Fundur í tilraunanefnd Stóra Ármóts 12. mars 2012

Fundargerð
Fundur í tilraunanefnd Stóra Ármóts haldinn 12. mars 2012 í fundarsal á Stóra Ármóti.

Mættir: Grétar Hrafn Harðarson, Þóroddur Sveinsson, Guðni Þorvaldsson, Margrét Ingjaldsdóttir, Hrafnhildur Baldursdóttir, Sveinn Sigurmundsson, Kristján B. Jónsson, Runólfur Sigursveinsson, Jóhann Nikulásson, Gunnar Kr. Eiríksson, Höskuldur Gunnarsson, Hilda Pálmadóttir.
Finnbogi Magnússon og Bjarni Ásbjörnsson sátu hluta fundarins.

  1. Tilraunastjóri setti fund kl. 11.00 og bauð fundarmenn velkomna og kynnti það sem fyrirhugað er að ræða á fundinum. Hann fór yfir fóðrun mjólkurkúa á Stóra Ármóti en afurðir eru góðar og þá sérstaklega efnainnihald.

  2. Beit mjólkurkúa á Stóra Ármóti var til umræðu en efnainnihald dettur niður þegar líður á sumarið og beitin verður próteinsnauðari. Nýr heilfóðurblandari sem er rafknúinn hefur verið keyptur á búið og gefur hann möguleika á frekari nýtingu heilfóðurs árið um kring. Smáraræktun sem valkostur í beit var til umræðu sem valkostur við að bæta próteininnihald. . Rætt var um hreinsun beitartúna ofl. Burðartími kúnna á Stóra Ármóti er að mestu á haustin eftir að innifóðrun hefst. Huga að annarri grasblöndu í beitartúnin með smárablöndu í. Selen blandaður áburður á beitartún var til umræðu en aukakostnaður á ha er 7000,- kr

  3. Grétar Hrafn ræddi um nýjan áburð (Avail) sem Skeljungur flytur inn og á hann að bæta jónajafnvægi fosfórs sem bætir nýtingu hans og því ætti að þurfa minna af honum. Á þessu stigi var ákveðið að afla frekari upplýsinga um þessa nýjung.

  4. Finnbogi Magnússon frá Jötunn/Vélum ræddi ýmsa þætti varðandi jarðvegs-jarðræktartækni, m.a. illgresisherfi til að hreinsa upp illgresi t.d. í ökrum. Þá er farið að nota þessa tækni til að lofta tún að vori erlendis, sem bæði loftar og hækkar aðeins jarðvegshitann. Þá er farið að nota svona búnað til ísáningar.
    Þóroddur nefndi að slóðadraga tún væri svipuð aðferð, þ.e. að lofta aðeins um grassvörðinn.
    Finnbogi nefndi að með þessum búnaði væri hægt að ísá t.d. á 2.-3.ári með fjölæru rýgresi eða öðru inn í vallarfoxgrastún. Fundarmenn almennt jákvæðir að skoða þetta, t.d. á St-Ármóti og mögulega á fleiri búum.
    Þá ræddi Finnbogi um niðurfellingu á skít og ísáningu þar með. Sigurður í Birtingaholti hefur prófað þetta og telur þetta hafi skilað árangri. Þar sem grunnur jarðvegur er, þar gæti þetta komið mjög vel til álita, t.d. á St-Ármóti.
    Hrafnhildur nefndi að á Litla-Ármóti hefur verið felldur niður skítur undanfarin ár og hægt hefur verið að draga úr annarri áburðargjöf á sama tíma. Árangur virðist vera að koma betur í ljós en þrjú ár eru liðin frá því þetta var fyrst prófað á L-Ármóti.
    Höskuldur ræddi mikilvægi að koma búfjáráburði á réttum tíma – þar gæti niðurfellingarbúnaður komið sterkar inn, frekar en yfirbreiðsla.
    Finnbogi nefndi einnig, að skoða mætti að setja tilbúinn áburð (N-áburð) í búfjáráburð – þarna gæti verið um að ræða ódýrt köfnunarefni, áhrifin yrðu m.a. þau að áburðurinn leystist vel upp strax að vori. Hins vegar má ekki setja of mikið á tún, t.d. væri 20-30 kg af N í tilbúnum áburði hámarkið, hætta væri annars á að þetta ylli bruna á túnum.

    Rætt um næstu skref , ákveðið að prófa ísáningu og niðurfellingu, einnig að prófa illgresisherfið í eldra tún og yngra tún. Kostur væri að hafa fleiri staði (bæi). Ákveðið að Guðni vinni plan í samráði við Hildu og Höskuld fyrir vorið.

  5. Bjarni Ásbjörnsson frá Atvinnuþróunarfélagi Suðurlands kynnti verkefni um nýtingu á slógi. Þetta er samstarfsverkefni nokkurra aðila hér á Suðurlandi um nýtingu á slógi til áburðargjafar. Hefur fengið styrk frá AVS, bæði árin 2010 og 2011.
    Ekki má lengur að kasta þessu í sjóinn, í gildi er reglugerð um urðun úrgangs nr. 738/2003, þar er kveðið á um mun lægra hlutfall urðunar á lífrænum úrgangi árið 2020 en miðað var við árið 2003.
    Um 2.400 tonn af slógi kom í land árið 2009 í Þorlákshöfn, þetta svarar til um 25% af þeim fiski sem kemur á land í Þorlákshöfn, kostnaður við förgun um 19,5 milljónir á ári. Áburðargildi slógs er um 2-2,5% N auk steinefna. Til uppgræðslu þarf um 50 kg N/ha. Hins vegar hefur slógið langtímavirkni sem áburðarefni.
    Ávinningur gæti verið 27,3 milljónir kr miðað við verðlag 2009 að mati Bjarna. Í dag væri ávinningur ca. 42 milljónir. Hefðbundin hakkavél dugar ekki, þarf að hakka þetta með stórvirkum hakkara. Hægt að nota mysu til sýringar (pH 4,5 til 5) og þar með dregur úr lyktarmengun og þá væri einnig til viðbótar hægt að nota mykju.
    Sumarið 2012 verður gerður samanburður milli slógs, mykju, óáborið og loks tilbúinn áburð á tún í Birtingaholti, mæld verður uppskera, tekin heysýni og aðrar mælingar. Spurning hvort þessi athugun gæti orðið grunnur að langtímarannsókn um virkni slógs sem áburðarefni.
    Grétar Hrafn velti fyrir sér aðkomu St-Ármóts að þessu verkefni og/eða öðrum verkefnum sem tengist lífrænum úrgangi og þá til nýtingar sem áburðarefni.

