Félagsráðsfundur FKS 14. nóvember 2013

Fundur haldinn í félagsráði Félags kúabænda á Suðurlandi fimmtudaginn 14.nóvember 2013 í fundarsal MS á Selfossi.
1. Fundarsetning
Valdimar Guðjónsson formaður setti fund og bauð fundarmenn velkomna. Vakti athygli á að opinn fræðslufundur ætlaðan kúabændum yrði eftir hádegi í dag að loknum þessum félagsráðsfundi. Umfjöllunarefni þess fundar eru möguleikar til aukinnar framleiðslu í ljósi aukinnar eftirspurnar eftir mjólkurvörum.

2. Staðan í framleiðslumálum og fl.
Valdimar í Gaulverjabæ ræddi framleiðslu- og sölumál mjólkurframleiðslunnar. Síðustu vikur hefur orðið aukning á innvigtun mjólkur miðað við sömu vikur í fyrra, sérstaklega hér hjá MS á Selfossi. Hins vegar er áhyggjuefni fækkun í kúastofninum ár frá ári.
Rætt um aukningu í greiðslumarki, málið liggur á borði ráðherra en reiknað er með aukningu upp í 123 milljónir lítra vegna næsta árs.
Ólafur í Hraunkoti spurði um hvort ekki hefði mátt sjá þetta fyrr, þessa söluaukningu.
Jóhann í St-Hildisey sagði að LK hefði í sumar ýtt á mjólkuriðnaðarinn að bregðast fyrr við en síðan hefði komið veruleg söluaukning allra síðustu mánuði, sérstaklega í fituríkum vörum.
Elín í Egilsstaðakoti velti fyrir heygæðum annars vegar og hins vegar skorti á undanrennudufti fyrir ungkálfa frá Fóðurblöndunni.
Sigríður á Fossi nefndi að ástæða væri fyrir að hafa kvótakerfi í mjólkurframleiðslu. Veruleg umframframleiðsla hefði verið á sínum tíma sem var ástæðan fyrir setningu kvóta.
Elín Heiða í Úthlíð spurði um skipan nefndar, sem kveðið er á um í núverandi samningi um starfskilyrði mjólkurframleiðslunnar, þar ætti að vinna úttekt á kostum og göllum núverandi stjórnkerfis í mjólkurframleiðslunni.
Jóhann í St-Hildisey sagði að ýtt yrði á skipan nefndarinnar, m.a. mun formaður LK og framkvæmdarstjóri eiga fund með ráðherra landbúnaðarmála í næstu viku. Jóhann ræddi síðan haustfundi LK og þær umræður sem þar fóru fram.
Pétur í Hvammi gagnrýndi seinagang MS við að koma skilaboðum á framfæri í tíma fyrir framleiðendur.
Elín Heiða í Úthlíð spurði um framtíðarviðhorf MS með tilliti til framleiðslumála og verðákvörðunar á hverjum tíma.
Jóhann í St-Hildisey nefndi að MS stæði í umfangsmiklum framkvæmdum á sama tíma og þörf væri á aukinni framleiðslu.

3. Önnur mál
a.Valdimar í Gaulverjabæ spurði um ályktun stjórnar LK frá því sumar um skort á faglegri stjórn yfir Nautastöð BÍ.
Jóhann í St-Hildisey sagði að við stofnun RML hafi þessi mál að hluta lent milli stafs og hurðar og ályktun LK hafi komið til að lokinni útgáfu nautaskrár sl. sumar.

b. Rætt um skuldir Nautastöðvar BÍ og meðferð þeirra til framtíðar.

c. Valdimar í Gaulverjabæ ræddi miðlun á gripum til sölu; er mögulegt að búa til póstlista og nýta hann í þessu skyni. Formið gæti verið þannig að viðkomandi býður fram kálfa, kvígur og kýr til sölu.
Sævar í Stíflu velti fyrir sér sjúdómavörnum í þessu sambandi, m.t.t. flutnings milli svæða.

d. Runólfur ræddi starfsemi RML og hvernig gengi þar. Að hans mati hefur starfið farið þokkalega af stað en mikill tími hafi farið í að byggja upp nýtt, heildstætt fyrirtæki í stað 6-7 fyrirtækja á þessu sviði í eldra fyrirkomulagi (búnaðarsambönd og BÍ).
Jóhann í St-Hildisey og Valdimar í Gaulverjabæ nefndu sérstaklega kynningarmál RML og nauðsyn þess að fyrirtækið komi sér vel á framfæri til bænda.

e. Vinnuvernd í landbúnaði
Samúel í Bryðjuholti sagði frá fundi BÍ sem haldinn var á Hellu þar sem m.a. var fjallað um vinnuvernd í landbúnaði. Meðal annars kynnt þar verkefni um áhættumat heima á búunum.

