir og samtök). Ábyrgð eigenda á skuldbindingum félagsins er bein, óskipt og ótakmörkuð, ekki ósvipuð einkunnarorðum skyttnanna þriggja: „Einn fyrir alla og allir fyrir einn!“. Bein ábyrgð þýðir að kröfuhafar geta gengið beint að persónulegum eigum eigenda og þurfa því ekki fyrst að reyna að fá greitt hjá félaginu sem slíku. Óskipt ábyrgð þýðir að hver eigandi fyrir sig ábyrgist allar skuldir félagsins og með ótakmörkuðum hætti þýðir að eigandinn gerir það með öllum sínum eigum.


 


Um sameignarfélög gilda engin sérstök lög. Vegna hinnar ríku ábyrgðar er mikilvægt að eigendur geri ítarlegan stofnsamning við upphaf rekstrar. Þar ætti til dæmis að koma fram hvert stofnframlag hvers eiganda er og hvernig skipta skal tapi eða hagnaði af rekstrinum. Algengt er að skiptin séu í réttu hlutfalli við eignaraðild. Í stofnsamningi gæti einnig komið fram hvernig ákvarðanir skuli teknar ef eigendur eru ekki á einu máli því ef ekki er beinlínis samið um annað er meginreglan sú að allir félagar þurfa að vera sammála um skuldbindingar. Rétt er þó að ítreka að ákvæði stofnsamnings eru að jafnaði aðeins bindandi milli eigenda sameignarfélagsins en takmarka á engan hátt fulla ábyrgð hvers eiganda gagnvart þriðja aðila.


 


Tekjuskattur á sameignarfélag er 36% hafi það verið skráð sem sjálfstæður skattaðili samkvæmt beiðni en ella eru einstakir félagsmenn skattlagðir eftir eignarhluta í félaginu sem einstaklingar. Hjón (ein og sér eða með ófjárráða börnum sínum) sem eiga og reka sameignarfélag eru þó alltaf skattlögð sem einstaklingar. Þegar borin er saman skattlagning á sameignarfélög og (einka)hlutafélög er rétt að geta þess að enginn skattur er greiddur af úttekt úr sameignarfélagi, sbr. 20% fjármagnstekjuskatt sem greiddur er af arði hlutafélaga. Til samanburðar er heildarskattprósenta af fjármagni sem greitt er til hluthafa hlutafélags sem arður, um 36% (dæmi: 100.000 hagnaður – borga 20% af því í skatt = 20.000 kr. Þá eru 80.000 kr eftir sem er tekið út sem arður – borgar 20% í skatt = 16.000 kr. Þá er búið að borga 36.000 í skatt af 100.000 sem gerir 36%).


Sameignarfélag skal skrá í firmaskrá. Greiða þarf 2% stimpilgjald af stofnfé sem félaginu er lagt til. Skráningarkostnaður er 88.000 kr. Ekkert hlutafé þarf að leggja til.


 


Flestir þeir ókostir sem fylgja einstaklingsrekstri eigi við um sameignarfélagaformið. Þar ber auðvitað hæst hina víðtæku ábyrgð eigenda sem verður jafnvel enn víðtækari en í einstaklingsrekstrinum þar sem hún nær einnig yfir skuldbindingar sem sameigendur gera í nafni félagsins. Það verður því aldrei of mikil áhersla lögð á varkárni og það að gengið sé vel frá öllum lausum endum varðandi samstarf, strax við stofnun félagsins. Þá geta breytingar sem tengjast t.d. brotthvarfi og fjölgun félaga og missætti félagsmanna valdið vandkvæðum. Kostir þessa félagsforms eru ýmsir, stofnkostnaður getur verið lítill, lagaumhverfi þess er einfalt, það lýtur ekki sömu kröfum um form, eftirlit o.fl. líkt og hlutafélög, einfalt er að slíta því, rúmar heimildir eru til að taka út úr því fjármuni og skattlagning er hagstæð ef hagnaður er af rekstri. Almennt má segja að þetta umhverfi eigi vel við áhættulítinn og umsvifaminni rekstur.


