Félagsráðsfundur FKS 15. ágúst 2002

Félagsráðsfundur haldinn að Hlíðarenda, Hvolsvelli 15.08.2002

Formaður kynnti hvað gerst hafði frá síðasta fundi. Ekki hafa borist skrifleg svör við bréfi dags. 14.maí sl. til BÍ vegna ýmissa ummæla sem bókuð voru í fundargerð BÍ vegna fundar 19.apríl. Hins vegar mætti Ari Teitsson, formaður BÍ, til viðræðna við félagsráðið þann 5.júní sl um þau atriði sem óskað var svara við í bréfinu frá 14.maí.
Ályktun stjórnar FKS um nautakjötsmál frá í júlí vakti athygli en því miður engin viðbrögð hjá sláturleyfishöfum. Þá var nokkur umfjöllun nýlega í Fréttablaðinu um fækkun kúabænda og samþjöppun framleiðslunnar.

Egill kynnti stuttlega ályktanir stjórnar LK til aðalfundar sem haldinn verður 20.-21. ágúst, m.a. um viðræður um nýjan samning um starfskilyrði mjólkurframleiðslunnar, ályktun um nautakjötsmál sem byggir á grunni ályktunar frá FKS, tillaga um viðbragðsáætlun vegna smitsjúkdóma, um stefnumörkun í nautgriparækt, ályktun um Evrópumál, ályktun um Lánasjóð landbúnaðarins, m.a. um lánareglur og 1.veðrétt og loks tillögu um breyttan fundartíma aðalfundar LK.

Formaður fór stuttlega yfir tillögur frá Félagi þingeyskra kúabænda til aðalfundar LK, þar er m.a lagt til að afurðastöðvar hætti afskiptum við kaup og sölu á mjólkurrétti, tillaga um að færa verðlagsáramót að almanaksáramótum og um Bjargráðasjóð.

Formaður rifjaði upp ályktanir Félags kúabænda á Suðurlandi frá liðnum vetri um framkvæmd mjólkuruppgjörs. Ákveðið að leggja fram þrjár tillögur frá félaginu inn á aðalfund LK sem byggja á þeim efnisgrunni sem fram kom í ályktun félagsins frá liðnum vetri um mjólkuruppgjör. Í fyrsta lagi um ráðstöfun ríkiskvóta þegar mjólkurframleiðslu er hætt á ríkisjörðum, tillögu um rafræna skráningu á innvigtun mjólkur á mjólkurbíl og tillögu um að athugað verði hvort eðlilegt sé að Bændasamtökin hafi með höndum framkvæmd búvörusamninga.

Arnar Bjarni kynnti tillögu til stjórnar LK að skoða hvort það væri hagkvæmur kostur að bændur ykju tryggingarvernd sína í stað greiðslu inn í Bjargráðasjóð. Þá kynnti hann drög að tillögu um nauðsyn breytinga á mati sláturgripa.

Formaður sagði frá samtali sem hann átti við ritstjóra Bændablaðsins, m.a að fá aðgang að efni frá félaginu, t.d. fundargerðir félagsráðs svo og annað efni til birtingar á landsvísu. Rætt um gagnsemi Handbókar bænda, ef halda ætti þeirri útgáfu áfram voru fundarmenn á því að minnka Handbókina til muna, bæði í broti og efni. Með bættu aðgengi fólks að upplýsingum, t.d. netaðgangi, þá væri ekki sama þörf og áður fyrir slíkar handbækur.

Rætt um komandi vetrarstarf Félags kúabænda og þá félagsráðs sérstaklega. Reiknað með að fundir félagsráðs verði að degi til yfir vetrartímann og reynt verði að skipuleggja þá nokkuð fram í tímann varðandi efnisþætti.

Arnar Bjarni ræddi komandi kúasýningu, Kýr 2002, og taldi nauðsynlegt að gera meira úr þessum degi en var árið 2000, meðal annars með uppákomum að kvöldinu auk þess sem dagskrá eftir hádegi verður allumfangsmikil.

Daníel í Akbraut gagnrýndi að Búnaðarsambandið hefði ekki lokið kvíguskoðun í vor eins og kynnt hefði verið m.a. í Fréttabréfi.

Samantekið í fjarveru ritara,
Runólfur Sigursveinsson


back to top