Félagsfundur HS 7. nóv. 2012

Fundargerð
Félagsfundur Hrossaræktarsamtaka Suðurlands


Félagsfundur Hrossaræktarsamtaka Suðurlands haldinn í félagsheimili hestamannafélagsins Sleipnis, miðvikudaginn 7. nóvember 2012.


Dagskrá:
1. Fundarsetning.
2. Niðurstöður og tillögur kynntar.
3. Önnur mál.

1. Fundarsetning
Sveinn Steinarsson setti fundinn og kynnti fyrirkomulag fundarins. Skipti að því búnu fundarmönnum í tvo hópa. Þórdís Erla Gunnarsdóttir stýrði öðrum hópnum og María Þórarinsdóttir var ritari. Ólafur Þórisson stýrði hinum hópnum og þar var Katrín Ólína Sigurðardóttir ritari. Fundarmönnum var afhent skýrsla starfshópsins og úrdráttur úr henni. Unnið að tillögugerð og hugmyndum í rúma klukkustund.


2. Niðurstöður og tillögur kynntar.
Þórdís Erla og Ólafur kynntu það sem menn höfðu verið sammála um.



  1. Hæfileikadómur á LM skuli ætíð framkvæmdur með sama hætti og formi og á forsýningu /héraðssýningu. Rök með þeirri niðurstöðu m.a. að sömu vinnubrögð skuli viðhöfð á LM og forsýningum til að tryggja samanburðarhæfni og stöðlun þeirra gagna sem svo eru nýtt til útreiknings á kynbótamati.

  2. Hópurinn er áfram um að staðla og huga betur að starfi þula í dómi á kynbótasýningum LM. Fram komin rök því til stuðnings:
    – Yfrið nóg ætti að vera að koma upplýsingum á framfæri á tveimur tungumálum (íslenska/enska). Sé óskað fleiri tungumála verði slíkt að vinnast t.d. með sérstakri útsendingartíðni í útvarpi.
    – Sífelld síbylja þula þreytir og truflar upplifun áhorfenda og starf sýnenda.
    – Gæta verður sérstaklega að því að kynningar og orðaval þula sé svo hlutlaust sem verða má í dómi; þ.e. að einu sé ekki hampað á kostnað annars á grunni staðkunnugleika og/eða smekks þular.

  3. Hópurinn telur mikilvægt að kynbótadómarar séu stöðugt vakandi fyrir grófri reiðmennsku/grófum ábendingum og taki á slíkum málum af festu svo sem leiðari um framkvæmd kynbótadóma mælir fyrir um. Sérstaklega beri að gjalda varhug við tilraunum til skeiðsýninga þar sem skeiðgeta virðist lítil/engin.

  4. Sú hugmynd fékk góðan byr innan hópsins hvort ekki væri mögulegt að Fengur héldi utan um þær tölur sérstaklega sem breytast á yfirliti? Þ.e. að það komi sérstaklega fram á dómblaði hvaða tölur breytast og hvernig. Hópurinn telur þetta hafa augljóst upplýsingagildi fyrir ræktendur og geti t.a.m. unnið nokkuð á móti svo nefndri einkunnasöfnun.

  5. Skynsamlegt væri að yfirfara verkferla í dómpalli á yfirlitssýningum til að koma í veg fyrir að „vafasamar“ athugasemdir úr fordómi standi eftir óbreyttar þegar dómar hækka á yfirliti; þ.e. athugasemdir sem eru lýsandi fyrir fyrri einkunn en skjóta skökku við eftir breytingar á yfirliti.
    – Ef sú hugmynd fær brautargengi að allar breytingar á yfirliti komi fram á dómblaði þá minnkar hætta á áðurnefndum mistökum að öllum líkindum. Þá þarf ritari væntanlega að haka sérstaklega við í Feng að um sé að ræða breytingu á yfirliti og þá meiri líkur á að athygli starfsfólks í dómpalli sé vakin á athugasemdum sem ekki styðja fallinn dóm.

  6. Það er útbreidd skoðun í hópnum að í kynbótadómi, svo sem hann hefur þróast, sé á stundum of fast tekið á smávægilegum hnökrum í útfærslu sýninga, minniháttar taktfeilum eða öðrum þeim smálegum atriðum sem ekki snerta auðsýnilega getu gripsins eða kynbótagildi. Með öðrum orðum að kynbótadómurinn dragi stundum of mikinn dám af keppni. Ef eðli og geta gripsins sýnir sig þá ættu smávægilegir hnökrar ekki að hafa úrslitaáhrif á dóm.

