Erlendur í Seglbúðum hlaut Evrópsku landgræðsluverðlaunin

Erlendur Björnsson, sauðfjárbóndi í Seglbúðum í Landbroti, hlaut í gær Evrópsku landgræðsluverðlaunin (The Environment and soil management award) sem ELO-samtökin (European Landowner’s organization) veita árlega. Erlendur hlýtur verðlaunin fyrir uppgræðslu lands og endurheimt raskaðra vistkerfa á jörð sinni. Hann hefur grætt land sitt frá 1982 og frá 1994 innan verkefnisins Bændur græða landið, sem er samstarfsverkefni bænda og Landgræðslu ríkisins.

Í viðtali við Morgunblaðið sagði Erlendur að einn ættingja hans hafi sagt við sig að það væri loksins verið að verðlauna hann fyrir sérviskuna og þau orð séu til marks um almennt viðhorf til náttúrunnar;  að náttúruvernd sé talin til sérvisku. Hann segir að upphaflega hafi hann ætlað sér að auka beitiland sitt með uppgræðslunni en síðan hafi hann séð fegurðina sem felst í sjálfu starfinu. Hann segist þó hlakka til að geta farið að beita á landið en óvíst sé hvenær það verði því uppgræðslan taki langan tíma.


Erlendur veitti verðlaununum viðtöku í Brussel í gær. Verðlaunaféð er 2.500 evrur og hyggst Erlendur nota það til að fjárfesta í áburðardreifara.


 


back to top