 


Hlutafélög


Hlutafélag nefnist sú tegund félagaforms þar sem enginn félagsmanna ber persónulega ábyrgð á heildarskuldbindingum félagsins. Þannig er fjárhagsleg ábyrgð þeirra takmörkuð við það hlutafé sem þeir leggja fram. Eigendur hlutafélaga eru nefndir hluthafar og er framlagi þeirra skipt í eignarhluti og fer um réttindi þeirra og áhrif samkvæmt hlutaeign.


 


Hlutafélög geta verið tvenns konar. Annars vegar hlutafélög (hf.) og hins vegar einkahlutafélög (ehf.). Lagaramminn er að mestu leyti sá sami en þó er munurinn sá að í einkahlutafélagi getur verið einn hluthafi, lágmarkshlutafé er lægra og ýmsar reglur eru einfaldari. Rétt er að taka fram að ekkert hámark er á hlutafé eða fjölda hluthafa ehf. og getur það félagaform því hentað jafnt stærri sem minni fyrirtækjum. Hf.-formið hentar fyrst og fremst stærri og viðameiri rekstri sem markmiðið er að skrá í kauphöll. Ekki verður vikið að sérreglum sem kunna að gilda fyrir félög sem skráð eru á skipulögðum verðbréfamarkaði.


 


Hlutafé í hf. skal skipt í tvo eða fleiri hluti og skal vera minnst fjórar milljónir króna. Ehf. getur verið í eigu eins eða fleiri hluthafa en lágmarkshlutafé er fimm hundruð þúsund krónur. Heimilt er að hækka eða lækka hlutafé félags með sérstakri ákvörðun hluthafafundar en það má þó aldrei vera lægra en sem nemur þessu tilgreinda lágmarki. Við stofnun skuldbinda hluthafar sig til að greiða hlutafé. Ef greiða á með öðru en peningum þarf að tiltaka það sérstaklega.


 


Hlutafélag skal tilkynna til skráningar hjá Hlutafélagaskrá hjá Ríkisskattstjóra. Hf. skal tilkynna til skráningar innan sex mánaða frá dagsetningu stofnsamnings og skal þá minnst helmingur hlutafjár vera greiddur. Ehf. skal skrá innan tveggja mánaða frá dagsetningu stofnsamnings og skal þá allt hlutafé vera greitt. Upplýsingar út Hlutafélagaská eru opinberar, s.s. um stjórn, tilgang og ársreikninga.


 


Aðalreglan í félögum er að allir hlutir í félaginu hafi jafnan rétt og er yfirleitt miðað við fjárhæð hluta.


Í félögum eru almennt þrjár stjórnareiningar; hluthafafundur, stjórn og framkvæmdastjóri. Hluthafafundur, sem sérhver hluthafi hefur rétt til að mæta á, fer með æðsta vald í félögum og hefur einn vald til þess að taka ákveðnar lykilákvarðanir. Í hf. skulu stjórnarmenn vera minnst þrír. Í ehf. geta stjórnarmenn verið einn eða tveir ef hluthafar eru fjórir eða færri. Framkvæmdastjóri félags stjórnar daglegum rekstri þess. Í hf. skulu ávallt vera einn til þrír framkvæmdastjórar en í ehf. þarf ekki að ráða framkvæmdastjóra. Framkvæmdastjórar mega jafnframt sitja í stjórn félags en mega þó ekki vera í meirihluta nema í ehf., í tilvikum þar sem einn eða tveir menn sitja í stjórn.


 


Tekjuskattsprósentan er 20% og 20% fjármagnstekjuskattur af arði. Ekki er hægt að flytja hagnað félagsins yfir til eigenda, eins og tíðkast í einstaklings- eða sameignarfélögum, án þess að fylgja reglum um útgreiðslu arðs. Um greiðslu arðs í einkahlutafélögum gilda takmarkandi reglur auk þess sem lagt er almennt bann við lánum til hluthafa í einkahlutafélögum. Rétt er að nefna sérstaklega reiknað endurgjald en samkvæmt lögum um tekju- og eignaskatt þurfa einstaklingar að reikna sér ákveðnar lágmarkstekjur fyrir vinnu sína að eigin atvinnurekstri og greiða fullan tekjuskatt af þeirri upphæð. Hægt er að sækja um undanþágu eða lækkun á þessum viðmiðunum en almennt má segja að þetta ákvæði þýði að það borgi sig ekki fjárhagslega fyrir einstakling að stofna hlutafélag um rekstur sinn, nema tekjustreymi fari yfir ákveðið lágmark.


