Erlendu lánin hagstæðari þegar upp er staðið.

Í Morgunblaðinu í dag er fróðlegt viðtal við Ólaf Þór Þórarinsson starfsmann Búnaðarsambands Suðurlands og Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins um lánamál bænda.  Þar kemur fram að þeir bændur sem tóku lán í erlendri mynt fyrir hrun standa betur í dag heldur en þeir sem tóku verðtryggð lán í íslenskum krónum á sama tíma.

 

Guðmundur Jóhannesson hjá RML er búinn að taka saman úrdrátt úr þessu fróðlega viðtali og er það birt hér með góðfúslegu leyfi hans.
 
„Þegar erlendu lánin hækkuðu gríðarmikið eftir hrun gátu bændur líkt og aðrir sem eru í rekstri gjaldfært hækkunina, eða gengismuninn. Hjá þeim betur stæðu komu gjöldin á móti hagnaði og hjá þeim verr stæðu voru búin rekin með tapi. Þessir bændur borguðu því minni eða engan tekjuskatt á þessum tíma. Þegar erlendu lánin voru síðan leiðrétt var leiðréttingin færð sem tekjur. Það veldur því að nú verða bændur sem eru réttum megin við strikið í rekstri sínum að borga tekjuskatt af leiðréttingunni.
 
Ólafur Þór segir að þeim sem hafa rekið bú sín vel og gjaldfærðu hækkun lánanna bregði í brún núna að fá leiðréttinguna sem tekjur og þurfa að borga skatt. Misjafnt er hverning menn haga sínum rekstri og skattlagning fer eftir rekstrarformi, þ.e. hvort um er að ræða einstaklingsrekstur, hlutafélög eða sameignarfélög.
 
Dæmi eru um að bændur hafi ekki gjaldfært hækkunina eða gengismuninn á lánum sínum þegar þau hækkuðu. Nú þurfa þeir að borga tekjuskatt af leiðréttingunni án þess að hafa nýtt sér gjaldfærsluna til skattalækkunar á árum áður. Þeir eiga þó rétt á leiðréttingu aftur í tímann hafi þeir ekki gjaldfært hækkunina.
 
Staða einstakra búa er ákaflega misjöfn segir Ólafur Þór. „Flestir sem tóku erlend lán eru búnir að fá leiðréttingu. Ég held að staðan sé mun verri hjá þeim sem eru með íslensku verðtryggðu lánin. Þau hafa ekki verið leiðrétt en hafa hækkað mikið. Manni finnst svolítið súrt að horfa upp á það að staðan sé verri hjá þeim sem ekki tóku áhættuna af erlendu lánunum,“ segir Ólafur Þór.
 
Mjög mikilvægt er að menn leiti sér ráða um rekstur, fjárhagsstöðu og skattamál sín hjá sérfræðingum. Það getur sparað umtalsverðar fjárhæðir.
 
Heimild: Morgunblaðið 4. apríl 2013, Guðni Einarsson“
 

back to top