Félagsráðsfundur FKS 11. júní 2012

Fundur haldinn í félagsráði Félags kúabænda á Suðurlandi mánudaginn 11. júní 2012 í Björkinni á Hvolsvelli.

1. Fundarsetning
Þórir Jónsson formaður setti fund og bauð fundarmenn velkomna. Ræddi framvindu mála frá síðasta fundi, m.a. varðandi gæðamál nautkjöts og ályktun um þau mál sem samþykkt var á aðalfundi BSSL. Nefndi líka þátttöku félagsins í Sunnlenskum sveitadögum og Kótelettunni en þar voru heilgrilluð naut meðal annars.

2. Kynnt staðan í endurskipulagningu ráðgjafaþjónustunnar. -Guðbjörg Jónsdóttir formaður BSSL.
Guðbjörg sagði frá stöðu málsins, verkefnisstjóri, Ágúst Þorbjörnsson, er búinn að ræða við alla starfsmenn ráðgjafaþjónustunnar og stjórnarmenn búnaðarsambandanna. Undirtektir eru góðar til verkefnisins að sögn verkefnisstjóra. Verið að undirbúa starfshópa um einstaka verkefnaliði og síðan verður boðað til samráðsfundar allra starfsmanna og fulltrúa stjórnarmanna í ágúst.

Björn í Holti spurði um fjármálahlið verkefnisins,  yrðu minni fjármunir og þá skert þjónusta frá því sem nú er og/eða aukin gjaldtaka.

Kjartan í Fagurhlíð  spurði hvernig staðið yrði að skipulagi þjónustunnar til framtíðar. Hvaða verkefni verða eftir hjá búnaðarsamböndunum og hvað verður í hinu nýja fyrirtæki.

Ómar í Lambhaga spurði um verkefni t.d. sem búnaðarsambandið  gæti tekið að sér, t.d. varðandi verkefni tengd MAST, Landgræðslunni og Vegagerðarinnar og eða önnur verkefni.

Ágúst í Bjóluhjáleigu  spurði um hvort starfsemin yrði áfram í Reykjavík, þ.e. ráðgjafaþátturinn.

Björn í Holti spurði um hvort búnaðarsamböndin gætu ekki tekið að sér þessa þjónustu/ráðgjöfina, þarf að stofna nýtt fyrirtæki ?

Guðbjörg svaraði framkomnum fyrirspurnum, og sagði nánar frá þeirri vinnu sem verið er að vinna. Það væri ekki komin nein skýr lína hvernig nýtt skipulag myndi líta út. Það skýrðist væntanlega  eftir ágústfundinn.


3. Niðurstöður úr SUNNU-verkefni 2011 – Runólfur Sigursveinsson ráðunautur BSSL.
Runólfur sagði frá uppgjöri  40 kúabúa  frá liðnu ári og til samanburðar sömu bú fyrir árið 2010. Meðal annars kom fram að þessi 40 bú voru að meðtali  með rúmlega 247.000 lítra framleiðslu en greiðslumarkið um 225.000 lítrar og því hafa búin verið að framleiða um 10% umfram greiðslumark. Afurðastig hefur hækkað um 2% milli ára. Búgreinatekjur hækka um 3,6% milli ára umfram verðalgsbreytingar miðað við neysluverðvísitölu meðan breytilegur kostnaður hækkaði um 7%. Framlegðarstig þessara 40 kúabúa lækkar úr 60,9% árið 2010 niður í 59,7% 2011. Mikill breytileiki er milli þessara bú innbyrðis í rekstrarfkomu.
Fasti kostnaðurinn hækkar umfram verðlagshækkanir milli ára um 4,3%.
Í heild þrengist um í rekstri en hins vegar lækka skuldir búanna verulega milli ára eða úr tæpum 83 milljónum niður í 62,6 milljónir króna, væntanlega fyrst og fremst vegna endurreikninga „erlendra“ lánasamninga.


4. Mál í vinnslu hjá Landsambandi kúabænda.- Sigurður Loftsson formaður LK.
Sigurður ræddi fyrst stöðu mála í nautakjöti, tiltölulega lítill innflutningur á fyrstu mánuðum ársins og framleiðsla og sala í jafnvægi eða um 4.000 tonn á 12 mánaða tímabili. Verð til framleiðenda hefur hækkað 2-4% síðustu mánuði. Búið að opna heimild til innflutnings á nautakjöti til 30.sept. 2012, sbr. rg. 491/2012. Nautakjötið hefur hækkað á heimsmarkaði síðustu misseri. Faghópur hefur verið skipaður um málefni nautakjötsframleiðslunnar, 4 framleiðendur, einn stjórnarmaður LK og framkvæmdarstjóri LK. Skýrsla um endurnýjun erfðaefnis enn ókomin.


