Engar undanþágur fyrir íslenska bændur í ESB segir formaður BÍ

Ef ekki væri stundaður landbúnaður á Íslandi þyrftu landsmenn að verja um 100 milljónum króna á hverjum degi í kaup á erlendum landbúnaðarvörum sem skapa myndi tilheyrandi vöruskiptahalla. Þess í stað skilar íslenskur landbúnaður á bilinu 35 til 40 milljörðum í ríkisskassann árlega þegar frá eru talin erlend aðföng. Íslenskur landbúnaður skapar því bæði gjaldeyri og sparar hann að sama skapi. Þó slíkt hafi alltaf verið mikilvægt hlýtur það að teljast mikilvægara nú en nokkru sinni. Innlendar landbúnaðarvörur hafa á undanförnum misserum haldið niðri matarverði og verið þáttur í að halda niðri verðbólgu hér á landi.

Þetta er meðal þess sem kom fram í setningarræðu Haraldar Benediktssonar formanns Bændasamtaka Íslands við setningu Búnaðarþings í gær. Haraldur kynnti í ræðu sinni niðurstöður skoðanakönnunar sem að fyrirtækið Capacent vann fyrir Bændasamtökin en þegar hefur verið greint frá helstu niðurstöðum könnunarinnar hér á síðunni. Hin mikla jákvæðni almennings á Íslandi í garð íslensks landbúnaðar og íslenskra bænda er gleðileg og sýnir hversu mikilvægur íslenskur landbúnaður er, bæði í efnahagslegu tilliti en einnig í byggðalegu og félagslegu tilliti. Íslenskur landbúnaður veitir ríflega 10.000 manns atvinnu með beinum hætti og er ákaflega mikilvægur við að tryggja fæðuöryggi Íslendinga.


Grípa verður til almennrar skuldaniðurfærslu
Haraldur talaði í ræðu sinni um rekstrarvanda bænda og lagði áherslu á mikilvægi þess að gripið yrði til róttækra aðgerða til að koma í veg fyrir að rekstrarerfiðleikar myndu valda verulegum vandræðum til framtíðar í matvælaframleiðslu á landinu og læsa bændur inni í skuldafangelsi. Í grófum dráttum mætti skipta bændum í þrjá hópa hvað greiðslu vanda varðar. Í fyrsta hópnum væru um 130 bú sem ættu við verulegan vanda að  etja. Í öðrum hópnum væru tugir búa sem ættu að geta átt lífvænlega framtíð eftir endurskoðun skulda og rekstrar. Í þriðja hópnum væru hins vegar bú sem stæðu frammi fyrir greiðsluerfiðleikum en eru samt með sterka eignastöðu. Bændasamtökin hafa, að sögn Haraldar, ekki síst áhyggjur af síðastnefnda hópnum. Til þeirra nái engar sértækar aðgerðir. Bændasamtökin hafa allt frá Bankahruninu talað fyrir lækkun skulda með almennri niðurfærslu. Sagt er að lán til bænda séu ein bestu útlánasöfn bankastofnanna en þar sé mikill greiðsluvilji. Nauðsynlegt er að viðhalda þeim greiðsluvilja enda væri fátt jafn skaðlegt og atgervisflótti ungs fólks úr búskap eða eyðilegging á nútímaframleiðsluaðstöðu.  Bændasamtökin hafi í samvinnu við búnaðarsambönd brugðist við rekstrarvanda bænda með faglegri fjárhagsaðstoð. Jafnframt hafi Bændasamtökin átt í viðræðum við lánastofnanir um aðgerðir og beitt þrýstingi til að af þeim verði. Því miður hafi hægt gengið í þeim efnum.


Haraldur benti á að í umræðunni virðist stundum sem að afskriftir lána séu einfaldari ef eignir eru leystar upp og seldar.  „Ef það einfaldar afskriftir lána bænda, að færa lánasöfn í heilu lagi á milli banka, þá mætti hugleiða hvort stofnun á nýjum lánasjóði bænda með þátttöku samvinnufélaga bænda og fleiri geti verið fær leið“ sagði Haraldur.


