Brunavarnir í ólagi til sveita

Brunavarnir í sveitum eru víða í miklum ólestri. Einkum á þetta við um gripahús og önnur útihús. Þetta er álit mjög margra sem vinna að málaflokknum. Ástæður þess eru einkum þær að fram til þessa hafa ekki verið til skynjarar og viðvörunarkerfi sem hafa dugað við aðstæður sem einkenna gripahús, þar sem mikill raki og ryk er oft viðvarandi. Sömuleiðis er víða pottur brotinn þegar kemur að eldvarnahólfum, einkum í eldri byggingum. Brunavarnamálum hefur almennt lítið verið hreyft í landbúnaði í áranna rás en alvarlegir eldsvoðar síðustu misseri hafa þó hreyft við fólki.

Farið verði í heildarúttekt
Björn Karlsson brunamálastjóri segir að stofnunin reyni eftir megni að ýta á fólk með að koma brunavörnum í lag. „Við höfum haldið fjölda ráðstefna og funda um þessi mál, auk þess að skrifa í blöð, ekki síst í Bændablaðið. Brunamálastofnun hefur samt enn ekki gripið til þess að fara út til framkvæmdaaðilana, sveitarstjórna og slökkviliða. Það er hins vegar gefið mál í ljósi nýliðinna atburða að við munum taka þessi mál upp á landsráðstefnu slökkviliðsstjóra í apríl á næsta ári. Það verður að ræða hvort ekki sé ástæða til að fara í heildarúttekt á þessum málum.“

Byggingarreglugerðum fylgt
Björn segir jafnframt mikla þörf á því að hólfa byggingar niður með eldvarnaveggjum og hurðum eftir því sem kostur er. Í mörgum tilfellum séu slíkar varnir alls ekki til staðar. „Hvað varðar eldvarnahólf munum við einnig ræða málin við byggingarfulltrúa og reyna að ganga eftir því að reglum sé fylgt. Það verður aldrei hægt að gera sömu kröfur á eldri byggingar eins og þær nýrri en það má velta því fyrir sér hvort þrengja þurfi reglur um nýbyggingar.“

Málið á umræðustigi
Sigurgeir Þorgeirsson framkvæmdastjóri Bændasamtakanna segir að rætt hafi verið um að fara af stað með átak um brunavarnir af hálfu samtakanna. Af því hafi þó enn ekki orðið. „Það verður nú að játast að við höfum sjálfir ekki farið af stað með svona verkefni. Þetta hefur verið rætt hér innanhúss og fyrir rúmu ári áttum við viðræður við VÍS um möguleika þess að lækka iðgjöld á tryggingum gegn því að bændur kæmu sér upp fullkomnum brunavörnum. Við höfum fylgst vel með verkefni Búnaðarsamtaka Vesturlands og horfum til þess. Við vitum af því að það þarf að vinna betur í þessum málum.“

Tryggingamál í betra standi
Sigurgeir segir hins vegar að farið hafi verið yfir tryggingamál bænda og nokkur skurkur gerður í því að taka á þeim málum. „Við náðum samkomulagi við Vátryggingafélag Íslands rétt fyrir aldamótin um að bjóða upp á yfirgripsmikinn tryggingapakka fyrir bændur og yfir hann hefur verið farið reglulega. Ég held að það sé óhætt að fullyrða að þeir hafi staðið sig nokkuð vel í að kynna mönnum möguleika á tryggingum frá þeim og leiðbeint um hvað hentar hverjum og einum. Það er samt ekki þar með sagt að alls staðar séu hlutirnir í lagi.“

24 stundir, þriðjudaginn 4. desember 2007 / Freyr Rögnvaldsson


Tengt efni:
Brunavarnarkerfi, flóttaleiðir og tryggingar


back to top