Enn kemur upp riða

Riða hefur enn einu sinni greinst norðanlands, nú á tveimur bæjum. Svo undarlega vill til að báðir heita bæirnir Dæli og er annar í Sæmundarhlíð í Skagafirði en hinn í Skíðadal í Svarfaðardal. Þetta er í sjötta skipti sem riða kemur upp í Skagafirði á fjórum árum. Síðast kom upp riða í Svarfaðardal árið 2003 á bænum Urðum en þar hafði hennar ekki orðið vart í nokkur ár fram til þess tíma.

Ólafur Jónsson héraðsdýralæknir Skagafjarðar- og Eyjafjarðarumdæmis staðfesti þessi ömurlegu tíðindi við Bændablaðið. „Ég var bara að koma frá því að kynna þeim hjónum í Dæli í Sæmundarhlíð þessi tíðindi. Það var ein kind á hvorum bæ sem að sýndi hefðbundin einkenni riðu og það kom svo niðurstaða í gærkvöldi sem staðfesti að þetta er hefðbundin riða á báðum bæjunum. Þetta þýðir venjubundið ferli í viðbrögðum. Það verður skorið niður á báðum bæjum, síðan þarf að sótthreinsa og svo tekur við fjárleysi.“


Ólafur segir að ekki sé hægt að fullyrða um hvenær verði farið í aðgerðir en býst við að það líði um þrjár vikur héðan í frá. Það sé vitaskuld einnig háð veðurfari og öðrum utanaðkomandi aðstæðum. „Við munum fara eftir helgi á þessa bæi, ég og Þorsteinn Ólafsson sérfræðingur í sauðfjársjúkdómum, og öflum faraldsfræðilegra upplýsinga og skoðum aðstæður. Síðan fara þessi mál í hefðbundið ferli til ráðuneytisins og sérfræðingar Matvælastofnunar koma síðan og ganga til samninga við viðkomandi bændur.“


Djöfullegt sjokk


Ólafur segir að þetta sé mikið áhyggjuefni. „Ég var asskolli svartsýnn þegar að þessi riða kom upp með heiftarlegum hætti í Álftagerði fyrir áramót. Þetta er auðvitað sjötta tilvikið á fjórum árum á þessum litla bletti. Skagafjörðurinn er auðvitað gamalt og gróið riðusvæði og það er reyndar Svarfaðardalurinn líka. Þetta er náttúrlega bara djöfullegt sjokk að þar skuli koma upp riða, maður var svona farinn að krossa fingur um að þar væri ekkert að hreyfa sig meira.“


Ólafur segir að það verði að fara í einhverjar frekari aðgerðir vegna þessara síendurteknu riðutilfella. „Það er auðvitað erfitt um vik á þessum krepputímum en við hefðum gjarnan viljað sjá miklu meiri sýnatöku til þess að reyna að skoða þessi erfiðu svæði. Menn hafa verið að reyna að nýta þennan pening sem best en ég held að það verði að sitjast frekar yfir þetta og skoða þetta núna. Menn verða að eiga einhverja orðræðu við bændur um framhaldið.“ Ólafur segir að sér finnist alveg gefið að það verði að fara í einhverjar frekari sýnatökur í Skagafirði í ljósi þessara síendurteknu tilfella sem að þar hafi komið upp. „Klárlega. Það stendur til núna að fara í sýnatökur á bæjum í nágrenninu og við verðum síðan að meta framhaldið.“


 


back to top