Félagsráðsfundur FKS 14. des. 2004

Fundur í félagsráði Félags kúabænda á Suðurlandi 14.desember 2004


Félagsráðsfundur hófst kl: 11:10 að Stóra-Ármóti þar sem nýja heilfóðurkerfið var skoðað undir leiðsögn Grétars Hrafns sem sagði okkur meðal annars frá starfseminni og fóðurtilraununum sem hafa staðið þar yfir.
Samráðsfundur með ráðunautum BSSL hófst síðan eftir hádegi á skrifstofu Búnaðarsambandsins.
Formaður setti fund og bað Birnu Þorsteinsdóttur að stjórna fundi og var það samþykkt.


1. Ræktunarstarfið.
Guðmundur Jóhannesson fór yfir ræktunarstarfið í nautgriparækt, bæði hér og erlendis. Hann rakti m.a. hverju má ná fram með kynbótum og hvernig efla megi ræktunarstarfið og auka kynbótaframfarir. Hann sagði Dani t.d vera að ná 69% af aukinni afkastagetu kúnna með kynbótum meðan að við værum að ná 1/3 afurðaaukningarinnar með kynbótum. Guðmundur fór yfir hverju eigi að kynbæta fyrir og hver væri framtíðarsýnin í þeim efnum. Hann lagði áherslu á að í nautgripakynbótum verður að hugsa langt fram í tímann þar sem ættliðabilið er langt og áhrifa þess sem við gerum í dag fer ekki að gæta að neinu marki fyrr en liðnum áratug.
Til þess að auka megi kynbótaframfarir sagði Guðmundur nauðsynlegt að stækka hinn virka ræktunarhóp með aukinni þátttöku í skýrsluhaldi og aukningu á sæðingum. Þá er þörf bættri skráningu, alltof margir gripir koma óættfærðir inn á skýrslu. Þá hvatti Guðmundur til sæðinga á fyrsta kálfskvígum og sagði af hinu góða að ættfæra heimanautin væri um notkun á þeim að ræða. Að sjálfsögðu ætti hins vegar að halda henni í lágmarki.


Rætt um kálfadauða en engin niðurstaða er komin varðandi þá rannsókn sem er í gangi, þar eru einhverjar vísbendingar en ekkert haldbært. Fyrstu niðurstöður verða væntanlega kynntar á Fræðaþingi landbúnaðarins í byrjun febrúar n.k.


Jóhann er nokkuð sáttur við ræktunarstarfið en telur að þau 14 ár sem hann hefur búið hafi ekki orðið mikil útlitsbreyting á íslensku kúnni og spyr hvað sé til ráða til að ná svipuðum árangri og náðst hefur í betri byggingu kúa t.d.í Noregi og Dannmörku á síðastliðnum tuttugu árum
Sveinn telur að nauðsynlegt sé að skoða skyldleikarækt og gæta vel að henni.


Sigurjón í Raftholti spurði hvort að við ættum að  leggja upp með tvær línur í ræktunarstarfinu og  þá  hugsað um mjólkurlagni og skylda þætti annars vegar og hins vegar t.d. útlitsþætti og skap.


Kristinn á Þverlæk segir yfirlit yfir nautsmæður koma alltof sjaldan aðeins tvisvar á ári.


Birna ítrekaði upplýsingaleysi varðandi val á nautum m.t.t. júgurgalla.


Sigrún Ásta þakkar Guðmundi fyrir hans fróðleik. Hún telur að aukning hafi verið á of afturþungum júgrum og allavega spenum sem fylgja í kjölfarið. Einnig hefði hún viljað sjá samanburð ræktunar síðastliðna áratugi á ísl. kúnni eins og til er frá nágrannalöndunum.


Guðmundur svaraði að miklar framfarir hafi orðið í afköstum kúnna sem og júgur- og spenagerð. Í dag væri helst kvartað yfir útstæðum spenum en fyrir rúmu ári var aukið vægi á staðsetningu spena í spenaeinkunn.
Þá sagði Guðmundur að júgurhreysti hefur aðeins minnkað en þó ekki eins mikið og vænta hefði mátt með hliðsjón af mikilli afkastaaukningu. Þarna væri sterkt neikvætt samband á milli. Þá sagði hann frjósemi einnig vera lakari vegna meiri mjólkurafkasta eins og þekkt væri alls staðar frá í heiminum.


Jóhnn spurði hvort hægt væri að mæla/meta staðsetningu spena á nýfæddum kvígum en Guðmundur taldi það ekki hægt.


Fundarmenn sammála um að niðurslitin júgur séu of algeng og þar sé lélegt júgurband oft aðalorsökin.


