Félagsráðsfundur FKS 17. des. 2002

Haldinn í húsakynnum MBF. Gestir fundarins: Guðmundur Jóhannesson og Sveinn Sigurmundsson.

KYNBÓTASTARFIÐ
Sveinn útlistaði hugmyndir um aukna einstaklingsráðgjöf. Varðandi pörunarval, þá sagði hann þetta hugsað sem þjónustu fyrir þá sem vildu. Ákveðinn hópur bænda vildi láta vinna þetta fyrir sig . Meirihluti kúabænda gerði þetta þó sjálfir .
Sveinn var spurður um áfyllingu á kúta. Fundarmenn töldu nauðsynlegt að sæðingarmaður væri með lista um hvaða ungnaut væru í boði hvert sinn. Jóhann í Hildisey taldi stundum of fá ungnaut í boði, sérstaklega ef styttist í áfyllingu. Fram kom að sæðingamenn þyrftu þó alltaf að hafa visst frumkvæði í þessu.
Sigurjón, Raftholti minntist á skyldleikann og vissa áhættu sem væri fólgin í að nota nautin blint. Sveinn kvaðst hafa vissar áhyggjur af því. Þar væru vísbendingar um að aukinn ungkálfadauði væri hugsanlega út af of mikilli skyldleikarækt.

SÆÐINGAR
Gjaldtaka er 1,7% af afurðastöðvaverði og að auki kr. 1.500 á kú samkvæmt forðagæsluskýrslum. Þeir sem ekki halda kúaskýrslur borga 1.700 kr á kú. Sveinn sagði vissa jöfnun í gangi hér og fannst honum það kostur miðað við t.d. Danmörku þar sem kerfið væri flóknara.
Nú eru 5 fastráðnir frjótæknar og staða sæðingastöðvar góð. Því lítil þörf á hækkun 2003 miðað við óbreytt ástand.
Varðandi tæknileg atriði taldi Sveinn enga sérstaka nauðsyn að standa yfir sæðingamanni í fjósi. Hins vegar horfi málið að sjálfsögðu öðruvísi við þegar sæddar eru kvígur í stíu.
Guðmundur taldi kerfi innheimtu á Suðurlandi tvímælalaust hafa virkað varðandi almenna þátttöku bænda. Flóknara kerfi vestanlands taldi hann hafa leitt af sér minni notkun sæðinga. Rætt var um ungkálfadauða og virðist lítil vitneskja um orsakir. Þeir sem reynt hafa forðastauta sjá lítinn árangur hvað þann þátt varðar. Hins vegar veruleg áraskipti af þessu.

SUNNUVERKEFNI OG RÁÐGJÖF
Runólfur Sigursveinsson taldi helstu kosti þess verkefnis vera betri heildarsýn yfir búrekstur og að bændur væru sér meðvitaðri um áhrif einstakra kostnaðarliða.
Gallar væru helst að upplýsingaöflun væri seinvirk, einnig úrvinnsla og starfsmenn um of uppteknir í öðrum störfum.
Rekstrarlega var árið 2001 svipað og árið á undan en allveruleg skuldaaukning, einkum vegna kaupa á mjólkurkvóta hjá þátttakendum í verkefninu.

