Bestu naut 2002 og 2003 árg. verðlaunuð

Á nautgriparæktarfundi í Árhúsum á Hellu voru veittar viðurkenningar fyrir bestu naut úr 2002 og 2003 árgöngum nauta. Af nautum fæddum 2002 hlaut Lykill 02003 viðurkenningu sem besta naut árgangsins. Lykill var fæddur á Hæli 2 í Gnúpverjahreppi undan Kaðli 94017 og Skrá 267 Listadóttur 86002. Magnús B. Jónsson, landsráðunautur í nautgriparækt, fór nokkrum orðum um frammistöðu Lykils og m.a. kom fram hjá honum að Lykill gefur mjög mjólkurlagnar með sérlega hátt próteinhlutfall í mjólk. Dætur hans hafa jafnframt mjög vel gerða og vel setta spena auk þess sem mjaltir og skap eru með því besta sem gerist. Lykill hlaut því nafnbótina besta naut 2002 árgangs nauta og veittu ræktendur hans, þau Ari Einarsson og Þórdís Bjarnadóttir, henni viðtöku.
Úr nautaárgangi 2003 hlaut Gyllir 03007 nafnbótina besta naut árgangsins. Gyllir var fæddur á Dalbæ 1 í Hrunamannahreppi, undan Seif 95001 og Flugu 254 Soldánsdóttur 95010. Gyllir var því sammæðra Glæði 02001 sem var eitt af albestu nautum 2002 árgangsins. Gyllir gefur mjög myndarlegar og mjólkurlagnar kýr með góða og sterklega júgurgerð. Þá eru mjaltir dætra hans frábærar og skap þeirra gott. Ræktendur Glæðis eru þau Arnfríður Jóhannsdóttir og Jón Viðar Finnsson og veitti Arnfríður viðurkenningunni móttöku.
Á meðfylgjandi myndum má sjá þau Ara Einarsson og Þórdísi Bjarnadóttur og svo Arnfríði Jóhannsdóttur ásamt Magnús B. Jónssyni þegar þau tóku við viðurkenningunum.


Magnús B. Jónsson, Þórdís Bjarnadóttir og Ari Einarsson.


Magnús B. Jónsson og Arnfríður Jóhannsdóttir.


back to top