Einn maður á hlut í 33 lögbýlum hér á landi

Einn maður á hlut í 33 lögbýlum hér á landi samkvæmt því sem Einar K. Guðfinnsson landbúnaðarráðherra greindi frá á Alþingi í dag. Þar var hann að svara fyrirspurn Birkis Jóns Jónssonar, þingmanns Framsóknarflokksins.

Birkir spurði ráðherra hvort hann teldi rétt að breyta jarðalögum í ljósi þess að jarðir hefðu safnast á færri hendur og hvort hann hefði upplýsingar um það hversu margir einstaklingar og lögaðilar ættu meira en þrjú lögbýli og þá hversu mörg.


Birkir sagði varhugavert að menn gætu eignast heilu sveitirnar en sagðist jafnframt gera sér grein fyrir hinni hlið málsins, að bændur fengju ásættanlegt verð fyrir jarðir sínar og gætu horfið með reisn frá sínu ævistarfi.


Einar K. Guðfinnssson landbúnaðarráðherra sagði í svari sínu að lögbýlum hefði fjölgað um eitt prósent á árunum 2000 til 2006 og að eigendum lögbýla hefði fjölgað um 12 prósent, úr tæplega níu þúsund í rúmlega tíu þúsund. Þá sagði hann að á tímabilinu hefði eigendum sem ættu fjórar jarðir eða fleiri fjölgað úr 26 til 51. Þar af ættu 49 aðilar hlut í 4-6 lögbýlum og einn hlut í 33 lögbýlum.


Einar sagði það jákvæða þróun að eignaverð hefði hækkað og að uppgangur hefði verið í sveitum á síðustu árum. Enginn vildi sjá að jarðir landsins söfnuðust á hendur fárra einstaklinga en tölur bentu ekki til þess að þróunin væri sú. Sjálfsagt væri hins vegar að fylgjast vel með þróuninni í þessum efnum.


back to top