Endurskoðun ráðgjafar í landbúnaði

Ágúst Þorbjörnsson ráðgjafi hefur tekið að sér verkefnisstjórnun við sameiningu leiðbeiningaþjónustu búnaðarsambandanna og Bændasamtakanna. Hann hefur þegar hafið störf en áætlað er að nýtt fyrirkomulag taki gildi um næstu áramót. Ágúst byggir starf sitt m.a. á tillögum danska ráðgjafans Ole Kristensen sem gerði ítarlega greiningu á leiðbeiningaþjónustu í íslenskum landbúnaði á síðasta ári.

Á síðasta búnaðarþingi var ákveðið að sameina ráðgjafarstarfsemi í landbúnaði í eina rekstrareiningu. Markmiðið er að auka faglegan styrk og hagkvæmni leiðbeiningaþjónustunnar. Til að vinna að framgangi málsins skyldi ráða verkefnastjóra sem starfaði náið með stjórnendum og starfsmönnum í leiðbeiningaþjónustunni. Ágúst Þorbjörnsson, sem var ráðinn til verksins, er eigandi ráðgjafarfyrirtækisins Framsækni ehf. Hann er menntaður hagverkfræðingur frá Þýskalandi með sérhæfingu í fjármála- og reikningshaldi, framleiðslustjórnun og matvælaverkfræði. Ágúst er bændum að góðu kunnur en nýlega vann hann að stefnumörkun fyrir Landssamtök sauðfjárbænda ásamt því að hafa unnið verkefni fyrir mjólkur- og kjötiðnaðinn. Ágúst hefur þegar hafið störf en meðal hans fyrstu verka er að hefja fundahöld með starfsmönnum búnaðarsambandanna víðs vegar um land.


Ágústi til halds og trausts er stýrihópur sem í eru þau Guðný Helga Björnsdóttir, Haraldur Benediktsson, Guðbjörg Jónsdóttir og Sigurður Eyþórsson. Samkvæmt verklýsingu sem verkefnastjórinn vinnur eftir er hlutverk hans einkum að ræða við stjórnir og starfsmenn búnaðarsambanda og fá þeirra sýn á hvernig best verður staðið að uppbyggingu breyttrar leiðbeiningastarfsemi. Hann á að vinna að útfærslu tillagna um nýskipan þjónustunnar og útfæra skipulag starfseminnar, þ.m.t. hvaða þjónusta og verkþættir flytjast frá BÍ og búnaðarsamböndum til hinnar nýju starfsemi og skilgreina umfang rekstrarins að öðru leyti. Verkefnisstjórinn mun undirbúa fjárhagsáætlun og setja fram tímasetta framkvæmdaáætlun um innleiðingu hins nýja fyrirkomulags. Hann á einnig að vera í samskiptum við stéttar- og hagsmunafélög ráðunauta og huga að mannauðsstjórnun, segir í verklýsingu. Bæði verkefnisstjóra og stýrihóp er ætlað að hafa víðtækt samráð við núverandi rekstraraðila og starfsfólk leiðbeiningaþjónustunnar og leita eftir skoðunum þeirra og tillögum við störf sín.


back to top