Fjárflutningar úr sumarhögum í Meðallandi og af Síðunni

Í kjölfar eldgossins í Eyjafjallajökli sl. vor var allmargt fé flutt í sumarhaga frá þeim svæðum sem verst urðu út í öskufallinu, undan Eyjafjöllum og úr vesturhluta Mýrdals. Flest féð var flutt á vegum Búnaðarsambands Suðurlands austur yfir Kúðafljót, í Meðalland og á Síðuna. Næstkomandi fimmtudag 26. ágúst verður svokölluð Leiðvallagirðing í Meðallandi smöluð, undir stjórn Hermanns Árnasonar starfsmanns Búnaðarsambands Suðurlands.Girðingin er um 6.300 ha og eru í henni nálægt 2.500 kindur og lömb, frá 10 bæjum í vesturhluta Mýrdals og undan Austur-Eyjafjöllum. Réttað verður samdægurs í gerði við Leiðvöll og féð keyrt til síns heima.

Þegar hefur fé sem var í sumarhögum í Lágu-Kotey í Meðallandi verið flutt til síns heima og upp úr mánaðarmótum verður farið að huga að fé sem er á Þverá á Síðu.


back to top