Flótti að bresta á í röðum bænda

Daníel Jónsson, kúabóndi á Ingunnarstöðum í Reykhólasveit, segir að flótti sé kominn í raðir bænda og nauðsynlegt sé að þeir fái 30 króna hækkun fyrir hvern mjólkurlítra nú þegar til að mæta 50 til 100% hækkunum á aðföngum til bænda á undanförnum tveimur árum.

Að sögn Daníels er hækkun á fjármagnskostnaði, áburði og olíu að sliga marga bændur. „Það er ekki eitt heldur allt,“ segir hann og bætir við að tveir til þrír bændur í Dalasýslu ætli að hætta búskap. Þar á meðal væru eldri hjón með skuldlaust bú, en þau treystu sér ekki til að kaupa áburð núna. Þá viti hann um sex bændur í Borgarfirði sem ætluðu að hætta og auk þess hafi hann heyrt af tvennum ungum hjónum sem ætluðu að hætta búskap á Suðurlandi.

Á morgun hefst búnaðarþing og segist Daníel hafa hugsað með sér hvort það yrði þingið þar sem samþykkt yrði að leggja búskap á Íslandi af, því ekkert hafi heyrst frá stjórn Bændasamtakanna um þessar hækkanir og ekki heldur frá Landssambandi kúabænda.


back to top