RÁÐGJÖF Í DANAVELDI
Nýkomnir frá Danmörku voru ráðunautar spurðir út í stöðuna og form ráðgjafar þar í landi. Eingöngu er byggt á seldri þjónustu. Í ráðgjöf þar er gengið út frá lykiltölum á hverju búi. Mikil sérhæfing. Einn sér t.d. um fóðrun og hefur markvisst það verkefni. “ Frelsi” hjá frændum vorum er afstætt og í mörgu bundið og njörvað niður.
Skylda er að gera ræktunar- og áburðaráætlun. Ekki má bera á skít eins og hver vill og fleira mætti nefna. Aukning er í því að bændur sæði sjálfir kýrnar. Meðalbústærð enda komin í 550.000 lítra.
Eignarhald ráðgjafarþjónustu er hjá bændum sjálfum. Hins vegar eru miklar breytingar í gangi og frændur vorir Danir ódeigir við að sameina og breyta stofnunum í hagræðingarskyni. Þátttaka í ráðgjafarþjónustu er kringum 90 til 95%.
Áberandi væri meðvituð ákvörðun um að nýliðun ætti sér stað. Þónokkuð var um að ungt fólk væri komið í fullan rekstur á kúabúum með mikla veltu. Fólk sem bankarnir hefðu veðjað á. Vaxtakjör voru kringum 8% á fjárfestingarlánum hjá bönkum síðan er hægt að fá stofnlán til lengri tíma (allt að 30 ára) hjá fjárfestingasjóði með annars vegar 6% föstum vöxtum eða 4% breytilegum vöxtum, en hins vegar engin verðtrygging sem bændur hér þekkja heldur betur.

SUNNLENSK RÁÐGJAFARÞJÓNUSTA
Sveinn sagði hægt að nota krafta Grétars dýralæknis ef fóðrunarvandamál kæmu upp. Jóhann spurði um “afkomuþróun” þeirra sem verið hafa þátttakendur í Sunnuverkefni. Runólfur sagði slíkt ekki liggja fyrir ennþá. Fullyrða mætti hins vegar að enginn aðili innanlands hefði gleggri upplýsingar um stöðu kúabænda en Bssl.
Ólafur í Geirakoti sagði afurðaverð sem betur fer svo hátt að menn gætu í raun gert allskonar “gloríur” í rekstri, en samt haft viðunandi afkomu. Sér virtist að SUNNU-verkefnið hafa að geyma mikla samantekt upplýsinga en of lítil ráðgjöf hefði komið út úr því enn.
Jóhann spurði um kosnað við jarðabótaúttektir. Sveinn sagði ríkið leggja fram ákveðna upphæð sem væri notuð til þessara hluta. Sem sagt til forðagæslu og jarðabótaúttekta. Eflaust mætti gera þetta hagkvæmara. Bssl.væri hinsvegar uppálagt að gera þetta af ríkinu.

KÝR 2004
Arnar Bjarni í Gunnbjarnarholti taldi nauðsynlegt að lengja sýningartímann. Erfitt væri að bjóða sýnendum tækja og þjónustu uppá jafn þétta dagskrá og var síðast.
Samþykkt að skipa Sigrúnu Ástu í Stóru-Mástungu í næstu sýningarstjórn fyrir okkar hóp.

ÖNNUR MÁL
Birna á Reykjum ræddi kynningu á landbúnaði í skólum á Reykjavíkursvæðinu. Peningar til þess verkefnis eru algjörlega á þrotum. Útlit fyrir að þetta verkefni hætti. Spurning væri hvort ekki væri nauðsynlegt að kynna okkur og halda áfram jafn jákvæðri fræðslu og þar hefði farið fram. Mikill áhugi hefði verið hjá nemendum fyrir sveitinni. Kostnaður er um 2 milljónir. Væri sú upphæð nær eingöngu kostnaður og akstur, um engar launagreiðslur hefði verið að ræða. Fundarmenn voru sammála um að kynning þessi yrði að halda áfram. Stjórn falið að þrýsta á um það hjá ráðandi aðilum.
Birna minntist á heimasíðu MBF. Hún kvaðst óánægð með hana. Upplýsingar þar væru ekki nægar og uppsetning úrelt. Fleiri fundarmenn töldu nauðsynlegt að bæta hana.
Gunnar í Hrosshaga sagði þó nokkra peninga til í þróunarsjóðum og Framleiðnisjóði til verkefna og tilrauna í nautgriparækt. Vandinn væri frekar að finna hæft fólk og rannsóknaraðila. Einnig væru nokkrar upphæðir eyrnamerktar í “ Átaki í nautgriparækt 2002 til 2007” en skipað var í þá nefnd af Guðna ráðherra.

Fundi slitið kl.16.05
Valdimar Guðjónsson ritari.


back to top