Kvótamarkaður er viðvarandi verkefni LK. Litlar líkur á fleiri markaðsdögum árið 2012. Allt seldist sem boðið var til sölu 1.apríl sl. Farið verður yfir framgang markaðarins og reglugerð endurskoðuð fyrir upphaf árs 2013, m.a. með fjölgun markaða, ábyrgðir o.fl í huga.


Staða  búvörusamninga; þreifingar um framlengingu búvörusamninga. Stjórnvöld tengja málið fjárlagagerð. Ef verðbólgan verður 5,5% í ár, þá hækka stuðningsgreiðslur um 518 milljónir frá og með 1.janúar 2013 og taka síðan verðbótum mánaðarlega þaðan í frá. Óframleiðslutengdur er nú 178 milljónir en gæti orðið  um 500 milljónir ef hann yrði framreiknaður frá upphaflegum samningi.


Varðandi MAST, þá er Ríkisendurskoðun að vinna að forkönnun á MAST.  BÍ, LS og LK boðið að koma athugasemdum á framfæri við stofnunina.


Verðlagsgrunnur frá 1. júní 2012, hækkun kostnaðar frá 1. júní 2011 er um 8,3%.  Heildarkostnaður á hvern mjólkurlítra skv. grundvelli ætti að vera um 180 kr/l.  Meðalrauntekjur á hvern mjólkurlítra er núna um 141 kr/l.  Ræddi síðan hvort við værum komin í efri mörk í verðlagningu og sýndi dæmi um mismunandi áhrif tollverndar á einstaka vöruflokka og verðtilfærslu mjólkurafurða.  Ræddi síðan verðþróun til framleiðenda erlendis en verð á hrámjólk hefur lækkað síðustu mánuði  en virðist hafa stoppað núna.
Það er takmarkað svigrúm til verðhækkana, tollverndin á osti orðin mjög lítil, duftverð komið að þolmörkum. Að miklu leyti búið að leiðrétta framlegðarskekkju drykkjarmjólkur. Spurning síðan hver er í raun staða verðlagsnefndar og opinberrar verðlagningar. Inn í þetta spilar líka gengisþróun og heimsmarkaðsverð mjólkurafurða á hverjum tíma.


Ólafur í Hraunkoti spurði  hvað væri hægt að gera í stöðunni ef verðþolið er ekki meira en raun ber vitni á markaðnum.

Jóhann í St-Hildisey  sagði að það yrði að horfa til innri hagræðingar heima á búunum, það væri víða hægt að gera betur.

Guðbjörg á Læk spurði um framtíð verðlagsnefndar og  opinbera verðlagningu.

Sigurður í Steinsholti sagði að núverandi kerfi hefði bæði sína kosti og galla. Meðal annars að heildsöluverð sem er ákveðið núna á ákveðnum mjólkurvörum en yrði aflagt ef opinber verðlagning hætti. Hættan væri sú að verslunin tæki til sín stærri sneið af kökunni en hún hefur í dag ef ákvörðun um heildsöluverð ákveðinna vörutegunda yrði hætt.

Þórir á Selalæk spurði um endurskoðun verðlagsgrundvallar í mjólk.

Sigurður í Steinsholti taldi að það yrði farið á endanum í það verk.

Bóel á Móeiðarhvoli  velti fyrir sér merkingum á íslenskum vörum og eins að vera vakandi um viðhorf neytenda til uppruna varanna.

Elín í Egilsstaðakoti nefndi einnig þann mikla fjölda erlendra ferðamanna sem koma árlega og þeir vilja væntanlega frekar neyta íslenskra matvæla.

Runólfur  ræddi stöðuna í búgreininni til framtíðar, spurningin er hvort greiðslur á hverja framleiðslueiningu væru ekki orðnar býsna miklar. Hvort greinin þyrfti ekki að skerpa á framtíðarsýn greinarinnar og stefna ákveðið að útflutningi og hafa þor í slíka umræðu.

Sigurður í Steinsholti ræddi  stöðuna og hvað biði. Ef ætti að framleiða  meira af mjólk færi hún til útflutnings og þá yrði um eitt verð að ræða, óháð því hvort mjólkin færi á innanlandsmarkað eða flutt út.

Jóhann í St-Hildisey sagðist sammála viðhorfi Runólfs um útflutningsmálin.


Fleira ekki gert og fundi slitið um kl 11.20


Runólfur Sigursveinsson
ritaði fundargerð


back to top