Flúor í ösku, útskolun og viðbrögð

Vatnsleysanlegur flúor kemur fyrir utan á kornum í gjósku sem annað hvort ammóníum -flúorsilikat (NH4)2SiF6 eða einfaldlega sem natríum flúoríð, NaF. Flúorsilikat er leysanlegra – þar leysast 180 grömm í lítra af köldu vatni en natríumflúoríð leysist verr eða um 42 grömm í lítra af köldu vatni.
Natríum flúoríð er því verra í útskolum og því reiknum við með að flúorinn sé á því formi.

Samkvæmt efnagreiningum á gjóskunni úr Eyjafjallajökli eru 850 ppm (mg/kg) af flúor í henni. Í 1 cm þykku lagi eru þá 10 lítrar eða 30 kg af ösku á hverjum fermetra lands. Á þessum fermetra eru því 25,5 grömm af flúor eða 51 gramm af natríum flúoríði. Til þess að leysa það upp þarf því 1,2 lítra af vatni á hvern fermetra. Öskulag sem er 5 cm þarf því 6 lítra á fermetra eða 60 tonna á hektara af vatni til þess að leysa upp natríum flúoríðið.

Það er víst að meira en 90% af flúorsaltinu skolast út með þessu vatnsmagni – en hvað er þetta mikil úrkoma?? Úrkoma upp á 1 mm gefur 1 lítra á fermetra þannig að við þurfum úrkomu upp á 1,5 mm til að leysa natríum flúoríð í 1 cm þykku lagi af ösku en úrkomu upp á 9 mm til að leysa upp í 6 cm lagi. Í reynd þarf aðeins meiri úrkomu til þess að losa vökva frá, þ.e. gegnbleyta lagið.

LÁGMARKS-ÚRKOMUMAGN TIL AÐ LEYSA UPP FLÚORÍÐ

Þykkt öskulags

Úrkoma, mm

1 cm

1,5

2 cm

3,0

3 cm

4,5

4 cm

6,0

5 cm

7,5

6 cm

9,0

7 cm

10,5

8 cm

12,0

9 cm

13,5

10 cm

15,0

Til viðbótar úrkomu vinnur tíminn með okkur. Á nokkrum vikum hvarfast flúoríðið í röku umhverfi við bergið sjálft og myndar óskaðlegt kalsíum flúoríð (CaF2). Þetta er eins og lífríkið vill hafa það, meira að segja fiskbein eru með 400 ppm af flúor, en óskaðlegt vegna þess að það flúorinn er bundinn CaF2.

Þegar sauðfé féll vegna flúors frá Heklu 1970 var klaki ekki farinn úr jörð og lambfé (miður maí) á túnum. Það mynduðust því pollar á yfirborðinu sem féð drakk úr. Það er því eitt að flúorinn leysist upp, annað er að SKOLA HANN ÚR.

ÞAÐ ER ÞVÍ MIKILVÆGT AÐ ÚRKOMAN EÐA SKOLVATNIÐ KOMI Í A.M.K. TVÖFÖLDU EÐA ÞREFÖLDU LÁGMARKSMAGNI Á SKÖMMUM TÍMA TIL AÐ LOSA VATNIÐ ÚR BLAUTU ÖSKULAGINU – Þetta er erfiðast við fínu öskuna núna. Það þarf að leka úr henni – annars er flúorinn til staðar – UM SINN EÐA ÞAR TIL HANN HVARFAST VIÐ KALSÍUM.

Flúormagnið undir Eyjafjöllum er enn sem komið er mun minna en úr gjósku frá Heklu. Hér að ofan er reiknað flúor upp á 850 mg/kg en að öllum líkindum er flúorinn minni í heild þar sem askan sem féll fyrst innihélt mun lægri gildi eða 25-35 mg/kg.

Þess vegna þurfum við 10 mm úrkomu (helst allt í einu) til að verð laus við þetta EN VARAST ALLT AFRENNSLI AF ÖSKUNNI OG SMÁLÆKI.

Samkvæmt úrkomumælingum frá Veðurstofunni undanfarna áratugi er þó ekki á vísan að róa hvað úrkomumagn snertir. Ef litið er á mánaðargildi úrkomu í maí á Vatnsskarðsshólum í Mýrdal s.l. 20 ár kemur í ljós að hún er mjög breytileg eftir árum eða allt frá 12 mm upp í 162,7 mm. Á sama tímabili er sólarhringsúrkoma frá 5,5 mm upp í 69,3 mm. Af þessu má eftir sem áður sjá að minnsta sólarhringsúrkoma s.l. 20 ára á Vatnsskarðshólum ætti að duga til þess að skola flúor úr um 2-3 cm öskulagi. Það er því ástæða til að ætla að flúor muni skolast tiltölulega fljótt úr öskunni ef það rignir.

En askan hefur líka sínar jákvæðu hliðar þó hvimleið sé. Hún inniheldur sölt og næringarefni fyrir gróður. Þessi aska er með frekar hátt kísilsýrumagn og allhátt kalímagn. Áburðaráhrif væntanlega veruleg. Til að halda þeim og kalí sem losnar í vistkerfinu er nauðsynlegt að gróðurþekja náist upp sem fyrst. Annars skolast kalí auðveldlega niður í gegnum jarðveginn.

Hvernig er best að bregðast við
Athuga að yfirborðsvatn og aska komist ekki í vatnsból. Skoða aðstæður og hreinsa ösku frá vatnsbólum, nokkrir metrar duga og sjá til þess að yfirborðsvatn berist ekki í þau. Þetta á að vera í lagi en rétt að vera mjög vakandi fyrir þessu. Ef brynningarvatn er tekið úr opnum lækjum athuga hvort ekki sé hægt að komast i vatnsból sem nærist af grunnvatni.

Gera athugun á eðli skorpunnar. Kanna hvort hún molnar auðveldlega í bleytu eða við vinnslu eða hvort hún sé stöðug í vatni og brotni upp í klumpa við vinnslu. Seinna tilfellið er erfiðara en þá er askan bundin og tekið á rykmyndun en jarðvegurinn verður erfiður og gróður í úthaga á erfitt með að komast í gegn.

Ef ósköpunum linnir er ekkert sem mælir gegn því að reyna jarðvinnslu og kornrækt þar sem það var ætlað. Ef askan brotnar upp þá þarf að bíða þar til hún er rök til að hún þyrlist ekki upp og sennilega er betra að blanda henni við jarðveginn en að grafa hana með plægingu. Þetta þarf þó að prófa og meta áferð og eðli jarðvegsins eftir slíka jarðvinnslu. Allavega er afar mikilvægt að ná upp gróðri eins fljótt og nokkur kostur.

Fylgjast þarf með gróðri, bæði í úthaga og á túnum og hvort hann sé nýtanlegur til beitar eða sem fóður. Korn ætti að koma ómengað út úr þessu nema um loftmengun sé að ræða á vaxtartíma, nánar á kornfyllingartíma. Aðallega þarf að huga að því að bera nægilegan N áburð á og trúlega einnig fosfór en minni áhyggjur þarf að hafa af öðrum steinefnum.

Gera athuganir á hvort þörf sé að brjóta upp skorpuna á túnum og í úthaga og þá með hvaða tækjum það er hægt án þess að skemma rótina. Ýmis tæki til að rispa og lofta grassvörð eru til.

Heimildir:
Níels Óskarsson, Jarðvísindastofnun Háskóla íslands
Þorsteinn Guðmundsson, Landbúnaðarháskóla íslands

back to top