  7. Það er almennt skoðun hópsins að breyta þyrfti vinnulagi á yfirlitssýningum á þann veg að hækkanir séu lesnar upp jafnharðan og þær verða til í dómpalli. Af þessu hlytist augljóst hagræði fyrir hest og knapa og gerði yfirlitssýningar einnig áhorfendavænni.

  8. Það er útbreidd skoðun í hópnum að dómarar verði sífellt að halda vöku sinni gagnvart svo nefndri hraðadýrkun; þ.e. að yfirhraða gangtegunda sé illu heilli of mikið hampað í einkunnum á kostnað taktöryggis, skrefstærðar, svifs (þar sem það á við) og mýktar.

  9. Bæta þarf vinnuumhverfi og vinnuramma kynbótadómara. Vísað er til þarfar á bættum skilyrðum og aðbúnaði í dómpöllum. Umræða fór fram um langa vinnudaga og (óhóflegt?) álag á dómara, ekki síst á LM2012. Er e.t.v. æskilegt að reyna að þoka hefðbundnum vinnudegi á kynbótasýningum meira í átt að 8-9 stunda vinnu?

  10. Umræður urðu um hvort það ætti að setja það sem kröfu að stóðhestar skili inn vottorði frá dýralækni um að eistnaheilbrigði sé í lagi þegar þeir koma til dóms í fyrsta skipti.


Eftirfarandi tillögur frá hópunum voru lagðar fyrir fundinn:

Tillaga nr. 1.
Félagsfundur Hrossaræktarsamtaka Suðurlands, haldinn 7. nóvember 2012 er einróma um að hæfileikadómur á landsmótum skuli ætíð framkvæmdur með sama hætti og formi og á forsýningu /héraðssýningu.
Greinargerð:
Rök með þeirri niðurstöðu m.a.:
Sömu vinnubrögð skyldu viðhöfð á LM og forsýningum til að tryggja samanburðarhæfni og stöðlun þeirra gagna sem svo eru nýtt til útreiknings á kynbótamati.
–Samþykkt.


Tillaga nr. 2.
Dómarar og aðstandendur kynbótasýninga skoði sinn þátt í fjölgun áverka á kynbótasýningum og axli ábyrgð og skoði kerfið í heild sinni. Framkvæmd sýninganna og túlkun dómsskalans með það fyrir augum að lágmarka slysahættu.
Greinargerð:
Er of miklu skellt á knapana? Er ekki fleira sem hefur áhrif? Þarf að greina áverkana betur niður. Eru til skilgreiningar á mun á ávera 1 og ávera 2? Getur verið neikvætt fyrir greinina í heild sinni ef hún fær mikla umfjöllun og athygli í fjölmiðlum, betra að hestamenn leysi málin í sínum hópi. Er eðlilegt að upplýsingar um áverka fylgi hrossinu, ættu þær ekki frekar að vera skráðar á knapann?
–Samþykkt.


Tillaga nr. 3.
Félagsfundur Hrossaræktarsamtaka Suðurlands, haldinn 7. nóvember 2012 beinir þeirri tillögu til aðalfundar Félags hrossabænda að þeir beiti sér fyrir því að breytingar sem verða á yfirlitssýningum verði kynntar jafnóðum. Af því hlytist augljóst hagræði fyrir hest og knapa. Yfirlitssýningar yrðu einnig áhorfendavænni.
–Samþykkt.


Tillaga nr. 4.
Félagsfundur Hrossaræktarsamtaka Suðurlands, haldinn 7. nóvember 2012 beinir þeirri tillögu til aðalfundar Félags hrossabænda að þeir beiti sér fyrir því að fagráð standi vörð um að framkvæmd á kynbótasýningum verði sú sama hér og erlendis.
Greinargerð:
Það hefur talsvert borið á því að hross sem hlotið hafa þokkalegan kynbótadóm hérlendis hafi snarhækkað á sýningum erlendis innan sama árs. Einnig hefur heyrst að þeir sem standa fyrir sýningum erlendis geti valið hvaða dómarar dæmi. Hlýtur að vera óeðlilegt ef svo er vegna hugsanlegra hagsmunaárekstra. Gera kröfu um að einn íslenskur dómari dæmi á öllum sýningum erlendis. Gera verður kröfu um að vallaraðstæður og framkvæmd sé allstaðar samræmd að öðrum kosti fari dómarnir ekki inn í WorldFeng.
-Vísað til stjórnar HS til frekari úrvinnslu.


