Bændur búa sig undir frelsi í innflutningi

Með frumvarpi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um breytingar á matvælalöggjöfinni verður innleidd matvælalöggjöf Evrópusambandsins. Eins og fram hefur komið verður þá m.a. heimill innflutningur á hráu kjöti. Ísland verður hluti af innri markaði ESB hvað matvæli varðar og settar verða upp landamærastöðvar vegna kjöt- og mjólkurvara eins og gert hefur verið með fisk. Þessar breytingar hafa engin áhrif á fyrirkomulag tolla á innfluttar landbúnaðarvörur. Íslensk yfirvöld hafa frest til 27. október 2009 til þess að innleiða þær ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar, sem gilda um búfjárafurðir, kjöt, mjólk og egg.

Þennan tíma þarf að nota til að laga ýmis stjórnvaldsfyrirmæli að löggjöf EBS og breyta lagaframkvæmd. Unnið er að því að fá svokallaðar „viðbótartryggingar“ vegna salmonellu sem þýðir að ESB tekur tillit til þess hve salmonellusýkingar eru fátíðar á Íslandi. Slíkar viðbótartryggingar þýða að takmarka má tiltekinn innflutning il að fyrirbyggja útbreiðslu sjúkdóms.

Gjaldskrár fyrir eftirlitið
Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra setji gjaldskrá fyrir eftirlitið sem kveðið er á um sem byggist á raunkostnaði við það. Þá munu sveitarfélögin setja gjaldskrár fyrir matvælaeftirlit viðkomandi heilbrigðisnefnda. Fleiri breytingar fylgja væntanlegri löggjöf. Aðskilin verður eftirlitstarfsemi héraðsdýralækna frá almennri dýralæknaþjónustu og stóraukið eftirlitshlutverk falið Matvælastofnun.

Í dag eru nautgripa-, svína- og alifuglarækt starfsleyfisskyldar greinar en sauðfjár- og hrossarækt ekki. Það er ekki talin viðunandi staða og er lagt til að þeir aðilar sem stunda sauðfjár- og hrossarækt í atvinnuskyni til matvælaframleiðslu skuli vera starfsleyfisskyldir. Áætlaður kostnaður Matvælastofnunar vegna breytinganna er 42,1 milljón kr. árið 2008, 71,5 millj. 2009 og 83,7 millj. árið 2010. Þar af er tímabundinn stofnkostnaður 8,8 millj. árið 2008 og 3 millj. árið 2009 eða samtals 11,8 m.kr. Frá og með árinu 2010 er þannig gert ráð fyrir að útgjöld stofnunarinnar aukist varanlega um 83,7 millj. kr. Við þá fjárhæð bætist svo 70 millj. fjárveiting sem veitt var í fjárlögum 2007 vegna kostnaðar við upptöku Íslands á tilteknum gerðum í viðauka við EES-samninginn, um viðskipti með dýraafurðir. Heildarkostnaður ríkissjóðs vegna frumvarpsins er áætlaður 57,1 milljón árið 2008, 91,5 milljónir á næsta ári og og 103,7 milljónir árið 2010 til viðbótar við 70 millj. framlag til þessara verkefna sem veitt var í fjárlögum 2007.

Tryggja ber gæði matvælanna
„Við flytjum út mikið af matvælum til Evrópu og það er ekki óeðlilegt að matvælalöggjöf hér sé samræmd því sem hún er í nágrannalöndum okkar,“ segir Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna. „Ég minni hins vegar á að Danir hafa reynt að tryggja að innflutt matvæli til þeirra séu í hæsta gæðaflokki, t.d. hvað varðar gerla á borð við kamfýlóbakter. Við göngum út frá því að stjórnvöld hér á landi tryggi að gæði innfluttra matvæla séu með sama hætti og gerðar eru kröfur um til innlendra matvæla,“ segir hann. Jóhannes minnir á að Neytendasamtökin hafi talað fyrir frjálsari viðskiptum með matvæli þ.á m. landbúnaðarvörur með þeim fyrirvara að gæðin séu tryggð og eftirlitið öflugt bæði með innlendri framleiðslu og innfluttum vörum. ,,Við leggjum líka mjög mikla áherslu á að upprunaland matvæla komi fram í öllum tilvikum þannig að neytandinn geti valið á upplýstan hátt í verslunum,“ segir hann. „Þetta galopnar á innflutning á hráu kjöti frá öllum löndum Evrópusambandsins,“ segir Ingvi Stefánsson formaður Svínaræktarfélags Íslands, um fyrirhugaðar breytingar á matvælalöggjöfinni. Ingvi segir miklar kröfur gerðar til framleiðenda hér á landi um gæði og heilbrigði matvæla. Náðst hafi gríðarlega góður árangur. Í svínaræktinni snúi eftirlitið fyrst og fremst að því að verjast salmonellu og ástand þeirra mála sé mjög gott hér á landi. „Ég efast um að nokkurs staðar í veröldinni sé að finna jafn öflugt eftirlit til að koma í veg fyrir salmonellu í afurðum eins og á Íslandi. Okkur finnst eðlilegt að gerð verði sams konar krafa til innfluttra matvæla eins og gerð er til innlendu framleiðslunnar en því verður ekki að heilsa,“ segir hann. Ingvi tekur fram að eðlilegt sé að neytendur hafi val um hvort kaupa eigi innflutt kjöt eða innlent, „það mun hins vegar reyna á innflutningsaðila að tryggja gæði innflutts kjöts,“ segir hann. Bendir Ingvi máli sínu til stuðnings á að fyrir rúmu ári þegar Danir mældu salmonellu og kamfýlóbakter í matvælum og tóku 90 sýni, kom í ljós að í 33 þeirra mældist of hátt gildi salmonellu og kamfýlóbakter. Voru 32 þeirra í innfluttum matvælum. „Ég hygg að þetta sé ekki síður alvarlegt í kjúklingunum, því víða eru dæmi um lönd innan ESB þar sem tíðni kampfýlobakter er 50-70% í ferskum kjúklingum. Hér á landi eru menn búnir að ná árangri á heimsvísu og honum má ekki fórna,“ segir Ingvi. Spurður hvernig svínabændur eru í stakk búnir til að mæta auknum kjötinnflutningi í kjölfar væntanlegrar lagasetningar segir Ingvi að kostnaður við framleiðsluna hér á landi sé mun meiri en Evrópulöndunum. ,,Þetta mun klárlega auka þá samkeppni sem nú þegar er til staðar. Við svínabændur höfum um nokkurt skeið leitað leiða til að flytja inn erfðaefni til landsins með hagkvæmum hætti. Það mál hefur stoppað á borði yfirdýralæknis. Það vantar því upp á að stjórnvöld komi til móts við okkur til að geta mætt aukinni samkeppni erlendis frá.“


back to top