Enn munnhöggvast menn um matvælaverð og verðbólgu

Bændasamtök Íslands og ASÍ halda áfram að munnhöggvast um matvælaverð og verðbólgu. Haraldur Benediktsson, formaður samtakanna, sagði í samtali við Ríkisútvarpið í gær að málflutningur Gylfa Arnbjörnssonar, forseta ASÍ, væri „kjaftæði“ en í fyrradag sagði Gylfi að verðhækkanir á íslenskum matvælum helstu orsök hækkandi verðbólgu í samtali við RÚV. Verðbólga mældist 5,7 prósent í september og hafði þá hækkað um 0,7 prósentustig milli mánaða.

Bændasamtökin sendu frá sér yfirlýsingu í gær þar sem fram kemur að verð innlendra búvara, án grænmetis, hafi hækkað um 22,5 prósent frá september 2008 sem sé nánast sama prósenta og almennt verðlag. Þá hafi verð innfluttra matvara hækkað talsvert meira á tímabilinu. Þá segir enn fremur í yfirlýsingunni að bændur hafi frá bankahruni lagt sitt af mörkum til að halda niðri vöruverði. Samningar hins opinbera við bændur hafi verið endurskoðaðir og það verið dregið í lengstu lög að hækka verð þrátt fyrir miklar hækkanir á verði aðfanga.


ASÍ brást við yfirlýsingu Bændasamtakanna síðar í gær. Í pistli á vefsíðu sambandsins segir Gylfi hóflegar launahækkanir verkafólks ekki réttlæta 10 prósenta hækkun á landbúnaðarafurðum upp á síðkastið, eins prósents hækkun hefði nægt. Þá sagði Gylfi fullyrðingar Haraldar eiga fátt skylt við veruleikann.


Sjá nánar:
Viðbrögð Bændasamtaka Íslands vegna frétta af orsökum hækkandi verðbólgu


Formaður bændasamtakanna á villigötum, svargrein Gylfa Arnbjörnssonar forseta ASÍ vegna viðbragða BÍ


back to top