Framsókn vill sækja um ESB-aðild með skilyrðum

Ályktun um að Ísland eigi að hefja aðildarviðræður við Evrópusambandið á var samþykkt með miklum meirihluta atkvæða á flokksþingi Framsóknarflokksins í gær. Áður hafði verið hafnað tillögu um að flokksþingið leggist eindregið gegn öllum hugmyndum um að Ísland gangi í Evrópusambandið.
Framsóknarmenn vilja þó að ýmsum skilyrðum verði fullnægt og það sem helst snýr að landbúnaði er að framsóknarmenn vilja að fæðuöryggi þjóðarinnar verði tryggt og viðurkennd nauðsyn á sérstökum ákvæðum vegna fámennis þjóðarinnar. Viðurkennt verði að íslenskur landbúnaður sé heimskautalandbúnaður. Þá verði framleiðsla og úrvinnsla íslenskra landbúnaðarafurða tryggð ásamt sérstöðu og hreinleika íslenskra landbúnaðarstofna.

Í ályktuninni segir að hefja eigi aðildarviðræður á grundvelli samningsumboðs frá Alþingi sem tryggi hagsmuni almennings og atvinnulífs og þá sérstaklega sjávarútvegs og landbúnaðar. Þá sé fullveldi og óskorað forræði Íslendinga yfir auðlindum þjóðarinnar grundvallarkrafa í þeim viðræðum.


Tekið er fram, að viðræðuferlið eigi að vera opið og lýðræðislegt og leiði viðræðurnar til samnings skuli íslenska þjóðin taka afstöðu til aðildarsamnings í þjóðaratkvæðagreiðslu í kjölfar upplýstrar umræðu.


Í upphaflegri tillögu voru skilgreindar þær leiðir, sem flokkurinn vill fara í aðildarviðræðum en á flokksþinginu var samþykkt að breyta orðinu leiðir í skilyrði. Samkvæmt því setur Framsóknararflokkurinn það skilyrði, að staðfest verði að Íslendingar einir hafi veiðirétt innan íslenskrar fiskveiðilögsögu og að fiskveiðistjórnun verði áfram innanríkismál Íslendinga, enda styðjist hún við reglur ESB um stöðug hlutföll, nálægðarreglu og Lúxemborgarsamkomulagið. Þá veðri Ísland sjálfstæður aðili að samningum um flökkustofna.


Þá setur flokkurinn það skilyrði, að í upphafi viðræðna verði gerður stöðugleikasamningur við Evrópska seðlabankann sem tryggi stöðugt gengi íslensku krónunnar þar til Íslendingar taka upp evru. Tekið verði tillit til stöðu íslensks efnahagslífs við umbreytingu peninga- og gjaldeyrismála á Íslandi.


Loks er sett það skilyrði að ákvæði verði um varðstöðu um íslenska þjóðmenningu, þjóðtungu og þjóðhætti á Íslandi. Íslenska verði viðurkennt sem eitt hinna opinberu tungumála ESB.


back to top