Jóhann í Hildisey spurði um skyldumerkingarnar hvort eitthvað hefði fjölgað í skýrsluhaldinu. Guðmundur sagði enga fjölgun og sagði flesta ef ekki alla skýrsluhaldara merkja gripi sína. 
Formaður spurði hvort hjarðbókin hafi skilað sér. Guðmundur segir að mjög fáir skili inn hjarðbókum enn sem komið er og þessar upplýsingar skili sér ekki eins og til er ætlast.


2. Starfsemi og rekstur Kynbótastöðvarinnar.
Sveinn óskaði eftir því að fundarmenn kæmu sjálfir með vangaveltur og eða spurningar um starfsemina, frekar en að hann flytti pistil um starfsemina.
Formaður spurði hvort einhver niðurstaða hefði orðið vegna beiðni dýralækna um kaup á sæði frá stöðinni. Sveinn svaraði að það hefði komið neitun frá BÍ og ekkert heyrst um það meira.
Fundarmenn kvörtuðu um skort á upplýsingum um ungnautin og tóku Sveinn og Guðmundur það til greina og ætla að reyna að bæta úr því. Guðmundur sagði reyndar upplýsingarnar vera inni á Netnautunum.
Einnig spurt um lélega vigt við slátrun frá stöðinni á Hvanneyri. Sveinn segir það gamla kenningu að ekki megi fóðra of mikið eða á of góðum heyjum en segist ekki sammála því og telur þörf á að skoða upppeldið frekar. Guðmundur bætti við að á s.l. ári hafi verið töluvert um afföll nauta í sæðistöku og þeim nautum sé slátrað mjög ungum eða undir 20 mánaða aldri. Þeir gripir séu því aðlilega ekki þungir né flokkist vel.


Formaður sagðist hafa komið í stöðina á Þorleifskoti og fannst gripir vera í góðu lagi og hreinlegt í kringum þá en innréttingar væru að hans mati ekki í lagi. Nautin væru bundin á bás alla ævi ekki bara þar, heldur líka á Hvanneyri. Telur auðvelt og mikla þörf á að ýta þessum innréttingum út fyrir nýjar og bæta aðstöðu gripanna.


Sigurjón í Raftholti spurði hvaða aðili fjármagni endurbætur. Sveinn svaraði því til að það sé BÍ enda á BÍ stöðina.


Sigurjón í Raftholti stakk upp á að ályktað yrði um á endurnýjun á innréttingum hjá Uppeldisstöðinni. Ákveðið var formaður ynni ályktun  um endurbætur á Uppeldisstöðinni og kynnti félagsráðsmönnum með tölvupósti.


Sigurlaug í Nýjabæ spurði um rekstur hrútastöðvarinnar. Sveinn sagði hana vera innan BSSL en sé alveg sér rekstrareining.


3. Kýr 2004 – reynslan – framtíðin.
Sveinn Sigurmundsson þakkaði Guðmundi fyrir sinn hlut og spurði fundarmenn hvort ekki væri nauðsynlegt að halda áfram með svona sýningu.
Fundarstjóri bað fundarmenn að segja hvað þeim fyndist.
Allir eru með því að halda svona sýningu áfram en alltaf sé hægt að breyta og bæta t.d. spurning um staðsetningu, breytingu dómstarfa, tímasetningu og lengd sýningar (1 eða 2 daga).  Guðmundur segir aðra staðsetningu koma til greina að svo stöddu. Sambærilegt húsnæði sé ekki fyrir hendi annars staðar, a.m.k. ekki enn sem komið er.
Sigrún Ásta sagði að erfitt hafi verið að fá gripi á sýninguna og fór mikil vinna hjá Guðmundi í það.
Fram kom að 2 daga sýning eða dagskrá væri miklu þyngra í framkvæmd.
Niðurstaðan var sú að undirbúa vel næstu sýningu með reynsluna frá fyrri sýningum í huga, vinna út frá því og reyna að fá afurðarstöðvarnar meira inn í t.d. með því að kynna sínar vörur.


4. Niðurstöður SUNNU-búa (afkoma kúabúa).
Runólfur sagði frá þremur samráðsfundum sem haldnir höfðu verið í síðustu viku með þátttakendum en alls eru rúmlega 80 kúabú í verkefninu með um þriðjug mjólkurmagns á Suðurlandi. Í samantekt Runólfs kom m.a. fram að:
• Þátttakendur verkefnisins eru að ná auknum árangri í betri rekstri búanna ár frá ári.
• Rekstrarvitund þátttakenda hefur aukist.
• Leggja þarf aukna áherslu á nýtingu aðfanga og framleiðslutækja en verið hefur.
• Lækka kostnað við gróffóðuröflun –og vill sérstaklega sjá meiri lækkun í búvélakostnaði.


