Bændur sjá ekki ljósið

„Við höfum aldrei séð ljósið fyrir landbúnaðinn,“ segir Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtaka Íslands. Samtökin hafi markvisst fylgst með þróun sambandsins og sérstaklega með endurskoðun á landbúnaðarstefnunni, aflað upplýsinga hjá norrænu bændasamtökunum og vegið og metið kostina. Niðurstaða bænda er Nei við ESB.

Samningurinn sem Finnar gerðu þegar þeir gengu í sambandið er sá hagstæðasti sem bændur hafa fengið og líklegt hlýtur að teljast að Íslendingar fái a.m.k. jafngóðan samningi. En eru einhverjar líkur á að íslenski samningurinn gæti orðið betri?


„Ég get ekki lagt mat á það. Við fáum að minnsta kosti ekki betri samning ef íslenskri stjórnmálamenn fást ekki til að lýsa því yfir að landbúnaður sé forgangsmál.“ Haraldur bendir einnig á að þótt finnski samningurinn hafi verið tiltölulega hagstæður og Finnar haldið mikilli tryggð við finnskar búvörur, hafi tekjur finnskra bænda dregist saman um 30% frá inngöngu. Slíkt myndu íslenskir bændur ekki lifa af. Haraldur tekur um leið fram að bændur eins og aðrir líði fyrir ógnarháa vexti og lágt gengi íslensku krónunnar, lausn þurfi að finnast á því vandamáli.


Ef íslenski landbúnaðarsamningurinn yrði sambærilegur þeim finnska, gætu bændur þá stutt inngöngu?


„Það fer eftir því hvað er mikill greiðsluvilji hjá íslenska ríkinu. Ef gengið væri í ESB með tilheyrandi falli tollamúra, þyrftu bændur meiri fjárhagslegan stuðning en þeir fá í dag. Okkar svar er líkt og norskra bænda án tollverndar er ekki grundvöllur fyrir landbúnaði.“


Bændum hefur fækkað undanfarin ár. Hvernig sérð þú fyrir þér að landbúnaðurinn myndi þróast, gengi Ísland í sambandið?


„Ég get ekki svarað því fyrir víst en það má alveg eins segja að við munum hafa um 100 kúabændur og 300-400 sauðfjárbændur. Alifugla- og svínaræktin munu nánast hverfa og grænmetisrækt minnka til mikilla muna. Það verður bara sýnishornabúskapur á Íslandi,“ segir Haraldur. Bændum muni reyndar fækka þó Íslendingar gangi ekki í ESB, en ekki eins mikið. Þá myndi framleiðsla á mjólkurafurðum minnka til muna eftir inngöngu þótt áfram yrði framleidd drykkjarmjólk. Haraldur bendir hins vegar á að sú framleiðsla gefi mun minna af sér en sú sem nú stundið. Framleiðsla á drykkjarmjólk eingöngu væri aðeins sýnishorn miðað við stöðuna í dag.


Ekki yrðu bara bændur fyrir búsifjum. Haraldur segir að með inngöngu í ESB myndi alifugla- og svínakjötsframleiðsla að mestu hverfa og það myndi kippa fótunum undan flestum afurðastöðum. Bændur myndu áfram njóta styrkja, , en engir slíkir styrkir væru í boði fyrir afurðastöðvar eða aðra þjónustuaðila. Haraldur hefur miklar áhyggjur af afleiðingunum fyrir bæi líkt og Blönduós og Selfoss sem byggja töluvert áafurðavinnslu.


Stuðningur ríkisins við bændur hefur minnkað á undanförnum árum. Um leið hafa staðið yfir samningaviðræður á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) um lækkun tolla og ríkisstyrkja. Hvað stöðu hefði íslenskur landbúnaður ef samningar tækjust á grundvelli WTO en Ísland stæði utan ESB?


Haraldur dæsir. „Niðurstöður í samningaviðræðum WTO geta orðið slæmar. Niðurstöður WTO-samninga í þeirri mynd sem við búumst við, verða til að aftengja þarf framleiðslustuðninginn í meira mæli. En við gætum útfært slíkar breytingar á okkar forsendum en ekki með aðild að ESB. En um niðurstöður þeirra höfum nánast ekkert að segja, og þær snerta landbúnað í öllum ríkjum.“


Undanfarin ár hefur mikið verið deilt um hvort kúabændum verði heimilað að skipta um kúakyn, með því að flytja inn norska fósturvísa. Haraldur bendir á að gengi Ísland í ESB hlyti krafan um að leyfa innflutning á fósturvísum að verða áríðandi. Fylgjendur innflutnings fósturvísa hlytu að spyrja hvaða sanngirni væri fólgin í því að leyfa innflutning á mjólk frá ESB en banna íslenskum bændum um leið að rækta hagkvæmvara kúakyn. Bændasamtökin gagnrýndu harðlega matvælafrumvarpið sem lagt var fyrir sl. vor.


Nú hefur nýtt frumvarp verið lagt fram sem tekur í verulegum atriðum mið af gagnrýninni. Engu að síður verður áfram leyft að flytja inn hrátt kjöt en Bændasamtökin hafa lagst alfarið gegn því ákvæði frumvarpins. Verði frumvarpið samþykkt hefur Ísland að mestu leyti tekið upp matvælalöggjöf ESB.


Haraldur segir að ýmislegt gott sé í frumvarpinu, t.d. verði starfsumhverfi afurðastöðva einfaldara en fyrr. Það hafi hins vegar verið gallað að ýmsum öðru leyti, t.d. hafi verið alltof mikið af allskyns leyfis- og skoðunargjöldum en þau atriði hafi nú verið lagfærð, eftir ábendingum frá Bændasamtökunum.


 „En það er eitt sem við lærðum þegar við fórum að kafa ofan í þetta, þá getum við ekki að ESB sé að reyna að troða inn kjöti sem er hættulegt. ESB hefur ekki hag eða vilja til að brjóta niður íslenskan landbúnað. ESB viðurkennir EES samninginn og leyfir okkar til að reisa háar girðingar. En [stjórnvöld] eru svoddans gungur að við reynum ekki að aðlaga þetta að okkar aðstæðum. Við höfum líka lært að löggjöf sem kemur til innleiðingar hér getum við aðlagað 300.000 manna þjóðfélagi en þurfum ekki að ljósrita eins og milljónaþjóðfélögumum. Og þetta hefðu menn betur farið að tileinka sér þegar þeir innleiddu fjármálaeftirlitslöggjöfina sem þeir sjá núna að þeir hefðu getað beitt betur. Hið sama á við um samkeppnislöggjöfina,“ segir Haraldur. „Það er ekki allt slæmt við Evrópusambandið, en við viljum ekki tilheyra slíku forræðishyggju bandalagi.“


back to top