Ekkert nýtt smit hefur fundist

Matvælastofnun vinnur enn að rannsóknum á útbreiðslu og mögulegum smitleiðum smitandi barkabólgu í kúm, í samvinnu við Tilraunastöð Háskóla Íslands að Keldum, Landssamband kúabænda og viðkomandi búfjáreigendur. Ekkert nýtt smit hefur fundist.
Sýni frá 615 kúabúum af öllu landinu voru send út til rannsóknar í vikunni. Nú hafa 396 þeirra verið rannsökuð og ekki fundust mótefni gegn nautgripaherpesveiru í neinu þeirra.

Blóðsýni hafa verið tekin úr öllum kúm á Fljótsbakka í Eiðaþinghá og verða sýni tekin úr nautum á búinu í næstu viku. Jafnframt hafa verið tekin blóðsýni úr öllum gripum í Nautastöðinni á Hesti og holdanautabúinu í Hrísey. Niðurstaðna rannsókna á sýnum frá þessum búum er að vænta í næstu viku. Sýkta gripnum á Fljótsbakka og einni sýktri kú frá Egilsstöðum var slátrað í vikunni og sýni tekin úr taugahnoðum þar sem þekkt er að veiran finnist. Þetta er gert í því skyni að reyna að einangra veiruna til að geta rannsakað stofn hennar. Í næstu viku verða tekin fleiri sýni á Egilsstaðabúinu til að kanna útbreiðslu veirunnar innan búsins en svo virðist af fyrstu sýnatökum að smitið sé lítið útbreitt meðal yngstu kúnna.
 
Niðurstöður þeirra rannsókna sem nú eru í gangi og fyrirhugaðar eru í næstu viku munu væntanlega liggja fyrir í annarri viku nóvembermánaðar og þá verður hægt að taka endanlega ákvörðun um hvernig staðið skuli að útrýmingu á smitinu.


Fulltrúar Matvælastofnunar tóku þátt í fundum Landssambands kúabænda á Hvanneyri í síðustu viku og á Hellu í þessari viku, kynntu málið og sátu fyrir svörum.


back to top