Efling íslenska geitfjárstofnsins

Þingmenn úr öllum flokkum hafa lagt fram tillögu til þingsályktunar um eflingu íslenska geitfjárstofnsins þar sem landbúnaðarráðherra verði falið beita sér fyrir eflingu íslenska geitfjárstofnsins. Í því skyni verði bændur sem vilja vinna geitfjárafurðir til sölu og þeir sem halda geitfé sérstaklega aðstoðaðir. Einnig verði kannað hvernig fjölga megi stöðum á landinu þar sem geitfjárrækt fer fram og hafnar verði erfðarannsóknir á stofninum og nýtt til þess þekking sérfræðinga í Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri og á tilraunastöðinni á Keldum.

Í greinargerð með tillögunni segir að íslenski geitfjárstofninn sé einstakur í sinni röð fyrir hreinleika sakir. Stofninn er sá sami frá landnámsöld að því er varðar blöndun við aðra stofna. Þá hefur íslenska geitin sérstöðu hvað varðar tegundir ullar, en fínleiki hennar er í ætt við kasmírull. Eru því afurðir geitarinnar hér á landi mjólk, kjöt, ull og skinn.
Nú er svo komið að einungis eru eftir rétt rúmlega 400 vetrarfóðraðar geitur hér á landi í 45 hjörðum og er stofninn í útrýmingarhættu. Hefur geitum fækkað mjög á síðustu árum, einkum vegna þess að þær hafa verið skornar niður á svæðum þar sem greinst hefur riða í sauðfé, þrátt fyrir að aldrei hafist greinst riða í geitfé. Nú eru greiddar 5.000 kr. með hverri skýrslufærðri geit á ári til þeirra bænda sem þær halda. Þá hefur það staðið í vegi fyrir því að fleiri taki geitur að ekki hefur fengist leyfi til þess hjá yfirdýralækni að flytja geitur á ný svæði sökum varnarlína vegna sauðfjársjúkdóma þótt aldrei hafi greinst riða í geitfé hér á landi eins og áður sagði. Á sama tíma hefur komið í ljós eftirspurn eftir ýmsum afurðum þessa stofns, ekki síst í ljósi þess nýja fjölmenningarlega samfélags sem er að myndast hér á landi.

Í ljósi veikrar stöðu þessarar búgreinar er því lagt til með tillögu þessari að landbúnaðarráðherra beiti sér fyrir því að styrkja stöðu geitfjárstofnsins. Verði það gert á eftirfarandi hátt:
– Þeir bændur sem vilja vinna afurðir til sölu fái til þess tímabundinn styrk og aðstoð til að koma sér á stað. 
– Þeir sem vilja halda geitur til fjölgunar stofninum fái tímabundna hækkun á greiðslu fyrir hverja skýrslufærða geit. 
– Hafnar verði rannsóknir á erfðamengi geitfjárstofnsins hér á landi og það kortlagt, meðal annars með tilliti til riðuarfgerða, enda stofninn ekki stærri en svo að slíkt á að vera auðvelt í framkvæmd ásamt því að allur stofninn er nú skýrslufærður. 
– Yfirdýralæknir fái einnig heimild til að leyfa flutning á sæði milli geitfjárhjarða hér á landi milli sauðfjárveikivarnarsvæða í meira mæli en nú er. 

Ísland er aðili að Ríósamþykktinni frá 1992 um varðveislu erfðaefnis og víst er að ef ekki verður nú þegar brugðist við þeirri stöðu sem íslenski geitfjárstofninn er í er hætt við að það verði brátt um seinan.

Að öllu framansögðu telja flutningsmenn mikilvægt að stjórnvöld leiti leiða til að efla íslenska geitfjárstofninn.


 


back to top