Óvissa um framtíð landbúnaðarins heimatilbúin
Ljóst má vera að umræður um umsókn um aðild að Evrópusambandinu og niðurstöðu þeirrar vegferðar munu verða fyrirferðarmiklar á Búnaðarþingi nú. Þetta kom glögglega fram í ræðu Haraldar. Hann benti á óvissa um framtíð landbúnaðar á Íslandi væri að langmestu leiti heimatilbúin. Aðildarumsókn að Evrópusambandinu setji framtíð íslensks landbúnaðar í verulega óvissu. „Hugmyndin að sækja um og sjá hvað er í boði er vafalaust best heppnaða pólitíska brella seinni ára.  Ekki getur fólk verið á móti því að kostir aðildar séu kannaðir“ sagði Haraldur og sagði aðildarsinna hafa fá rök fyrir sinni stefnu.


Haraldur sagði undirbúning bænda vegna aðildarviðræðna stjórnvalda við ESB traustan og hann byggðist á áralangri þekkingaröflun um innviði landbúnaðarstefnu ESB.  „Við höfum ekki þurft að finna upp svör eða slá fram vonum og væntingum því kjarni málsins er að landbúnaðarstefna ESB þjónar ekki hagsmunum bænda eða neytenda.  Hún þjónar voldugum milliliðum og stórlandeigendum. Evrópusambandið sjálft hefur sagt, að frá breytingu landbúnaðarstefnunnar árið 2004 hefur afurðaverð til bænda hríðfallið en verð til neytenda hækkað.  Hvert fór mismunurinn?“ sagði Haraldur jafnframt.


Haraldur sagði það umhugsunarefni hvort fulltrúar bænda, sem skipaðir hafi verið í samningahópa vegna aðildarumsóknar, eigi að stafa þar áfram. Bændur kæri sig ekki um að samtök þeirra dragist til ábyrgðar. Þegar allt komi til alls sé það Alþingis og ríkisstjórnar að bera ábyrgð á aðildarferlinu og útkomunni. „Nú liggur fyrir að verkefnið er að bylta starfsumhverfi landbúnaðarins eins og fram kemur í skýrslu framkvæmdastjórnar ESB sem kom bændum ekki á óvart.  Brátt verður hafist handa við að sníða landbúnaðarstefnu okkar að sameiginlegu landbúnaðarstefnu ESB.  Engar vísbendingar eru þar um undanþágur fyrir íslenska bændur enda eru þær ekki til.   Í besta falli einskonar tímbundnar heimildir til bráðbirgðaráðstafana undir eftirliti og stefnu ESB og þá eingöngu með íslensku fjármagni sem verður viðbót við hátt árlegt aðildargjald.  Til viðbótar nauðsynlegri endurskoðun kjötafurðastöðva sem ég áður nefndi, verða nú að fara fram opinskáar umræður um fækkun allra úrvinnslustöðva landbúnaðar.  Eftir aðild að ESB þarf vafalaust ekki nema eina mjólkurvinnslu í landinu og tvö sláturhús“ sagði Haraldur og benti einnig á hversu ósamstíga ríkisstjórnin væri í Evrópumálunum. Það kynni ekki góðri lukku að stýra. Almenningur bæri takmarkað traust til stjórnvalda eins og könnun Capacent sýndi fram á.


Haraldur sagði bændur ekki geta ekki látið það átöluaus þegar molað væri undan meginstoðum byggða og landbúnaðar.  „Sjónarmið okkar eiga mikinn hljómgrunn meðal þjóðarinnar því 84% hennar telja framtíð landbúnaðar hafi áhrif á viðhorf sitt til aðildar að ESB. Þetta segir okkur að stjórnmálamenn, hvar í flokki sem þeir standa, verða að gæta að hagsmunum landbúnaðarins. Þegar spurt er um áhuga fólks á að ganga inn í sambandið er einungis þriðjungur sem svarar því játandi í dag. Þó svo að sú mæling gefi okkur sem erum mótfallin aðild að sambandinu góðar vonir þá ítreka ég að baráttan er rétt að byrja og skjótt skipast veður í lofti.“


 


back to top