Tillaga nr. 5.
Félagsfundur Hrossaræktarsamtaka Suðurlands, haldinn 7. nóvember 2012 beinir þeirri tillögu til aðalfundar Félags hrossabænda að stóðhestar sem koma til dóms í fyrsta sinn hafi vottorð frá dýralækni um að eistnaheilbrigði sé í lag.
Greinargerð:
Nokkrar umræður urðu um þessa tillögu og að endingu var ákveðið að þetta mál þyrfti að skoða betur. Hugmynd manna var sú að eistnaskoðun yrði framkvæmt um leið og dýralæknir tæki blóð út hestunum þannig ekki þyrfti að kalla dýralækni sérstaklega til í þessa skoðun. Málið er hins vegar, að það er oft gert um miðjan vetur og þá eru eistu yfirleitt mun minni en þegar líður að vori. Menn voru á því að þó svo hestur fengi einu sinni vottorð frá dýralækni um að hann væri í lagi, ætti samt að halda áfram að fylgjast með eistum á kynbótasýningum.
–Vísað til stjórnar HS til frekari skoðunar.


Tillaga nr. 6.
Hryssur 6 vetra og eldri haldi sínum byggingardóm til æviloka ef eigandi óskar þess, þannig þær þurfi ekki að mæta í byggingardóm þó þær mæti á hverju ári í hæfileikadóm.
–Vísað til stjórnar HS til frekari skoðunar.


Tillaga nr. 7.
Við mat á gangtegundum séu gæði þeirra metin umfram hraða.
Greinargerð:
Það er útbreidd skoðun að of fast sé tekið á smávægilegum hnökrum í útfærslu sýninga, minniháttar taktfeilum eða öðrum þeim smálegum atriðum sem ekki snerta auðsýnilega getu gripsins. Með öðrum orðum að kynbótadómurinn dragi stundum of mikinn dám af keppni. Ef eðli og geta gripsins sýnir sig þá ættu smávægilegir hnökrar ekki að hafa úrslitaáhrif á dóm. Í kynbótadómi er verið að meta óhörðnuð hross og því ósanngjarnt að bera þau saman við fullharðnaða keppnishesta. Dómarar verða að halda vöku sinni gagnvart hraðadýrkun. Illu heilli er yfirhraða of oft hampað á kostnað taktöryggis, skrefstærðar og mýktar.
–Samþykkt.

Tillaga nr. 8.
Lagt til að vinnudagur kynbótadómara verði 8-9 tímar á dag.
Greinargerð:
Erfitt fyrir dómara að halda vöku sinni dag eftir dag þegar vinnutími er 12-14 vinnustundir. Sjálfsögð krafa frá knöpum og eigendum hrossa að dómarar sé ekki dauðþeyttir við vinnu. Á landsmótum ætti skilyrðislaust að vera nokkrar dómnefndir að störfum. Fráleitt að 4 dómarar dæmi heilt landsmót.
-Vísað til stjórnar HS til nánari úrvinnslu.


Tillaga nr. 9.
Lagt til að dómar á vilja og geðslagi verði tekið til gagngerðrar endurskoðunar.
Þó bent á að nauðsynlegt sé að þessari tillögu fylgi góð greinargerð.
–Samþykkt.



