Fjarvera ráðherra landbúnaðarmála vakti athygli

Fyrsti haustfundur LK var haldinn að þessu sinni að Þingborg í Flóahreppi fimmtudagskvöldið 14.október. Á fundinn mættu auk stjórnarmanna LK fjöldi kúabænda á Suðurlandi auk þess voru á fundinum nokkrir fulltrúar úr mjólkuriðnaðinum og tveir Alþingismenn.
Athygli vakti fjarvera sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jóns Bjarnasonar en honum hafði verið boðið sérstaklega á fundinn en mætti ekki og boðaði ekki forföll.

Formaður, Sigurður Loftsson, og framkvæmdarstjóri LK, Baldur Helgi Benjamínsson fóru yfir hvernig staðan væri í framleiðslu- og sölumálum og gat um helstu viðfangsefni stjórnar síðustu misseri.  Má þar nefna að fylgja eftir samþykkt síðasta aðalfundar LK um stefnumörkun en þar var lagt til að stjórn vinni að stefnumörkun  fyrir búgreinina til næstu 10 ára með það að markmiði að lækka framleiðslukostnað um 35%. Þá fjölluðu þeir um stöðuna í verðlagsmálum – þar er þörf á hækkun afurðaverðs samkvæmt verðlagsgrunni um rúmar 6 kr/l. Fjallað var um nýja tilhögun á kvótaviðskiptum, svokallaðan kvótamarkað.  Kynnt var staðan í Evrópumálum og þá fjölluðu þeir um tillögur um breytingar á búvörulögum sem Alþingi afgreiddi ekki á síðasta þingi.


Í umræðum um erindin voru forystumenn LK hvattir til að standa vörð um hagsmuni greinarinnar, ekki síst varðandi þá þætti sem snerta verðlagsmál. Nokkur umræða varð um nýtt fyrirkomulag kvótaviðskipta og hvaða áhrif það hefði á verð á framleiðslurétti. Eins var skuldastaða kúabúa til umræðu og stjórn hvött til að standa vaktina þar og koma á framfæri upplýsingum um stöðuna hverju sinni. Fram kom hjá Einari Sigurðssoyni, forstjóra MS, að hagur fyrirtækisins færi batnandi og vonandi yrði reksturinn réttu megin við núllið í árslok, þá gat hann um að verð á umframmjólk hefði hækkað nýverið. Í svörum framsögumanna um kvótamarkaðinn kom fram að búið er að funda með bankamönnum um fyrirkomulagið og eins með Matvælstofnun sem mun hafa umsjón með markaðanum.  Stefnumörkunin er stórt og metnaðarfullt verkefni en markmið hennar er að efla samkeppnishæfni greinarinnar til framtíðar.


Næsti fundur LK með bændum á Suðurlandi er á Höfðabrekku í Mýrdal mánudaginn 18.október kl. 13 og síðan á Seljavöllum í A-Skaft kl. 20.30 sama dag.


back to top