Framlög til ráðgjafarþjónustu bænda dragast mikið saman

Í fjárlagafrumvarpinu sem lagt var fram í gær er niðurskurðarhnífnum beitt oft og víða. Meðal þess sem fyrir honum verður eru framlög ríkisins til bænda og samtaka þeirra. Framlög til þess að standa undir beingreiðslum til sauðfjár-, kúa- og garðyrkjubænda eru þó í samræmi við þá samninga sem gerðir voru um búvöruframleiðsluna í vor og sumar. Hins vegar eru framlög til ráðgjafarþjónustu dregin verulega saman. Alls nemur sá niðurskurður ríflega 100 milljónum króna sé borið saman við útgjöld til sama málaflokks á þessu ári. 87,2 milljónir eru teknar af liðnum Ráðgjafarþjónusta og búfjárrækt og 30 milljónir af liðnum þróunarverkefni og markaðsverkefni.

 


„Það er ljóst að rekstrarfé ráðgjafarþjónustu Bændasamtaka Íslands og búnaðarsambandanna er að dragast saman og við því verður að bregðast strax,“ segir Haraldur Benediktsson formaður Bændasamtaka Íslands um þennan niðurskurð. „Þetta er brot á ákvæðum búnaðarlagasamnings sem á að gilda til loka næsta árs. Þegar við sömdum við ríkið í vor um framlög til búvöruframleiðslunnar óskuðum við eftir því að þessi samningur yrði líka tekinn til endurskoðunar en ekki varð af því.“


Haraldur segir að samtökin hafi brugðist við með því að kynna á formannafundi búnaðar- og búgreinasamtakanna 1. september sl. að vænta mætti niðurskurðar. Þann 6. nóvember næstkomandi verður málið svo tekið upp á formannafundi búnaðarsambandanna. „Niðurskurðurinn snertir búnaðarsamböndin ekki síður en Bændasamtökin svo nú þurfa menn að ræða hvernig hægt er að hagræða og draga saman í ráðgjafarstarfinu. Það þarf að taka upp nýjar aðferðir við ráðgjöf og það blasir við að hún muni kosta bændur meira en nú er. Meðal þeirra hugmynda sem ræddar hafa verið er að sameina alla ráðgjafarþjónustu í eitt fyrirtæki eða félag, bæði þá sem veitt er í búnaðarsamböndunum og þá sem við veitum hjá BÍ. Við erum að skoða þetta allt frá grunni og það þarf augsýnilega að beita annarri hugsun við það en gert hefur verið hingað til,“ segir Haraldur.


Niðurskurðarhnífnum er brugðið víðar á fjárlagaliði sem snerta bændur. Til dæmis má nefna að áfram verður haldið að skera niður framlög til skógræktar og landgræðslu í þágu landbúnaðar, Framleiðnisjóðs og Jarðasjóðs. Raunar er kroppað í velflesta liði sem snerta landbúnað, þótt mismikið sé. Enn eru inni ákvæði um fóðurgjald og verðmiðlun í mjólkuriðnaði en báðir þessir liðir bíða þess að Alþingi samþykki afnám þeirra. Þessi liðir eru það sem kalla má gegnumstreymisgjöld því þeir koma inn í ríkissjóð og beint út aftur án þess að hafa áhrif á afkomu ríkisins. Í umræðum um stuðning hins opinbera við landbúnað eru þessir liðir, samtals upp á 1,8 milljarða króna, oftar en ekki taldir með þótt þeir gagnist bændum í raun ekki neitt.


Þeir sem vilja kynna sér fjárlagafrumvarpið geta farið inn á sérstaka heimasíðu fjármálaráðuneytisins www.rikiskassinn.is


 


back to top