3. Önnur mál.
Hrafnkell Karlsson tók til máls og sagði að vinna eins og þessi væri mikilvæg fyrir stjórn HS en ekki síður fagráð. Fagráð er þannig skipað að ræktendur geta haft mikil áhrif þar en menn verða að vera vel undirbúnir.
Varðandi áverkana held ég að hestamenn ættu að fara gætilega. Margir úti í þjóðfélaginu sem upplifa þetta sem dýraníð. Sammála því sem kom fram hér áðan að ég er ekki viss um að rétt sé að áverkar fylgi hrossunum í skráningu, þeir eru af annarra völdum. Hann benti Sunnlendingum á að þeir ættu ekki að hika við að kjósa nýja menn í stjórn Félags hrossabænda, það væri styrkur í því fyrir félög að mannaskipti yrðu í stjórnum.
Verkefnið „Gæðastýring í hrossarækt“ hefur ekki náð þeirri útbreiðslu sem vert væri. Það eru ekki nema u.þ.b. 44 bú í þessu verkefni og þeirra er ekki getið á heimasíðu Félags hrossabænda. Held að áhersla á umhverfisþætti og heilbrigði muni bara aukast, þannig þetta er verkefni sem ætti að reyna að virkja fleiri í. Væri eðlilegt að fara fram á að þau bú sem tilnefnd eru til ræktunarbúsverðlauna væru með þessa vottun?
Hrafnkell ávítti Félag hrossabænda harðlega fyrir að eyða peningum félagsins til bókakaupa. Það væri ekki hlutverk félagsins að styðja bókaútgáfu.

Gunnar Arnarson sagðist sammála flestu því sem Hrafnkell hefði fjallað um. Tók undir það að ekki væri æskilegt að sömu menn sætu tugi ára í sömu stjórn. Bókakaupin væru taktlaus, nær að nota fjármagnið til markaðssetningar eða hvata til að taka þátt í heimsmeistaramótum. Hann sagðist trúa því að bjart væri fram undan, fullt af ungu fólki sem væri að gera mjög góða hluti. Áhugi á heimsmeistaramótinu í Berlín væri mikill og það ættu Íslendingar að nýta sér. Útflutningur væri smátt og smátt að ná sér á strik. Bókað væri í allar ferðir út til áramóta og byrjað að bóka í ferðir í janúar.

Kristinn Guðnason rakti forsögu þess að farið var í það að styrkja þessi bókakaup. Bændasamtök Íslands hefðu gefið út bækur um hrossarækt árlega í nokkur ár en síðan hefði því verið hætt og margir söknuðu þess að ekki væru gefnar úr bækur um hrossarækt. Þess vegna hefði stjórn Félagi hrossabænda ákveðið að styðja þessa útgáfu. Staðan væri góð hjá félaginu. Sumarexem-verkefnið væri núna komið í fjárþrot og félagið hefur unnið að því að reyna að koma verkefninu á föst fjárlög þannig það fái 10-15 milljónir kr. á ári. Ef það tekst ætlar félagið að leggja verkefninu lið með fjárstuðningi líkt og Hrossaræktarsamtök Suðurlands gerðu árið 2011.

Kristbjörg Eyvindsdóttir benti stjórn HS og fagráði á að kynna sér vel drög að nýrri búfjárreglugerð þar væri margt sem vert væri að kynna sér og koma með breytingar á. Frestur til að gera athugasemdir rennur út 19. nóvember nk. Sagðist enn vera þeirrar skoðunar að dómarar dæmdu aðskildir og þeir ættu ekki að tala í síma á meðan á dómsstörfum stæði. Varðandi breytingar á vægisstuðlum væri hún ekki viss um að greinin gæti beðið í 10 ár eftir að þeir yrðu endurskoðaðir.

Kristinn Guðnason sagðist taka undir með Hrafnkatli að það þyrfti að auka þátttöku í gæðastýringunni. Þegar fyrst var farið að skoða áverka var það vegna þess að menn óttuðust að verið væri að rækta ranga hestgerð með tilliti til áverka. Síðan hefði komið í ljós að eftir því sem gögn söfnuðust upp virtist ekki sem ákveðnir stóðhestar væru að gefa meiri áverka heldur en aðrir. Margt að skoða í þessu og ekki rétt að varpa allri ábyrgð á knapana. Knapinn bæri samt alltaf mikla ábyrgð, megum ekki ofbjóða hestunum. Dómarar og við öll erum mikið fyrir hraða, hverju er mest klappað fyrir t.d. í reiðhallasýningum, það er hraðinn.

Kristbjörg Eyvindsdóttir hvatti menn til að vera vakandi fyrir búfjársjúkdómum þar mættum við ekki slaka á neinum kröfum um innflutning dýra. Nú væri mikið í umræðunni hvers vegnar blindir mættu ekki fara með blindrahunda óhindrað á milli landa.

Sveinn Steinarsson þakkaði fyrir góðan fund og málefnalegar umræður og sleit að því búnu fundi kl. 24:00.

/Halla Eygló Sveinsdóttir


back to top