Skráningarkostnður hjá ehf er 130.500 kr en 264.650 auk þess þarf að greiða 2% af stimpilgjaldi hlutabréfa. Hlutabréfin eru takmörkuð við 500.000 kr. hjá ehf en 4.000.000 kr hjá hf.


 


Helsti kostur hlutafélagaformsins er hin ljósa og takmarkaða ábyrgð eigenda á rekstri og áhættu. Hún gerir mönnum kleift að ráðast í fjárfrekar og áhættusamar framkvæmdir, án þess að hætta fjárhagslegu öryggi sínu og fjölskyldunnar, svo framarlega sem menn trúa á hugmyndina að baki félaginu og vilja leggja því til fé. Skattaumhverfi getur verið hagstætt, hvort sem um er að ræða hagnað eða tap á rekstrinum. Helstu gallarnir eru hár stofnkostnaður, ekki síst í formi þess lágmarkshlutafjár sem leggja þarf fram í upphafi. Þá eru hinar ströngu formkröfur mörgum fjötur um fót og skattareglur geta verið flóknar og óhagstæðar, sérstaklega fyrir einstaklinga sem hyggja á einfaldan, veltulítinn rekstur. Stundum getur verið vert að hugleiða kaup á svokölluðu tómu hlutafélagi. Með tómu hlutafélagi er átt við eignalaust hlutafélag sem hætt hefur rekstri en hveru ekki verið formlega slitið þannig að það er enn skáð í hlutafélagaskrá. Með því móti má losna við umstang og kostnað sem leiðir af stofnun hlutafélags, auk þess sem skattalegt hagræði getur fylgt gamla félaginu. Fara þarf þó varlega við slík kaup, enda hvílir sú skylda á stjórn hlutafélags, þegar eigið fé er orðið minna en helmingur af skráðu hlutafé, að grípa til ráðstafana. Tómt félag má því að öllum líkindum ekki hafa verið „tómt“ of lengi þegar það er selt og ný stjórn slíks félags tekur við skyldum til aðgerða.


 


Önnur rekstrarform


 


Samvinnufélög


Eins og nafnið bendir til eru samvinnufélög stofnuð á samvinnugrundvelli og miða að því að efla hag félagsmanna s.s. með því að útvega félagsmönnum og öðrum vörur og þjónustu og selja afurðir félagsmanna. Þekktust þeirra eru líklega kaupfélögin. Tekjuskattshlutfall samvinnufélaga er 20%.


 


Sjálfseignarstofnanir


Sjálfseignarstofnanir eru stofnaðar til þess að vinna að framgangi sérgreinds (göfugs) markmiðs. Það sem gerir slíka stofnun sérstaka er að hún á sig sjálf en sérstakri stjórn er falin meðferð hagsmuna hennar. Sjálfseignarstofnun er sett upp með ákveðnu stofnfé og bera hvorki stofnendur né stjórn beina ábyrgð á skuldbindingum hennar. Fjármuni (stofnfé og hagnað) stofnunarinnar skal nota í þágu markmiðs hennar og verða þeir ekki greiddir út til stofnenda. Félagaform þetta er því fyrst og fremst notað í því skyni að


styðja við ófjárhagsleg markmið, s.s. menntun, listir o.þ.h.


 


Samlagsfélög


Samlagsfélög eru nokkurs konar blanda af sameignarfélagi og hlutafélagi þar sem að minnsta kosti einn aðili ber ótakmarkaða ábyrgð á skuldbindingum félags en aðrir geta borið takmarkaða ábyrgð miðað við tiltekna fjárhæð eða hlutfall.