Að loknum félagsráðfundi var haldinn almennur fræðslufundur ætlaðan kúabændum á Suðurlandi. Til fundarins boðuðu FKS og RML og þar voru flutt tvö erindi. Annars vegar var Guðmundur Jóhannesson nautgriparæktarráðunautur RML með erindi sem hann nefndi Meiri mjólk – staða og horfur og hins vegar erindi Hrafnhildar Baldursdóttur og Jónu Þórunnar Ragnarsdóttur fóðurráðgjafa RML sem nefndist Meiri mjólk – betri fóðrun.

Guðmundur Jóhannesson fjallaði fyrst um ytra umhverfi greinarinnar m.t.t. mannfjöldaþróunar, neyslu og neyslubreytingar sem aðallega hafa falist í aukinni neyslu mjókurfitu. Fram koma að innra umhverfi greinarinnar er í föstum skorðum, kvótakerfi, stuðningsgreiðslur sem verða tæplega 6,5 milljarðar króna árið 2014. Til að svara aukinni eftirspurn mun heildargreiðslumark væntanlega verða aukið upp í 123 milljónir lítra. Síðustu ár hefur mjólkurkúm fækkað og ásetningur á kvígukálfum dregist saman. Fór síðan yfir stöðuna í innleggsmálum síðustu vikna. Svo virðist sem innlegg hér á svæðinu hafi aukist eftir að tilmæli komu frá MS um aukna framleiðslu.
Spár um neysluaukningu gefa það til kynna að þörf sé á aukinni framleiðslu næstu ár. Hvað er þá til ráða ? Í fyrsta lagi skammtímaaðgerðir sem felast í að seinka slátrun fullorðinna kúa, bæta fóðrun og bæta aðbúnað. Til lengri tíma þarf að huga að nýliðun í greininni og fækkunar búa. Fjölga þarf kúm varanlega, láta kvígur bera fyrr, 24-25 mánuða og draga úr afföllum gripa; auka endingu. Þá þarf að auka meðalnyt og innlegg eftir kú. Bændur þurfa að nýta sér öll möguleg hjálpartæki og ráðgjöf. Tók dæmi um hjálpartæki við daglega bústjórn en það er að nýta Huppuna og gögn sem þar eru, m.a. vegna frjósemi. Hvatti að lokum bændur til að taka á málum í bústjórninni, þar eru ýmsir möguleikar, m.a. að nýta faglega ráðgjöf hjá RML.

Hrafnhildur og Jóna Þórunn lögðu áherslu á að til að ná meiri árangri í almennri bústjórn þyrfti að leggja fram aukna vinnu. Svo virðist vera að heygæði séu góð eftir síðasta sumar á Suðurlandi, spurning um hvort gæðaheyin séu nægileg að magni. Þá er bygguppskeran mjög döpur og gæðin örugglega misjöfn. Fóru síðan yfir hversu miklu máli skiptir að vita um magn og gæði þess gróffóðurs sem notað er á hverju búi. Slíkt er grunnur að faglegri ráðgjöf. Fóru síðan yfir nýtingu einstakra næringarefna í fóðrinu. Lögðu áherslu á að lesa rétt úr úr innleggstölum um verðefni mjólkurinnar. Velja þarf saman gróffóður (þar sem fyrir liggur greining á gæðum) og viðeigandi kjarnfóður. Mikilvægt að spara ekki fóður við 1.kálfskvígur á fyrsta hluta mjaltaskeiðs, dreifa kjarnfóðurskammtinum nægilega yfir daginn o.s.frv.

Við þurfum að víkka sjóndeildarhringinn, horfa yfir hjörðina í fjósinu, hvaða gripir sýna frávik, hvað með einkenni beiðslis, hvernig eru holdin, hvernig lítur skíturinn út, hárafar o.s.frv.

Skoða þarf sérstaklega uppeldisþáttinn hjá kvígukálfum, fyrstu vikurnar eru mjög mikilvægar – þar er svörunin mest í vaxtarhraða gripsins. Með bættu eldi koma kvígurnar fyrr í beiðsli og kvígurnar bera 1.kálfi yngri og meira flæði verður í fjósi. Heildarkostnaður lækkar við framleiðsluna.

Þá fjölluðu þær um hjálpartækið Norfor til nota við fóðurráðgjöf – gagnsemi þess er augljós ef fyrir liggja nægilegar upplýsingar um heimafengið fóður og líklegt át þess fóðurs. Síðan er það samvinnuverkefni bónda og ráðgjafa í útfærslu. Miklvægt er að halda áætluninni virkri – breyta ekki út af áætluninni – heldur endurbæta hana reglulega í ljósi þeirra reynslu sem fæst við notkunina.

Fleira ekki gert og fundi slitið um kl. 15.15
Runólfur Sigursveinsson ritaði fundargerð

 


back to top