Töluverð umræða varð um rekstur búvéla sumir töldu þetta merki um velmegun að sá liður lækkar ekki líkt og aðrir liðir BK. Óli í Geirakoti telur miklu betra að véla sig upp fyrir mögru árin,- og telur það skárra en að vera á lélegum Zetor og hafa ómáluð hús eins og hann hafi séð á Írlandi.
Jóhannes Símonarson vill vara bændur við að missa sig ekki í vélakaupum, frekar að hlúa að útihúsum og landi.
Jóhann í Hildisey sagði fundarmönnum frá því að kostnaður á fóðureiningu í kornræktinni væri minni hjá sér en á fóðureiningu við heyöflunina og telur ástæðuna vera lægri vélakostnað en hann á engar vélar í vinnsluna á korninu, leigir þær.
Umræður hjá fundarmönnum fóru út í vélakaup/verktaka og voru skiptar skoðanir um möguleika á að verktakar myndu í auknum mæli koma að ákveðnum rekstrarþáttum búanna.


Gunnar á Túnsbergi bað Jóhannes að upplýsa okkur um kvótakaup. Jóhannes sagði að þetta mál hefði m.a. verið kynnt á samráðsfundum SUNNU-bænda og hann hefði hug á að koma á netið líkani sem hann kynnti á áðurnefndum fundum. Þar gætu kúabændur sett sínar forsendur inn til að meta hagkvæmni kvótakaupa. Aðstæður manna væru mjög mismunandi og því nauðsynlegt að skoða hvert bú fyrir sig. Ljóst er þó að eins og verð hefur þróast allra síðustu vikur þá er verð orðið mjög hátt.
Heilmikil umræða varð um kvótamál, skiptar skoðanir en lítil niðurstaða.


Sigurlaug sagði að SUNNA-verkefnið innihéldi miklar upplýsingar, hvort ekki væri ástæða  að nýta sér þær á ýmsan hátt t.d. til samningsgerðar.


Runólfur sagði frá því að nokkur vinna hefði einmitt verið unnin á liðnu ári vegna vinnu við mjólkursamning. Mikil og verðmæt gögn væru til staðar í verkefninu og  þörf á að vinna meira úr þeim en gert hefur verið.


5. Önnur mál.
Sigrún Ásta spurði um heyefnagreiningar en verulegur dráttur hefur orðið á að niðustöður hafi skilað sér á eðlilegum tíma. Flestir fundarmenn tóku undir óásættanlegan drátt á niðurstöðum.
Runólfur sagði að þetta væri því miður ekki í lagi og ekki hægt að sætta sig við svona gengi þetta ár eftir ár. Eðlilegt væri að álykta um þetta á þessum vettvangi enda kúabændur stærstu notendur þessarar þjónustu. Skoðað þyrfti gerð þjónustusamnings milli aðila til að veita meira aðhald .
Fundarmenn ræddu hvort væri betra að senda sýnin erlendis og fá niðurstöður fyrr en Runólfur taldi það mun dýrara miðað við fyrstu skoðun en alla möguleika þyrfti að skoða til að lagfæra núverandi ástand.


Jóhann í Hildisey spurði fundarmenn og Runólf um úrefni í mjólk og sagðist vera að gefa mjög líkt fóður og í fyrra en samt munaði einum heilum nú í haust, hvað úrefni væri hærra í tanksýnunum en á sama tíma í fyrra. Sumir fundarmenn tóku undir þetta en aðrir kváðu.
Runólfur sagði að engin skýring væri tiltæk nema að á rannsóknarstofunni væri tækjakosturinn orðinn gamall og  eðli úrefnismælingarinnar væri að hún er ekki nákvæm, hins vegar á að vera eftirlit með að tækin mæli “rétt”. Hins vegar hafa ráðgjafar bænda nýtt sér þessar upplýsingar um úrefnið í tankmjólkinni og gera verður kröfur á rannsóknastofuna að enginn vafi sé á þeim mæliniðurstöðum sem hún framvísar gagnvart bændum.
Gunnar á Túnsbergi, stjórnarmaður RM, svaraði því að sumir vildu bíða með endurnýjun á tækjunum því jafnvel væri von  á markaðinn tæki sem mældi úrefni ásamt ýmsum fleiri mæliþáttum en nú eru mældir.


Formaður sagði að töluverð vinna væri eftir að vinna í útfærslu á mjólkursamningi um óframleiðslutengda hlutann og nefndarmenn frá okkur héldu áfram þeirri vinnu. Reynt verði að finna leiðir til að koma þessu beint til skila.


Sigurlaug spurði um undirbúning afmælishátíð og árshátíð.
Birna svaraði að allt væri í undirbúningi og með eðlilegum hraða. Lagði áherslu á að hvetja kúabændur að mæta á Hótel Selfoss 9.apríl 2005.


Formaður tjáði fundarmönnum að aðalfundur FKS yrði 31.janúar  2005 og vildi hitta félagsráðið sem fyrst í janúar. Formaður þakkaði góðan fund og sleit fundi.

Katrín Birna Viðarsdóttir,
fundarritari.


back to top