Arion banki og Stjörnugrís í mál við svínabændur

Arion banki og Stjörnugrís hafa ákveðið að höfða mál gegn Samkeppnisstofnun, áfrýjunarnefnd samkeppnismála og fimm svínabændum vegna þess að sameiningu tveggja svínabúa í eigu bankans og Stjörnugríss var hafnað. Forsaga málsins er sú að í byrjun síðasta árs yfirtók Arion banki svínabúin í Brautarholti á Kjalarnesi og á Hýrumel í Borgarfirði þar sem fyrirtækin urðu ógjaldfær vegna erfiðleika á markaðnum í kjölfar bankahrunsins. Bankinn ákvað að selja búin í einum pakka og samdi við stærsta svínakjötsframleiðanda landsins, Stjörnugrís á Kjalarnesi, um að kaupa.

Samkeppnisyfirvöld komust að þeirri niðurstöðu að kaup Stjörnugríss á svínabúunum styrkti markaðsráðandi stöðu félagsins og skapaði umtalsverðar samkeppnishömlur. Hins vegar treysti eftirlitið sér ekki til að hindra samrunann vegna þeirrar fjárhagslegu stöðu sem svínabúin voru komin í, þau hefðu hvort sem er verið á fallanda fæti. Fimm minni svínakjötsframleiðendur áfrýjuðu úrskurðinum og fengu honum hnekkt. Við frekari umfjöllun samkeppnisyfirvalda kom fram að ef til vill hefði Arion banki valið verstu leiðina fyrir markaðinn með því að selja markaðsráðandi fyrirtæki svínabúin.


Áfrýjunarnefnd samkeppnismála staðfesti síðan ógildingu Samkeppniseftirlitsins á yfirtöku Stjörnugríss á svínabúum.


Arion banki og Stjörnugrís hafa nú ákveðið að reyna að hnekkja þessari niðurstöðu með því að höfða mál fyrir héraðsdómi. Samkeppniseftirlitinu og áfrýjunarnefndinni hefur verið stefnt vegna málsins. Athygli vekur að svínabændunum fimm sem upphaflega leituðu til Samkeppniseftirlitsins er einnig stefnt.


Guðbrandur Brynjúlfsson, svínabóndi á Brúarlandi, sagðist vera nokkuð hissa á því að vera stefnt vegna þessa máls. Bændurnir fimm hafi ekki gert annað en að vekja athygli Samkeppniseftirlitsins á því að samruninn fæli hugsanlega í sér brot á samkeppnislögum. Það hefði nú verið úrskurðað tvívegis á þann veg.


Héraðsdómari hefur samþykkt að þetta mál fái flýtimeðferð.


back to top