Askan þykkust norðan Seljavelli

Jarðvísindastofnun Háskólans hefur birt kort af þykktardreifingu öskufalls undir Eyjafjöllum. Þykkast er öskulagið í byggð norðan Seljavelli og liggur þykktarás öskufallsins um austanvert Lambafell, nánast í hásuður frá gígnum í toppi Eyjafjallajökuls.

Þykkt jafnfallinnar ösku, mæld á jafnsléttu 18.04. 2010, er sýnd á meðfylgjandi korti. Tölurnar eiga við óhreyfða eða því sem næst óhreyfða ösku á hörðu undirlagi. Aska sem féll á gróið land sýndist gjarnan þykkari en hún mældist. Jafnþykktarlínur eru dregnar með brotinni línu og gætu hnikast til við fleiri mælingar. Þar sem askan hefur fokið eða runnið til getur hún verið mun þykkari/þynnri en hér er sýnt. Víða hafði blotnað í öskunni áður en hún var mæld og við það þjappaðist hún eitthvað saman. Sýnum var safnað af mældum fleti á flestum stöðum til að reikna þyngd ösku á flatareiningu og verður unnið úr þeim mælingum þegar tóm gefst.


Þykktarás öskulagsins liggur austanvert við Lambafell, nánast beint í suður frá gígunum í toppi Eyjafjallajökuls. Askan er þykkari en 2 cm á um 5 km breiðu belti í byggð og mesta mælda þykkt var 5,5 cm norðan við sundlaugina á Seljavöllum. Enn þá (22.04.) er ekki ljóst hve þykk hún er á heiðum ofan byggðar og á sunnanverðum Eyjafjallajökli. Í byggð þynnist askan nokkuð hratt til beggja átta niður að 0,5 cm þykkt en þynnri dreifar náðu vestur að Hvammi og austur yfir Mýrdalinn. Öskulagið er lagskipt á því svæði sem skoðað var og skiptist í þrjú greinileg lög. Efsta lagið er fíngerðast og yfirleitt þynnra en 0,5 cm. Þetta lag rann saman í harða skán eftir að hafa blotnað og þornað aftur. Hin lögin tvö, sem eru heldur grófari í korninu, verða ekki eins hörð.


Askan sem féll 19.04. var 0,4-0,5 cm jafnfallin við Þorvaldseyri þegar hún var mæld 20.04. Hún er töluvert grófari en sú sem féll 17.04., stærstu korn eru um 0,5 cm í þvermál og fínefni er mun minna. Heildarþykkt jafnfallinnar ösku 17. og 19.04. er því heldur meiri en sýnt er á kortinu.


Komið hefur fram að óvenju mikið er af fínefni í öskunni úr gosi í Eyjafjallajökli. Á öðrum stað á heimasíðunni má sjá graf sem sýnir kornastærð ösku sem féll 15., 16., og 17. apríl í 20-55 km fjarlægð frá upptökum. Mælingar hafa ekki verið gerðar á ösku frá 19.04.


 


back to top