  6. Grétar Hrafn ræddi um fóðrunina á St-Ármóti og fóðuröflun komandi sumars. Á að auka byggræktunina frá því sem nú er ? Nefndi að nú væri Hrafnhildur búin að vinna tæplega 30 fóðuráætlanir í NorFor í vetur fyrir sunnlenska bændur og spurði um reynslu hennar af þessu verkefni.
    Hrafnhildur sagði að vísbendingar væru um að misvísun væri á fóðuráti á kvígum og því sem kerfið reiknaði með (NorFor). Skoða þyrfti hvernig stæði á þessari misvísun.
    Grétar Hrafn taldi að væntanlega væru þessi gögn um át til staðar.

    Ákveðið að Hrafnhildur setji upp drög að áætlun um athugun á þessu sviði í samráði við Harald Volden og Berglindi Ósk.


  7. Sveinn sagði frá óformlegri beiðni um skoðun á gæðum einstakra kjarnfóðurblandna. Eins nefndi hann þá miklu byggfóðrun sem væri í gangi á St-Ármóti sem hefði komið til vegna rannsókna þar á möguleikum byggs til fóðrunar í mjólkurframleiðslu.
    Grétar Hrafn taldi að það væri munur á orkugildi einstakra kjarnfóðurblandna á markaði. Möguleiki væri t.d. að setja upp tvo hópa varðandi próteingjöfina út frá fóðrunarskipulagi á St-Ármóti, annars vegar soja og hins vegar fiskimjöl.

  8. Jóhann velti fyrir sér ræktunarskipulagi búsins m.t.t. val á nautum.
    Höskuldur svaraði því þannig að valið væri meðal annars m.t.t. próteinprósentu, síðan væru valin 50% óreynd naut og reynd naut 50%.

  9. Jóhann nefndi einnig umræðu meðal bænda um St-Ármót, umræðan einkennist af því að hér væri ekkert gert og bændur spyrja hvaða verkefni væru í gangi. Eins velti hann fyrir sér hvenær einstök verkefni væru gerð upp og niðurstöður birtar.
    Grétar Hrafn lagði áherslu á að ávallt væru verkefni í gangi, verkefni gleymast greinilega mjög fljótt. Á liðnu ári hefðu verið í gangi verkefni tengt júgurbólgu, uppeldisverkefni, loks héldi hann utan um verkefnið dauðfæddir kálfar. Niðurstöður væru birtar með ýmsu móti m.a. í gegnum fundahöld, námskeið og inn á heimasíðum viðkomandi stofnana. Hann nefndi að dræm þátttaka hefði verið á nautgriparæktarnámskeiðum á vegum LbhÍ á Suðurlandi.
    Þóroddur sagði að reynt væri á hverjum tíma að sinna beiðnum sem kæmu frá atvinnuveginum, mannafli væri af skornum skammti, auk þess hefði fjármögnun dregist saman í gegnum Framleiðnisjóð.
    Sveinn sagði það alvarlegt að dregið hefði úr mannahaldi, rannsóknafólkið er dregið inn í kennslu. Þörf að auka starfsmannahald í þessum geira sem fyrst.
    Kristján ræddi þörfina á áburðarrannsóknum og þá til lengri tíma. Leggja þyrfti áherslu á að skoða ýmsa þætti þar, með hliðsjón af starfseminni á St-Ármóti. Ástæða væri til að leggja fram langtímaplan á þessu sviði.
    Guðni vakti athygli á því að m.a á St-Ármóti væru sýnireitir um einstök yrki grastegunda og hvernig þau kæmu út í sverði.
    Gunnar Kr. nefndi að sífellt væri hann spurður um hvaða verkefni væri unnið að á St-Ármóti. Ástæða væri að kynna betur að hverju væri unnið á hverjum tíma og einnig að vekja athygli á niðurstöðum úr rannsóknum.
    Grétar Hrafn þakkaði góðan fund og sleit fundi kl. 16:30.

Samantekt:
Ákveðið var að taka endurræktunaráætlun túna til endurskoðunar og gera rannsóknir á ísáningu annars vegar með illgresisherfi og hins vegar mykjuniðurfellingarbúnaði.


Komið hefur í ljós ákveðið ósamræmi í átgetumódeli fyrsta kálfs kvígna í NorFor kerfinu. Óskað hefur verið eftir því að úrlausn þessa vandamáls á Stóra Ármóti næsta vetur.


Nokkurrar vanþekkingar gætir meðal bænda á rannsóknastarfi LbhÍ í nautgriparækt og var ákveðið að bæta upplýsingaflæði til grasrótarinnar.


Fundarritarar:
Sveinn Sigurmundsson og Runólfur Sigursveinsson


back to top