Samanburður á rekstrarformum (miðað við 1.1. 2012)































































































Einkarekstur


Sameignarfélag


Einkahlutafélag


Hlutafélag  


Eigendur


Rekstur í eigin nafni


A.m.k. tveir


Einn eða fleirri


A.m.k. tveir


Ábyrgð


Bein og ótakmörkuð


Bein, óskipt og ótakmörkuð


Með hlutafé


Með hlutafé


Skráning


Skráð hjá firmaskrá undir sér nafni


Skráð hjá firmaskrá, sýslumanni


Skráð hjá Hlutafélagaskrá, Ríkisskattstjóra


Skrá hjá Hlutafélgaskrá, Ríkisskattstjóra


Skráningar-kostnaður


72.500 kr. (ef skráð í firmaskrá)


88.000 kr.


130.500 kr.


264.650


Hlutafé


Nei


Nei


500.000 kr


4.000.000 kr


Tekjuskattur


Lagt á eigandann 3 þrep (37,4 eða 46%)


36% ef sjáfstæður skattaðili


20% (20% fjármagns-tekjuskattur af arði)


20% (20% fjármagns-tekjuskattur af arði)


Formreglur


Mjög einfaldar


Einfaldar


Ítarlegar sbr. lög nr. 138/1994


Mjög ítarlegar sbr. lög nr. 2/1995


Ákvörðunar-taka


Mjög einföld – eigandinn ræður


Allir þurfa að vera sammála nefa annað sé ákveðið í stofnsamningi


Skv. lögum: 1. Framkvæmdastjóri 2. Stjórn 3. Hluthafafundur


Skv. lögum: 1. Framkvæmdastjóri 2. Stjórn 3. Hluthafafundur


Opinberir reikningar


Nei


Nei




Endurskoðun


Val


Val


Löggiltur endurskoðandi eða 2 skoðunarmenn


Löggiltur endurskoðandi


Sala fyrirtækis


Erfitt getur verið að selja rkestur sem er svo tengdur prsónu


Erfitt getrur verið að selja vegna persónulegrar ábyrgðar og náins samstarfs


Skýrar reglur – sala á hlutum


Skýrar reglur – sala á hlutum


Slit


Tilkynnt til firmaskrá


Tilkynnt til firmaskrár. Fyrir þarf að liggja samkomulag eða byggt á ákvæðum stofnsamnings


Skýrar reglur. Tilkynnt til Hlutafélagaskrár. Skilanefnd/opinber skipti


Skýrar reglur. Tilkynnt til Hlutafélagaskrár. Skilanefnd/opinber skipti


Kostir


Einfalt lagaumhverfi, Sjálfstæði eigenda, Lítill stofnkostnaður


Lítill stofnkostnaður, Einfalt lagaumhverfi, Rúmar heimildir til að taka fé út úr rekstri, Hagstæð skattlagning


Takmörkuð ábyrgð eigenda á rekstri og áhættu, Hagstætt skattaumhverfi


Takmörkuð ábyrgð eigenda á rekstri og áhættu, Hagstætt skattaumhverfi


Gallar


Ótakmörkuð áhætta, Háir skattar,


Víðtæk ábyrgð eigenda


Hár stofnkostnaður, strangar formkröfur


Enn hærri stofnkostnaður, strangar formkröfur



Ítarefni:


Skráningareyðublöð og leiðbeiningar um útfyllingu þeirra má finna á vef Impru nýsköpunarmiðstöðvar á Iðntæknistofnun, www.impra.is , og vef Ríkisskattstjóra, www.rsk.is , undir Fyrirtækjaskrá.

 




Skráningareyðublöð og leiðbeiningar um útfyllingu þeirra má finna á vef Impru nýsköpunarmiðstöðvar á Iðntæknistofnun, www.impra.is , og vef Ríkisskattstjóra, www.rsk.is , undir Fyrirtækjaskrá.

 



 



Heimildir:
Unnið af starfsmönnum Búnaðarsambands Suðurlands upp úr bókinni, Stofnun fyrirtækja, -formreglur, réttindi og skyldur-, eftir Lilju Dóru Halldórsdóttur

Impra.is
http://www.nmi.is/files/272804699Stofnun%20fyrirtækja-formreglur,réttindi,skyldur.pdf
http://www.nmi.is/files/stofnun%20fyrirtækja_82758025.xls


back to top